Nokia 808 PureView umfjöllun – Myndavélin með innbyggða símanum

Í febrúar síðastliðnum kynnti Nokia til sögunnar 808 PureView símann sem kom svo á markað nú í júní. Síminn vakti strax mikla athygli og þá ekki síst vegna myndavélarinnar sem er hvorki meira né minna en 41 MP, með Carl Zeiss linsu og öflugri myndflögu en áður þekktist í farsímum. Myndavélin nýtir nýja tækni Nokia sem kallast PureView og í henni felst að síminn notar þessa gríðarmörgu megadíla og sameinar marga í einum. Þetta skilar hágæða myndum sem eru samkeppnishæfar myndum úr stórum “alvöru” myndavélum. Síminn er nokkuð spennandi. Hann fékk verðlaun í flokki Best New Mobile Handset, Device or Tablet  á Mobile World Congress ráðstefnunni fyrr á þessu ári og jafnframt fékk hann gullverðlaun fyrir Best Imaging Innovation hjá TIPA.

Við hjá Simon.is höfum haft einn svona síma til prufu núna undanfarið og kannað kosti hans og galla.

Innvols

Síminn hefur eins kjarna 1,3 GHz ARM 11 örgjörva og 512 MB vinnsluminni. Skjárinn er 4″ AMOLED nHD (360 x 640) með Gorilla Glass. Innbyggt 16 GB geymslupláss er í símanum sem er hægt að tvöfalda upp í 32 GB með SSD korti. Síminn er búinn NFC flögu og FM móttakara og sendi. Þetta er ágætlega snarpur sími. Það er ekki að sjá að hann hökkti þegar maður flettir á milli skjáa en hann á það til að hökkta svolítið þegar maður vafrar á netinu. Líklega er það frekar tengt vafranum og stýrikerfinu frekar en afli símans. Upplausn skjásins er vonbrigði. Þegar 800X480 er að verða úrelt þá er 360X640 varla boðlegt.

Síminn keyrir á Nokia Belle útgáfu Symbian stýrikerfisins. Við höfum áður sagt okkar skoðun á Symbian og óþarfi að eyða mörgum orðum í það nú. Kjarninn er að stýrikerfið er einfaldlega langt á eftir iOS, Android og Windows Phone. Ég verð að segja eins og er að það var ekki alslæm reynsla að nota síma með þessu stýrikerfi. Tveir stærstu þættir símans eru klárlega myndavélin og GPS götuleiðsögn og kort og er hvorugt þess eðlis að stýrikerfi símans hafi mikið með virknina að gera.

Rafhlaða

Rafhlaðan er 1.400 mAh. Uppgefinn taltími er um 6,5 klst. á 3G neti (9 klst. á 2G). Biðtími er uppgefinn allt að 540 klst. Eins og oftast er með síma þá segja þessar tölur manni lítið sem ekkert því þegar á hólminn er komið endast símar ekki jafn lengi og framleiðendur vilja meina. Mín reynsla af símanum hvað varðar rafhlöðuendingu er ásættanleg. Ásættanleg í samanburði við aðra snjallsíma en auðvitað ekki nógu góð ef maður gerir kröfur til jafn dýrra tækja. Síminn endist daginn við venjulega notkun. Þá er vissulega eitthvað eftir af orku, en ekki nóg til að nota símann allan næsta dag. Í mikilli notkun endist síminn ekki frá morgni til kvölds. Er þetta á pari við aðra snjallsíma sem undirritaður hefur prufað. Vissulega er hægt að keyra niður fullt af eiginleikum símans og auka þannig rafhlöðuendingu. Persónulega er ég á móti því og nenni ekki að standa í svoleiðis.

Mynd og hljóð

Myndavélin er flaggskip símans ef svo má að orði komast. Þetta er 41 MP vél með Carl Zeiss linsu. Þá nýtir síminn nýja tækni Nokia er kallast PureView. Í stuttu einfölduðu máli þá virkar tæknin þannig að maður tekur mynd sem samanstendur af mjög mörgum dílum (e. pixlum) og tæknin þjappar dílunum niður í færri díla sem eru þá hver með meiri gæðum (Sjá myndband). Þetta skilar myndum með meiri dýpt og skerpu. 

http://www.youtube.com/watch?v=8g7wct1hTRo

Kynningarmyndband frá Nokia sem útskýrir PureView tæknina.  Tekið upp á 808 PureView síma.

