Potaðu í Facebook vinina með nýju appi

Facebook gaf á dögunum út enn eitt snjallsíma appið. Nú er það Pota (e. Poke) möguleikinn sem margir Facebook notendur kannast við sem er kominn út fyrir iOS tæki (iPhone, iPad ofl.). Android bíður betri tíma.

Nýja appið er lítið og nett og ef þú ert með Facebook appið í símanum, veit Poke appið hver þú ert strax við fyrstu notkun og þarf því ekkert að skrá sig sérstaklega inn. Poke möguleikinn á Facebook er mjög takmarkaður. Maður getur valið að pota í einhvern til að minna á sig eða ná athygli. Hinn aðilinn getur þá potað til baka eða sleppt því! Ég hef aldrei áttað mig almennilega á þessu fyrirbæri svo ég segi mína skoðun á þessu.

Í nýja appinu er búið að útfæra pot-möguleikann. Nú er ekki einungis hægt að senda pot, heldur er einnig hægt að senda texta, myndband, eða ljósmynd. Ekki nóg með það heldur stillir maður sjálfur hversu lengi potið (ljósmyndin, textinn eða myndbandið) birtist hjá hinum aðilanum. Að þeim tíma loknum hverfur potið og einu ummerkin eru þau að maður sér hver sendi manni pot og hverjum maður sendi svoleiðis. Það er sem sagt hægt að senda vini eða vinkonu mynd, sem maður vill ekki endilega að fari í almenna birtingu, og stilla potið þannig að það birtist í örfáar sekúndur. Að þeim tíma liðinum er myndin horfin úr símanum hjá viðkomandi. Það sem meira er þá lætur appið mann vita ef viðkomandi hefur verið snöggur til og tekið skjáskot af potinu. Þetta er ekki alveg nýtt af nálinni því margir snjallsímanotendur kannast við Snapchat appið sem gengur út á þetta sama, að senda einhverjum ljósmynd sem birtist bara í skamma stund og hverfur svo.

Ég veit ekki alveg með þetta app, hvort þetta sé eitthvað sem maður kemur til með að nota. Maður getur vissulega ímyndað sér að þetta sé sniðugur fídus fyrir einhverja. Nú þegar er farið að tala um að þetta sé notað í kynferðislegum tilgangi. Hingað til hefur Facebook ekki verið þekkt fyrir of mikla persónuvernd. Það kæmi því ekki á óvart ef fyrirtækið myndi halda eftir öllum potunum á einhverjum miðlægum server, svona til að grípa ef það hentar. Hvað haldið þið? Er þetta sniðugt app?

.