Samsung Galaxy Beam umfjöllun
Samsung Galaxy Beam er áhugavert tæki en jafnframt sími sem stendur sig vel ágætlega í samanburði við önnur símtæki. En innbyggði skjávarpinn er auðvitað það sem stendur alveg sér á báti á þessum síma. Samsung kann að búa til góðan síma en nú er spurninginn hvort svona aukahlutur eins og skjávarpi stendur sig.
Hönnun og Innvols
Það er erfitt að sjá á hönnun símans að það sé heill skjávarpi innbyggður í hann. Fyrir vikið er síminn stærri en það sem þekkist á sambærilegum tækjum en þó ekki of. Við sættum okkur hér áður fyrr við síma á borð við Nokia 5110 sem daglegan síma og þessi sími er ekki jafn stór hann. Það er sportleg rönd allan hringinn á símanum sem lítur ágætlega út. Takkarnir á hliðum símans eru ekkert merkilegir, ef eitthvað þá er frekar eins og þeim var bætt við eftir á og ekki mikið meira spáð í þá, ég greip oft í on/off takkan þegar ég ætlaði að fara í að kveikja á varpanum, vont en það venst.
Það er þægilegt að halda á símanum, en hann kemur með einhverskonar gúmmí bak og þykktin virkar ágætlega í hendi. Örgjörvinn sem keyrir símann er ST-Ericsson U8500, sem er tvíkjarna og keyrir á 1000 MHz. Í símanum er einnig 768 MB vinnsluminni og ARM Mali-400 skjáhraðall. Síminn var fínn í daglega hluti og ekki var að sjá neitt hik á vinnslu með þessa samsetningu. Endingin á batterí var til fyrirmyndar, en síminn gekk í meira en einn og hálfan dag með hefðbundinni notkun án þess að komast í hleðslu en í símanum er 2000 mAh rafhlaða. Ending á skjávarpa með fulla hleðslu var á að vera þrír tímar, en það virkaði nærri lægi því síminn átti um 25% eftir þegar rúmlega tveggja tíma mynd hafði spilast.
Skjár og Myndavél
Myndavélin er 5 megapixla og fín í að taka þessar hefðbundnu tækifærismyndir, en ekki mikið meira en það. 1.3 MP myndavél er að framan sem er fín til að nota fyrir myndsímtöl. Skjárinn er 4 tommur að stærð og keyrir í upplausninni 480×800. Litirnir virka hinsvegar daufir á skjánum og er það líklegast vegna þess að baklýsingin er örlítið sterkari en vanalega á þessum skjá í sambærilegum síma.
Aðalmálið í þessum síma er hinsvegar skjávarpinn! Við prófuðum að keyra bíómyndir í gegnum símann og það virkaði merkilega vel. Samsung segir að hægt sé að stækka skjáinn í allt að 50 tommur. Við prufun hjá okkur var eins og upplausnin gaf undan þegar hún stillt svo há, en það slapp ef þú þarft ekki að vera mjög nálægt myndfletinum. Að hafa símann í fjarlægð frá vegg þannig að skjárinn er cirka 40 tommur leit margfalt betur út og upplausnin vann með skjávarpanum í gæðum. Það er merkilegt afrek að koma heilum skjávarpa fyrir í símann og verð ég að segja að eitt og sér var það virkilega flott að sjá. Hinsvegar þá verður að minnast á að varpinn er einungis með styrk upp á 15 lumens. Til að hafa samanburð þá eru venjulegir skjávarpar með minnst 800 lumens styrkleika í dag. Slíkt gerir það að síminn er eingöngu nothæfur sem varpi í nánast algeru myrkri. Það að vera í herbergi með sólargluggatjöld nægði ekki til að fá nægilegt myrkur til að varpinn skilaði sínu besta. Þetta verður líklega mjög nothæft innandyra sem utan á Íslenskum vetri, en nánast ónothæft að sumri til vegna birtu sem smýgur inn í herbergin sem þú myndir vilja nota þetta í.
Stýrikerfi og hugbúnaður
Síminn kemur með Android 2.3.6 sem er orðin frekar gömul útgáfa og þú missir af þeim viðbótum sem nú eru orðnar staðlaðar í nýrri útgáfum, sem er miður því síminn getur alveg ráðið við nýrri útgáfu af Android miðað við innvols. Einnig eru engar upplýsingar fáanlegar um uppfærslu á kerfinu sem stendur. Annars virkar stýrikerfið vel í notkun og allir leikir og upplifun á notkun símans er til fyrirmyndar.
Niðurstaða
Síminn virkar ágætlega miðað við daglega notkun og skjávarpinn er skemmtileg viðbót. Verð á símanum hefur ekki verið gefið út og mun það líklega vera í hærri kantinum. Spurningin er hvort síminn sé þess virði að kaupa bara fyrir skjávarpann. Ég get ímyndað mér að það séu aðstæður sem það gæti verið gott að hafa slíkann síma við hendina. Til dæmis sölukynning hvar sem þú ert eða bara að sýna félögunum eitthvað myndbrot sem er skemmtilegt. En styrkur varpans er það lítill að ég efa að þú fáir alla með þér inn í kompu eitthver staðar bara til að kíkja á smá myndbrot eða kynningu.
Það verður samt sem áður áhugavert að fylgjast með næstu útgáfum af þessum síma með sterkari varpa og jafnvel búið að minnka umgjörð og stærð símanns enn frekar.
Kostir
- Innbyggður skjávarpi með allt að 50 tommu að stærð
- Góð batterísending
Gallar
- Eldri útgáfa af Android
- Verð 99.990 (Síminn)
Simon.is gefur Samsung Galaxy Beam 7.2 af 10 mögulegum í einkunn.