Optimus 4XHD, ódýrari flaggskip

LG hefur ekki átt marga sigra undanfarið í farsímageiranum og símanir þeirra ekki að koma vel út í samanburði við Apple og Samsung. LG er þó enn í fimmta sæti yfir vinsælustu farsímaframleiðendur í dag og hefur tekið fram úr gamla risanum Nokia (vegna falls þeirra). LG gefa út Optimus Android farsímalínuna og hefur hún aldrei boðið upp á velheppnaðar dýrari týpur. Ég notaði sjálfur tvær af þeim: Optimus 3d og Optimus 2X, sem eru líklega tveir verstu Android símar á 100 þúsund krónur sem ég hef notað. LG hefur nú gefið út arftaka Optimus 2X, sem heitir auðvitað því skemmtilega nafni Optimus 4XHD. LG hefur greinilega lagt mikið á sig við hönnun þessa síma og hlustað á notendur sína. Þetta er 100 þúsund króna síma með hágæða innvolsi sem gæti komið skemmtilega á óvart.

Innvols

Þetta er þriðji síminn á íslenskum markaði með fjórkjarna 1,5GHz örgjörva og í þetta skiptið er þetta Tegra 3 sem er einnig í HTC One X. Tegra 3 stendur sig afskaplega vel og sérstaklega þegar það fylgir með 1GB af vinnsluminni. Síminn er mjög hraður og snöggur og nýtir sér örgjörvann vel við allar hreyfimyndir í viðmóti símans. Síminn skilar fínum afköstum í Quadrant 2 og nær þar 3740 í einkunn. Það er þó langt frá One X (4890) og Galaxy S3 (5899). Vöfrum var einnig ekkert sérstaklega hröð í samanburði við aðra fjórkjarna síma og einnig var hann frekar lengi að hoppa á milli forrita. Það er greinilegt að viðbætur og breytingar LG leiða að því að draga niður afköst þessa örgjörva. Síminn kemur með 16GB geymslupláss (12,26GB aðgengileg) og microSD til að bæta við meira plássi. Þetta er fínt innvols miðað við verð.

Rafhlaða

4XHD er með eina stærstu rafhlöðu sem ég hef séð: 2150 mAh. Það er stærra en á Galaxy S3 og One X. Síminn nær illa að nýta sér það og er að endast mér svipað langt og One X (sem er með 1800 mAh rafhlöðu). Það gæti samt verið því að kenna að skjárinn er mjög bjartur og sjálfvirkarbirtustillingar ekki að virka vel. Ég notaði því flýtitakka efst í tilkynningargardínunni til að hoppa á milli birtustiga og það sem var í boði var: engin birta, 50% birta og 100% birta. Ég endaði oftast á 50% og hoppaði upp í 100% í mikilli sól. Það hefur örugglega áhrif á endingu rafhlöðunni (bæði of háar tölur) þar sem ég get auðveldlega notað 30-40% birtu í vinnunni og 80% þegar ég er í sól á öðrum símum. Þetta er auðveldlega hægt að leysa með appi, en er þó frekar óþægilegt. Endingin er þó ekki slæm, en ég bjóst við meira.

Mynd og hljóð

Síminn er með glæsilegan 4,7″ TrueHD IPS LCD skjá. Þrátt fyrir hrikalegt nafn, þá er skjárinn er skarpur og sýnir flotta liti. Myndbönd og myndir koma ótrúlega vel út. Skjárinn er þó ekki nógu nálægt ysta lagi símans (rispuvörninni) og kemur því ekki nógu vel út í sól (sem er ekki stórt vandamál á Íslandi).

Síminn er með tvær myndavélar: 8MP að aftan með flassi og 1,3MP að framan fyrir myndsímtöl. Síminn tekur skýrar myndir og flassið er sterkt. Hann er oftast snöggur að ná fókus, en átti til með að taka mynd áður en hann náði fókus (sem gæti hafa verið mín eigin óþolinmæði). Myndavélarappið sjálft er mjög lengi að opnast. Ef notuð er flýtivísun í myndavélina frá aflæsingarskjánum þá er appið sérstaklega lengi að opnast. Þetta var óneitanlega óþægilegt og maður missti oft af augnablikinu. Síminn er sérstaklega góður að ná skotum alveg upp við myndefnið (ég tek slatta af myndum af raðnúmerum, ekki spyrja). Myndavélin styður HDR sem ég notaði slatta og kom oft skemmtilega út. Þessi myndavél er góð og ég get mælt með henni, en hún kemst ekki nálægt Galaxy S3 og One X í gæðum og getu.