Þetta er myndavél sem keppir við alvöru SLR myndavélar og er fyrsta farsímamyndavélin sem er samkeppnishæf við slíkar vélar. Með myndavélinni má þysja inn (e. zoom) stafrænt, án þess að tapa gæðum, sem er gríðarlegur kostur. Ég hef í raun ekkert mikið meira um myndavélina að segja. Hún er mjög góð og einfaldlega sú besta sem býðst í farsíma. Það segir allt sem segja þarf.

Hönnun

Hönnun símans er að mínu mati nokkuð nett. Síminn er fallegur og fer vel í hendi og er mátulega stór fyrir minn smekk. Síminn er 169 gr. (iPhone 4s er 140 gr. og Galaxy SIII er 116 gr.) sem er heldur þungt. Síminn er massífur og maður fær það á tilfinninguna þegar maður tekur um hann að þetta sé vel byggt símtæki, þrátt fyrir að vera að mestu úr plasti. Á bakhlið símans stendur myndavélalinsan út sem gerir símann þykkari að ofan. Rammin utan um linsuna er úr áli sem gefur símanum ákveðinn karakter. Gallinn við þetta er sá að þegar maður leggur símann frá sér vísar ál-hlutinn niður og fer því fljótt að láta á sjá, fær litlar rispur hér og þar.

Niðurstaða

Þessi sími er nokkuð skemmtilegur. Fyrir fram átti ég von á að Symbian stýrikerfið ylli mér meiri vonbrigðum en það gerði. Vissulega er þetta ekki stýrikerfi á pari við Android, iOS og Windows Phone og hefur sína galla. Nokia sjálft hefur gefið það út að framvegis verða nýir Nokia símar með Windows Phone stýrikerfinu. Fyrirtækið mun styðja Symbian út árið 2016 svo enginn Symbian eigandi ætti að örvænta.
Fjöldi appa sem eru í boði er eitthvað sem gjarnan hefur verið nefnt þegar menn telja upp ókosti stýrikerfisins.  Það er þó ekki þannig að það sé engin öpp að fá, síður en svo. Þau eru bara færri og þá algengari frá stórum aðilum. Ég sótti Facebook app og Livescore app fyrir fótboltann, síminn hefur ágætis Office app og styður því Word og Excel  og svona má áfram telja. Eitt nýjasta appið í boði er Fantasy appið sem kom á dögunum svo stórir aðilar eru að framleiða öpp fyrir stýrikerfið, enda eru nokkur hundruð milljón símtæki á markaðnum með Symbian.  Síminn er oft ekki nógu snarpur þegar maður opnar öpp, kenni ég stýrikerfinu þar um.

Tveir stærstu kostir símans eru götuleiðsögnin og myndavélin. Að mínu mati gerir þetta tvennt það að verkum að markhópur símans er ekki nákvæmlega sá sami og til dæmis markhópur iPhone eða Galaxy símanna. Ég held að markhópurinn sé aðeins annar og eldri og geri ekki jafn mikla kröfu um úrval af öppum fyrir símann. Einstaklingurinn sem kann mest að meta GPS hlutann og myndavélina er mögulega alveg sama þó hann hafi ekki Instagram. Þetta er þó birt án ábyrgðar, þar sem ég hef ekki gert neina sérstaka rannsókn á þessu!

Síminn kostar frá 125 þúsund krónum á Íslandi sem er heldur dýrt að mínu mati og gæti dregið úr sölu hans.

Kostir

  • Frábær myndavél.
  • GPS götuleiðsögn sem virkar mjög vel.
  • Flott hönnun

Gallar

  • Síminn er heldur dýr.
  • Symbian stýrikerfið.
  • Þungur sími.
  • Lítil upplausn í skjá.

Simon.is gefur Nokia 808 PureView 7,0 af 10 mögulegum í einkunn.