Windows Phone 8 verður tilkynnt í dag

Microsoft mun kynna Windows Phone 8 í dag klukkan 17:00 (á íslenskum tíma) í San Francisco. Hægt er að fylgjast með með kynningunni í gegnum vefvarp hjá Microsoft News Center og mun Simon.is gera samantekt seinna í kvöld fyrir ykkur.

Microsoft hefur verið mjög þögult fram að þessu en mikið hefur lekið út og mörg símtæki tilkynnt. Stýrikerfið mun nú styðja við öflugri örgjörva (tví og fjórkjarna), hærri upplausn (háskerpuupplausn), microSD raufir og NFC. Það mun einnig bjóða upp á áhugaverðan hugbúnað eins og Internet Explorer 10, Wallet (síminn sem greiðslukort), Datasmart (gagnamagnsteljari), BitLocker (gagnaöryggi) og margt fleira. Einnig þá mun Windows 8 og Windows Phone 8 virka mun betur saman en fyrri kerfi.

HTC hefur tilkynnt tvo síma: 8X og 8S. Símarnir eru litríkir rétt eins og Lumia símarnir. 8X er stærri síminn með 4,3″ háskerpuskjá, tvíkjarna örgjörva og 16GB plássi. 8S er aðeins minni með 4″ skjá með WVGA upplausn, tvíkjarna örgjörva og 4GB plássi en kemur þó með microSD rauf (ólíkt 8X). HTC hefur ekki gengið vel undanfarið og verður spennandi að sjá hvort þeir nái árangri með þessari línu.

Nokia hefur einnig tilkynnt tvo síma eins og við höfum fjallað um áður: Lumia 920 og 820. Báðir hafa fengið talsverða athygli og þá helst 920 síminn sem er hlaðinn fídusum eins og þráðlausu hleðslutæki, snertiskjár sem virkar þegar þú ert í hönskum og fljótandi linsu sem býður upp á aukin stöðugleika við myndbandsupptöku.

Samsung stal á sínum tíma senunni og var undan Nokia að tilkynna Windows Phone 8 síma: Samsung Ativ S. Síminn minnir óneitanlega mikið á Galaxy S3 og mun verða með 4,8″ S-AMOLED hákserpuskjá, tvíkjarna örgjörva, 16/32GB plássi  og microSD rauf.

LG hefur ekki tilkynnt síma og virðist vera fylgja eftir stefnu sinni að hætta að framleiða Windows Phone síma.

Simon er spenntur fyrir því að prófa fyrstu tækin og þá sérstaklega til þess að sjá hvernig Windows 8 og Windows Phone 8 virka saman.