Hátalari símans er staðsettur aftan á símanum og heyrist ágætlega í honum. Hringitónarnir sem fylgja með eru reyndar frekar leiðinlegir, en eru líklega hannaðir til að það heyrist alltaf vel í þeim (sem það gerir). Það heyrist vel í þeim hringja, en ég tók eftir því að það var smá seinkunn á því að ég svari símtali og það heyrist í mér. Það er vont, en það venst auðveldlega. Það fylgja með mjög fín heyrnatól sem fara alveg inn í eyrun og eru þau með hljóðnema og takka til að svara eða skipta um lag.

Hönnun

Maður sér strax að mikið hefur verið lagt í hönnun Optimus 4XHD. Hann minnir mig þó óþægilega mikið á Samsung Galaxy SII. 4XHD fær lánað kassalega útlit Galaxy SII en bætir við tveimur krómröndum sem umkringja símann á öllum hliðum. Á milli þeirra er “prism” rönd til að krydda upp á krómið. Ég er ekki mikill krómaðdáandi en þetta rétt sleppur. Bakhlið símans er með skálaga gúmmíáferð sem kemur í veg fyrir að síminn sé sleipur, sem svínvirkar. Síminn helst stöðugur á hallandi flötum og helst vel í hendi.

Flottur

Á símanum er mjög fáir takkar: ræs og aflæsingartakki að ofan hægri megin, hljóðstyrkstakki á vinstri hlið og þrír snertitakkar fyrir neðan skjáinn (til baka, heim og valmynd). Ég er ánægður með valmyndartakkann og hef sjálfur ekki komist upp á lagið með að nota takkann til að hoppa á milli forrita sem er á Galaxy Nexus (sem mér finnst virka fyrir spjaldtölvur). Ég er hinsvegar ekki ánægður með til baka takkann (fyrir rétthenta). Ef það er haldið á símanum með vinstri hönd þá er mjög erfitt að smella á til baka, þar sem síminn er það breiður að það erfitt að ná á þann takka og lenti í því að ýta oft á heim-takkann. Það er næstum dauðasynd að setja ræsitakkann efst á svona stóran síma, sem gerir það mjög erfitt fyrir mann að kveikja á skjánum einhentur. Takkinn stendur samt vel út og þetta er vont en það venst merkilega vel.

Viðmótið er bara nokkuð nothæft og gott. Það er kannski ekki eins flott og venjulegt Android, en ekki ljótt. LG ákveður að bæta lítið við og heldur sig við nær óbreytt Android. Þeir bæta við nokkrum hlutum sem ég var sérstaklega ánægður að sjá eins og: mismunandi hreyfingar þegar farið er milli skjáa, fimm raðir af öppum í yfirliti forrita, fallegur aflæsingaskjár sem sýnir glitta í það sem er í gangi áður skjánum er aflæst og mjög stillanlegan aflæsingaskjár með flottum klukkum. Flest tákn eru því miður ljót og asnalegt. Öll eru þau með kassalega ramma utan um sig í fáranlega björtum litum.

Niðurstaða

Þægileg áferðLG hefur verið aðeins of mikið að elta Samsung og mér finnst það hættulegur leikur fyrir þá. Þeir koma illa út við samanburð og þurfa nú að lækka verðin á öllum sínum tækjum til að geta klórað sig fram úr í samanburði. Þessi sími er einmitt á mjög góðu verði í samanburði Galaxy S3 (130-135 þúsund) og One X (115-120 þúsund) og er að kosta 99 þúsund krónur á flestum stöðum (ódýrast hjá Elko á 98.995 kr.). Það er talsverður munur og miðað við getu þá er erfitt að mæla ekki með Optimus 4XHD. Munurinn sést samt augljóslega á hugbúnaði þessa síma. HTC Sense og Samsung TouchWiz er mun lengra komið og bjóða þau viðmót upp á mun fleiri eiginleika (og svo er spurning hvort maður noti þá). Góður skjár, hraður örgjörvi, nóg af geymsluplássi og flott hönnun. Í heildina litið þá kemur 4XHD mjög vel út.

Kostir

  • Stór og góður skjár
  • Ódýrasti fjórkjarna síminn
  • Þunnur og léttur (miðað við stærð)
  • Nothæft Android viðmót

Gallar

  • Erfitt að nota einhent/ur
  • Hægari en aðrir símar í sínum flokki
  • Einfaldur hugbúnaður (less is more?)
  • Ending rafhlöðu ætti að vera betri

Simon.is gefur Optimus 4XHD 8,0 af 10 mögulegum í einkunn.

 

Heimildir:

http://www.engadget.com/2012/08/08/npd-q2-2012/

 

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] þegar við prófuðum símann fundum við lítinn mun á Note II í vasa og okkar eigin símum (Optimus 4X og Galaxy Nexus) eftir smá […]

Comments are closed.