Búðu til hringitóna fyrir iPhone – leiðbeiningar

iPhone eigendur þekkja það flestir að hafa lítið úrval af hringitónum í símanum. Þetta eru sömu 4-5 hringitónarnir sem “allir” nota. Persónulega finnst mér pirrandi þegar ég heyri iPhone hjá einhverjum hringja, sem er með hringitóninn sem ég nota sem vekjara. Þekkja þetta ekki flestir iPhone eigendur? Auk þess eru eru jólin á næsta leyti og sumir eru ólmir í að setja jóla-hringitón í símann.

Almenna leiðin við að ná sér í hringitóna er að kaupa þá í gegnum iTunes Store, öfugt við það sem var áður fyrr þegar maður keypti hringitóna á vefsíðum símafyrirtækjanna. Gallinn við þetta er sá að iTunes Store er ekki í boði fyrir Íslendinga. Okkur er því ómögulegt að kaupa hringitóna, nema með krókaleiðum og með því að fara á svig við reglur Apple og iTunes.

Þess vegna setti ég saman einfaldar leiðbeiningar hvernig nota má iTunes til að búa til hringitón fyrir iPhone, úr lagi sem er þegar í tölvunni. Auðvitað mælist ég til þess að fólk noti eingöngu tónlist sem það hefur greitt fyrir.

Leiðbeiningarnar eiga að gagnast öllum, óháð því hvort notandi sé með Windows XP og upp úr eða Mac OS. Athugið þó að það getur verið smá breytileiki á milli stýrikerfa og hvaða útgáfu iTunes notandi hefur. Munurinn er þó það lítill að allir ættu að átta sig á réttu leiðinni. Þegar þið gerið þetta í fyrsta skiptið tekur þetta nokkrar mínútur og jafnvel að þið þurfið að byrja upp á nýtt. Í annað skiptið tekur þetta mun styttri tíma. Eftir það er þetta ótrúlega einfalt og fljótlegt.

 

Fyrst er að opna iTunes og lagið sem maður vill nota bút úr sem hringitón. Hringitóninn má vera allt að 30 sekúndur að lengd. Ég valdi mér byrjunina á laginu Gleipnir með heitustu hljómsveit Íslands í dag, Skálmöld. Gríðarlega öflugt lag með mjög hringitónavæna byrjun. Velja þarf lagið í iTunes, hægri smella á það og velja Get Info og opnast þá gluggi. (Þegar þetta er gert þarf að vera búið að ákveða hvaða bút úr laginu maður ætlar að nota sem hringitón og skrifa niður eða muna á hvaða tíma þetta byrjar og endar. Í þessu lagi nota ég introið en oft vill maður nota viðlagið sem er þá eðlilega inní miðju lagi.)

 

Næst veljum við Options flipann. Þar má sjá Start Time og Stop Time dálka sem þarf að haka í og velja tímann sem maður vill “klippa” úr laginu, að hámarki 30 sekúndur. Á myndinni hef ég valið fyrstu 21 sekúndu lagsins. Næst veljum við OK og þá lokast glugginn. Það sem nú er búið að gera er að skilgreina lagið þannig að einungis spilist fyrsta 21 sekúndan í því og svo spilast næsta lag venjulega ef ekkert hefur verið átt við það. (ATH þegar þið eruð búin að gera hringitóninn þurfið þið að fara aftur sömu leið inn í lagið og taka hökin tvö úr Start og Stop til að lagið spilist áfram venjulega í iTunes)

Nú hægri smellum við aftur á lagið og veljum í þetta skiptið Create AAC Version (í sumum iTunes heitir þetta Convert Selection to AAC). Nú er iTunes búið að búa til nýja útgáfu af laginu, sem er búturinn sem við skilgreindum með tímanum í lið 1. (Ef þið fáið ekki möguleikann að breyta í AAC heldur bara í MP3 þarf að fara Preferences og velja þar import settings og breyta í AAC).

4 Nú eru komnar tvær útgáfur af laginu. Við hægri smellum á stuttu útgáfuna og veljum Show in Windows Explorer (eða Show in Finder). Opnast þá gluggi þar sem lagið er geymt.

Nú þarf að breyta endingu skjalsins úr .m4a í .m4r. Einfaldlega að breyta síðasta stafnum úr a í r. (Ef þið sjáið ekki .m4a endinguna í Windows þurfið þið að fara í Tools -> Folder Options -> View (Organize -> Folder and Search Options í Vista), og taka hakið úr Hide extensions for known file types. Veljið svo OK. – Ef þið hafið ekki Tools möguleikann uppi þá þarf að ýta á alt-takkann og þá birtist stikan með Tools möguleikanum). ATH það fer eftir því hvaða forrit eru í tölvunni og hvernig þau eru stillt, hvort maður sjái appelsínugula keilu eða bláan eða svartan tón o.s.frv. Ekki láta það trufla ykkur.

Nú þarf að eyða laginu úr iTunes. Hægra smellt á lagið í iTunes og valið Delete. Þá kemur upp gluggi og biður þig að staðfesta sem þú gerir. Þarna þarf að passa að velja Keep file ef iTunes spyr þig hvort þú viljir eyða laginu úr tölvunni, henda því í ruslatunnuna.

 

7 Að lokum förum við til baka í möppuna og tvísmellum á lagið. Þá opnast það í iTunes og af því við erum búin að skilgreina það sem hringitón opnar iTunes það undir Tones hlutanum sem er uppi vinstra megin undir Library hlutanum. (Ef þið sjáið ekki Tones þarf að fara í Preferences og haka þar í Tones í Sources hlutanum).

Nú eruð þið komin með iPhone hringitón í iTunes. Síðasta skrefið er að samstilla/synca símann við iTunes. Það ættu allir iPhone eigendur að þekkja hvernig það fer fram. Það eina sem þarf að passa er að hakað sé í Sync Tones í Tones flipanum í Devices.

 

Ef þið lendið í einhverjum vandræðum er ykkur óhætt að spyrja annað hvort hér að neðan eða á Facebook síðu Simon.is og ég reyni að svara um hæl.

Að lokum læt ég fylgja með iPhone hringitón með flottasta og vinsælasta stuðningsmannalagi Íslands fyrr og síðar – Allir í gallana stuðningsmannalag Völsungs (hægri smellið og veljið save as og fylgið svo leiðbeiningunum frá skrefi 7). Einnig getið þið náð í Simon.is stefið okkar flotta.