Dell XPS 12 umfjöllun – Snertiskjárinn snýr aftur

[youtube id=”cu-WjxOWRIQ ” width=”600″ height=”350″]

Það fer ekki á milli mála að með tilkomu Windows 8 stýrikerfisins hefur orðið stóraukning á fartölvum með snertiskjám.  Við fjölluðum nýlega um Lenovo Ideapad Yoga 13 sem fékk fína dóma hjá okkur og var ein fyrsta tölvan á vestrænum markaði með snertiskjá og Windows 8. Næst skoðum við Dell XPS 12 Duo. Helsti munurinn á þessum tölvum er sá að XPS 12 er með mun betra innvolsi  og er minni. Báðar tölvurnar eru hannaðar til þess að geta orðið að spjaldtölvum, en skjárinn á XPS 12 snýst við á hjörum í lokinu og er hægt að loka tölvunni til þess að breyta henni í spjaldtölvu. Tölvan er keyrir á Windows 8 stýrikerfinu, en ekki RT útgáfunni eins og Microsoft Surface RT spjaldtölvan. Með því stýrikerfi er hægt að nýta öll þau forrit sem virkuðu á Windows 7, sem er ekki hægt á Windows 8 RT.

xsduo12_bnb_shot8_bk_Win8

Hönnun

Tölvan er úr koltrefjaefni (e. carbon fiber) og hefur fallegan silfraðan álramma utan um skjáinn. Álið spilar vel á móti svarta litnum á koltrefjaefninu og gerir tölvuna mjög fallega í útliti. Skjárinn sjálfur er 12,5″ að stærð og úr gorilla gleri. Þetta gerir tölvuna mjög harðgerða og er hún því undirbúin fyrir ferðalög. Skjárinn er með svakalega FHD upplausn (1920×1080 díla) og eru litirnir virkilega góðir. Það merkilegasta við vélina er að það er hægt að snúa skjánum í bakhliðinni og leggja hana niður, sem breytir tölvunni í spjaldtölvu. Hún er um 1,5 kg að þyngd, með Intel  i5 örgjörva, 4 GB DDR3 vinnsluminni, 128gb SSD geymsluplássi og Intel HD 4000 skjástýringu. Á vinstri hliðinni eru 2x USB tengi, tengi fyrir hleðslutæki, Mini-Display port og 3,5 mm tengi fyri heyrnatól og/eða hljóðnema. Tölvan er með chiclet lyklaborði sem er þægilegt að skrifa á, en við tókum eftir því að það var þreytandi til lengdar að skrifa á lyklaborðið. Það verður að segjast að hönnuni á tölvunni er til fyrirmyndar og finnur maður að hún er sterkbyggð. Tölvan er þrátt fyrir það ekki þung miðað við fartölvu, en þegar maður snýr skjánum við og notar hana sem spjaldtölvu þá er sagan önnur.

Skjárinn á tölvunni er þar sem hún ber af. 1080p upplausnin skilar sér í mjög skarpri mynd og eru litirnir djúpir og flottir. Skjárinn er næmur við snertingu og á maður ekki í neinum vandræðum með að nota tölvuna þegar skjárinn hefur verið lagður niður, nema að maður ætli að halda á tölvunni. Þar sem að hún er í rauninni fartölva er hún of þung til þess að virka almennilega sem spjaldtölva. Hjarirnar eru helsti veikleiki tölvunnar, en ég get ímyndað mér að þær eigi eftir að vera helsta ástæða þess að hún skemmist. Það er mjög auðvelt að snúa skjánum og þarf maður bara að þrýsta aðeins á eitthvert hornið á honum til þess að hann snúist í hálfhring. Maður getur þó stoppað í miðjum snúningi og get ég vel ímyndað mér að ef að tölvan yrði fyrir höggi þegar maður er að snúa skjánum þá gæti það skemmt hann auðveldlega.

xsduo12_bnb_shot14_bk_Win8

Hugbúnaður og viðmót

Líkt og flestar nýjar tölvur kemur þessi með Windows 8 stýrikerfinu. Stýrikerfið hefur fengið mjög blendnar viðtökur innan simon.is, en það verður að segjast að stýrikerfið er mun þægilegra í notkun þegar maður getur komið við skjáinn. Nýi start-hluti stýrikerfisins og öll öppin eru þægilegri í notkun þegar maður getur snert skjáinn og maður fer ósjálfrátt að nota músina í bland við snertiskjáinn í desktop umhverfinu. Það er sem betur fer ekki mikið af Dell forritum á tölvunni og upplifir maður hana sem hefðbundna Windows 8 vél. Ég fann ýmsa hnökra á stýrikerfinu sjálfu, til dæmis hætti þráðlausa netið allt í einu að virka og þurfti ég að ná í og keyra ‘Windows Network Diagnostic Tool’ til þess að laga það vandamál. Ég lenti líka reglulega í því að snertimúsin hætti að nema snertingu, stundum þegar ég var í miðjum klíðum við að færa músarbendilinn hætti hann að hreyfast og þurfti ég að taka puttann af og setja aftur á til þess að fá hreyfingu á músina.

Framleiðendur leikja og forrita þurfa að fara að nýta sér möguleikana sem snertiskjáir fela í sér enn meira. Úrval appa á Windows 8 er frekar takmarkað, en með tímanum ætti það að aukast. Eini alvöru tölvuleikurinn sem ég sá að var með fullan stuðning fyrir snertiskjá var Sid Meier’s Civilization 5 og kom hann virkilega vel út á tölvunni. Það var virkilega þægilegt að stjórna leiknum á snertiskjánum og hefur mikil vinna verið lögð í að gera upplifunina sem besta. Tölvan keyrði leikinn í 1920×1080 upplausn í medium stillingum án mikilla vandræða, en hún var þó farin að hitna vel þegar kortið í leiknum var orðið stórt.

xsduo12_bnb_shot3_bk_Win8

Niðurstöður

Dell XPS 12 er virkilega flott tölva. Hún er fallega hönnuð, nógu kraftmikil fyrir nánast alla keyrslu og nokkuð þægileg í notkun. Ég er mjög hrifinn af tölvunni og notaði hana daglega, bæði í skólanum og vinnunni. Tölvan fékk alltaf mikla athygli, sérstaklega þegar maður snéri skjánum við og hafði fólk sérstaklega orð á því hvað skjárinn væri góður. Þrátt fyrir það er hún of dýr. Fyrir það verð sem hún er seld á hér er hægt að fá vélar með mun betra innvolsi, en hún er þó ein besta snertiskjás-tölvan sem er í boði í dag. Það má hinsvegar ræða það hvort snertiskjárinn sé að skila miklu með þessu stýrikerfi. Windows 8 er þó með forskot á MacOS stýrikerfið, sem hefur ekki enn náð að koma snertingu í gang, þrátt fyrir augljós tengsl við iOS stýrikerfið sem byggist allt á snertingu.

Kostir:

  • Fartölva og spjaldtölva
  • Falleg og góð hönnun
  • Hægt að snúa skjánum við og breyta í spjaldtölvu

Gallar:

  • Of þung til að virka sem spjaldtölva
  • Of dýr
  • Snertimús dettur út

 

Dell XPS 12 fær 3,5 stjörnur af 5 mögulegum.