Takmarkaðu gagnamagnsnotkun til að komast hjá háum reikningum

Við fjölluðum nýverið um Strætó appið, en við vinnslu þeirrar greinar kom í ljós að appið er með ansi slæmum galla. Þessi galli verður til þess að appið heldur áfram að keyrast í bakgrunninum og hala niður upplýsingum. Appið náði í um 150 MB  á innan við klukkutíma. 150 MB geta verið dýrkeypt ef maður er ekki með gagnamagnspakka. Þetta hefði kostað mig 900 kr. hjá Vodafone, 1170 kr. hjá Símanum, 150 kr. hjá Tal og 1170 kr. hjá Nova. Það er þó hægt að fylgjast nokkuð auðveldlega með þessari notkun í Android, ef síminn er með útgáfu 4.0 eða nýrri.

Til þess að skoða gagnamagnsnotkun í símanum er farið í Settings -> Data usage. Þar er hægt að setja takmörk á hversu hátt gagnamagnsnotkunin má fara. Það er líka hægt að stilla að það komi viðvörun þegar ákveðið mörgum MB er náð. Eftir að takmörkunum hefur verið náð slökknar sjálfkrafa á netinu í símanum og kemur þannig í veg fyrir umframreikninga.

Bakgrunnsgagnamagn

Á valmyndinni er hægt að fá ýmsar ítarupplýsingar um gagnanotkun á hverju appi fyrir sig. Ég var nýbúinn að strauja símann minn og eru tölurnar því ekki mjög drastískar. Í þessari valmynd er hægt að velja neðst niðri ‘Restrict background data’ og kemur það þá í veg fyrir að öppin séu að éta upp óþarfa gagnamagn þegar þau eru ekki í gangi. Flóknara er það ekki!