Sony Vaio SVS13 umfjöllun

Síðast skoðaði Simon Sony Vaio fartölvu fyrir einstaklinga, en næst á dagskrá er tölva úr fyrirtækjalínu Vaio. Um er að ræða Vaio SVS13 sem er öflug 13″ fartölva byggð fyrir ferðalög og mikla vinnslu. Tölvan er kannski ekki ultrabook, en hún er mjög létt og meðfærileg.

Innvols

Tölvan kemur með öflugum Intel i7 tvíkjarna örgjörva (3520M) með 2,9-3,6 GHz tíðni og 4 GB í vinnsluminni (allt að 12 GB). Það er 750 GB snúningsdiskur (5400 snúningar) í vélinni sem býður upp á fullt af plássi en er hægari en SSD diskar. Tölvan er þó mjög snögg að vakna úr svefni og að opna forrit. Það eru tvær skjástýringar í tölvunni: öflugt NVIDIA GeForce GT640M LE og svo rafmagnssparneytið Intel HD 4000. Hægt er að skipta á milli þeirra með takka sem fer á milli SPEED og STAMINA. Þrátt fyrir að vera þunn og létt þá fylgir með DVD drif til að skrifa og lesa DVD. Viftan í tölvuni er frekar hávær, sérstaklega ef tölvan er stillt á SPEED en þá notar tölvan öflugra skjákortið í stað skjástýringar.

Rafhlaða

Það er frábær rafhlaða í vélinni sem endist í allt að 8 tíma. Ég var mjög ánægður með endinguna og gat notað tölvuna heilan vinnudag án þess að hlaða.

Hönnun

Tölvan er einstaklega nett miðað við getu og er búin til í harðgerðari blöndu úr magnesíum og áli. Það er mjög þægilegt að halda á tölvunni þar sem áferðin er frekar hrúf. Lyklaborðið er mjög þægilegt chiclet lyklaborð sem ég vandist á stuttum tíma. Snertimúsin er aðeins of breið og ég rakst stundum í vinstra hornið efst á henni þegar ég var á lyklaborðinu. Það er eflaust eitthvað sem venst en ég hef ekki lent í þessu á öðrum tölvum sem ég hef verið að prófa. Annars var snertimúsin mjög góð og hægt að stilla fullt af aðgerðum (e. gestures), m.a. aðdrátt, tveggja putta skroll og margt fleira.

Tölvan getur farið í dokku og tengst þar fljótlega við staðalnet, aukaskjái og aðra aukahluti. Nýherji býður upp á dokku með inniföldu 500GB geymsluplássi sem mér finnst mjög sniðugt. Dokkan er því miður ekki með 3,5mm hljóðtengi (e. jack).

Það fylgi slatti af uppsettum forritum með eins og t.d. Vaio Gate sem ég hef áður talað um. Vaio Gate er einhvers konar forritadokka sem felur sig efst í Windows. Þegar maður er að loka eða minnka glugga þá poppar það yfir bendilinn sem er frekar óþægilegt. Ég var fljótur að slökkva á því. Tölvan kemur uppsett með Windows 7 Professional sem er gott fyrir fyrirtæki.

Mynd og hljóð

Tölvan er með 13,3″ skjá með 1366×768 upplausn. Stærðin á skjánum er ágæt, en upplausnin hentar fyrirtækjum illa. Hægt er að fá 15″ útgáfu af þessari tölvu með hærri upplausn sem hentar betur fyrir ritvinnslu, gluggareikni og myndvinnslu. Það er ekki hægt að horfa á skjáinn frá hliðum, þar sem litir byrja hratt að skolast upp þegar það er gert. Það getur verið verra þegar margir vinna saman í einni tölvu (hópavinna).

Tölvan er með fína hátalara og 3,5 mm hljóðtengi sem er samnýtt fyrir hljóðnema. Hljóðið úr hátölurunum kom mér á óvart, en er auðvitað frekar slappt eins og á öllum fartölvum.

Niðurstaða

Við getum mælt með þessari tölvu fyrir háskólanema, fyrirtæki og tölvuleikjaáhugafólk.

Kostir

  • Harðgerð
  • Vel hönnuð
  • Dokkast

Gallar

  • Lélegur skjár
  • Lág upplausn

Simon gefur Sony Vaio SVS13 7,0 af 10 möguleikum í einkunn.