Strætó appið – Gagnlegt en étur gagnamagn!

Athugasemd: Strætó BS hafði samband við Simon.is eftir birtingu fréttarinnar. Þeir vilja koma því á framfæri þeir séu að vinna hörðum höndum að uppfærslu til þess að lagfæra gallann. 

Strætó bs. gaf loksins út “official” strætó app í síðustu viku. Fyrir voru til tvö strætó öpp, Strætó (beta) frá Alda Software og Taktu Strætó eftir Kristján Bjarna Guðmundsson. Það hafa allir strætófarar beðið með mikilli eftirvæntingu eftir að Strætó bs. gefi út almennilegt app, þar sem hin öppin voru frekar takmörkuð. Appið er komið út á Android og iOS, en Windows Phone 8 útgáfa er í vinnslu og mun líta dagsins ljós von bráðar.

Strætó appið er ekki mikið fyrir augað. Aðalvalmyndin samanstendur af 6 valmöguleikum og er ekki mjög tilkomumikil. Appið bætir þó upp fyrir útlitið með því að vera vel nothæft. Möguleikinn Skipulagðu ferð er sá sem ég hugsa að flestir munu nýta sér og er ekki ósvipaður leiðarvísinum á strætó.is. Þar notar appið staðsetningarbúnað símans og maður getur slegið inn hvert maður er að fara, þá segir appið manni hvernig er fljótlegast að koma sér þangað. Það er líka hægt að opna kort og smella á þann stað sem maður vill fara á, sem er ekki hægt á vefnum. Ekki veit ég þó hvort Strætó bs. sé að fara að byrja rekstur á flugvélum og ferjum, en það er boðið upp á þá valmöguleika í appinu. Mig grunar sterklega að appið sé aðkeypt og aðlagað að Strætó bs. Ferðaskipulagningin er ítarleg og nokkuð góð, en þó frekar einföld í útliti.

 

Appið nýtir sér staðsetningarbúnað snjallsíma vel og er hægt að fá upp tvennskonar rauntímakort. Annarsvegar til að sjá hvar vagnarnir eru staddir og uppfærist kortið nokkuð hratt. Hinsvegar er hægt að sjá hvar stoppistöðvar í nánd við símann eru, sem getur komið sér mjög vel ef maður veit ekki hvar stoppistöðvarnar í nágrenninu eru. Það er hægt að smella á biðstöðvarnar og fá upp hvaða leiðir stoppa þar og hvenær þeir koma. Kortin gætu þó verið gagnlegri, til dæmis með því að sýna leiðina sem strætó fer á rauntímakortinu eða að sjá bæði leið og biðstöðvar á sama kortinu.

Það er hægt að velja sínar uppáhalds biðstöðvar og vista þær, sem getur komið sér vel ef að maður tekur strætó reglulega en á erfitt með að muna hvenær hann kemur. Það er einnig hægt að fá upp gjaldskrá strætó og svo ferðafréttir. Ferðafréttirnar gætu mögulega verið notaðar til þess að tilkynna tafir eða breytingar á tímum (t.d. á helgidögum), en ég efast stórlega um að margir eigi eftir að opna þetta áður en þeir taka strætó. Tilkynningarnar þyrftu frekar að vera sýnilegar á forsíðunni til þess að fólk mundi taka eftir þeim.

Appið sjálft er mjög nothæft og get ég ímyndað mér að það gagnist mörgum. Ég mun sjálfur koma til með að nota það þar sem að ég þekki strætó ekki mjög vel. Það vantar hinsvegar aðeins upp á að appið verði mjög gott, það er ekki mjög flott útlitslega séð og hefði aðeins meiri hugsun mátt fara í uppbygginguna á appinu. Það vantar líka einfalda hluti, eins og til dæmis  leiðarkerfið. Ég fann hvergi leið til þess að smella á ákveðna leið og sjá hana alla á korti eða fá tímatöflu. Þó svo að kortið komi að miklu leyti í staðinn fyrir það get ég ímyndað mér að þeir sem að þekki strætó gæti fundist þægilegt að smella bara á “Leið 12” og fá þá upp tímatöflu og möguleika um að fá kort. Ég get líka vel ímyndað mér að þetta app sé mjög nothæft fyrir ferðamenn og ég vona að aðillar innan ferðaþjónustunnar bendi þeim á að nota það, sérstaklega fyrst það er möguleiki á því að hafa það á ensku.

 

VARÚÐ: Ég var að mæla gagnamagn sem appið notar og komst að því að það var búið að nota 122 MB af gagnamagni á meðan það var ekki í gangi. Það er því einhver böggur í appinu sem veldur því að það étur upp gagnamagn. Ekki nota appið nema að vera búin að velja “Restrict background data” (hægt í Android 4.0 og nýrri útgáfum og á iOS). Þetta er alvarlegur galli og ég er búinn að senda tölvupóst á hönnuði til þess að láta vita. Á um 15 mínútum var appið búið að ná í 45 MB.

Vel nothæft app (fyrir utan gagnamagnsgalla) sem vantar upp á útlistlega séð. Gott framtak og skref í rétta átt.

Appið má finna á og App Store. Windows Phone notendur geta nýtt sér vefinn gulur.is þangað til að Windows appið kemur út.

 

2 replies

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] Regnbogann í Reykjavíkurkjördæmi suður. Hann er hagfræðinemi, á LG snjallsíma og notar Strætó appið mest af öllu. Hann gat ekki tekið skjáskot af símanum sínum en sendi okkur þess í stað mynd […]

  2. […] fjölluðum nýverið um Strætó appið, en við vinnslu þeirrar greinar kom í ljós að appið er með ansi slæmum galla. Þessi galli […]

Comments are closed.