Lumia 900 umfjöllun

Á síðustu 15 mánuðum hafa orðið miklar áherslubreytingar hjá Nokia. Fyrirtækið tók öll sín egg og setti í körfu Microsoft og saman veðja fyrirtækin á að Windows Phone 7 (og svo 8) geti endurlífgað snjallsímahluta þeirra. Lumia 800 var fyrsti síminn í þessari endurlífgun og síðan þá hafa nokkrir Lumia símar litið dagsins ljós. Fyrir nokkru kom svo nýjasta flaggskip Nokia, Lumia 900. Hann fær reyndar verðugan arftaka eftir nokkrar vikur í Lumia 920 sem keyrir á uppfærðu Windows Phone 8.

Hönnun og innvols

Lumia 900 fylgir sömu hönnun og Lumia 800 (og N9) sem er bara jákvætt því hönnun þessara síma er með því besta sem nokkurt fyrirtæki hefur komið með á síðustu árum. Síminn er gerður úr Polycarbonate sem er einfaldlega bara plast en án þess að virka ódýrt á nokkurn hátt. Plastið er litað í gegn og rispur sjást þannig síður. Síminn er hinsvegar talsvert stærri og þykkari en Lumia 800 og þar spilar 4.3″ skjárinn stórt hlutverk. Síminn er óþarflega stór því hann virkar í raun miklu stærri og klunnalegri en aðrir símar með 4.3″ skjá. Ég fann til dæmis mikinn mun á að skipta á honum og Galaxy Nexus sem, þrátt fyrir stærri skjá, virkar nettari og fer betur í lófa. Síminn er einnig frekar þungur eða 160gr sem gerir hann að einum þyngsta snjallsímanum á markaðnum. Frágangur og smíði er hinsvegar fyrsta flokks og mætti Samsung læra margt af Nokia í þeim efnum.

Þegar innvolsið er skoðað verður maður í fyrstu fyrir smá vonbrigðum en speccar eru eitt og upplifun annað. Staðreyndin er að á þeim tíma sem ég notaði símann fann ég nánast aldrei neitt hökt eða lagg. Stýrikerfið keyrir virkilega vel og er silkimjúkt hvað sem maður reynir að gera. Ég varð þó var við það í allra öflugustu þrívíddarleikjum að síminn átti það til að hökta örlítið en varla neitt sem neinu nemur. En þótt speccar séu að mörgu leyti aukaatriði þá er Nokia að selja síma með síðasta árs skjá og innvolsi á á verði þessa árs. HTC One S kostar 5-10.000 kr. minna en Lumia 900 en er með betri skjá, tvöfalt meira minni og er mun þynnri og nettari. Annað innvols Lumia 900 er staðlað. 8 MP bakmyndavél og 1 MP myndsímtalavél. GPS, Bluetooth og Wifi er einnig til staðar. Eitt sem ég fagnaði mikið var að micro USB tengið er aðgengilegt beint á símanum sjálfum í stað þess að vera falið undir flipa eins og á Lumia 800. Það var virkilega óþægilegt og maður beið eftir því að flipinn myndi brotna af.

 

Skjár og myndavél

Skjárinn á Lumia 900 er bæði bjartur og góður, svarti liturinn fáránlega svartur en aðrir litir eiga það til að vera aðeins of ýktir en það er vandamál sem hefur loðað við AMOLED skjái. Stærsti gallinn við skjáinn er þó upplausnin. Flaggskip allra samkeppnisaðila Nokia hafa flestir HD upplausn en Lumia 900 er “aðeins” með 800X480 í upplausn. Tvær myndavélar eru á símanum. Frammyndavélin er 1MP og virkaði þokkalega, ekkert full HD en þar sem fæstir nota myndsímtöl þá skiptir það litlu máli. Bakmyndavélin var líka fín en þegar myndir úr Lumia 900 eru bornar saman við iPhone 4S og Galaxy SIII er munurinn augljós.

 

Stýrikerfi og hugbúnaður

Lumia 900 kemur með Windows Phone 7.5 Mango úr kassanum. Mango var góð uppfærsla frá 7,0 og kom m.a. með multitasking sem bætir notkun mikið. Síminn kemur með Nokia Drive sem er einfaldlega besta leiðsögukerfi sem ég hef notað á nokkrum snjallsíma. Það er stílhreint og flott og með leiðsögurödd á íslensku sem er mikill kostur. Án þess að ætla að fara ýtarlega í umfjöllun um Mango þá er það þokkalegasta stýrikerfi og lagar marga galla sem 7.0 hafði. En Windows Phone er samt ennþá ekki orði jafn fínpússað og iOS og Android og stærsta vandamál WP er hugbúnaðarverslunin. Vel má vera að fjöldi forrita er kominn yfir hundrað þúsund en staðreyndin er sú að mörg standard forrit vantar. T.d. er ekki ennþá komið Dropbox app, það er varla til nothæfur Podcast spilari (a.m.k. ekki í sama klassa og Downcast á iOS og BeyondPod á Android) og í raun voru aðeins 12 af 50 forritum sem ég er með á Galaxy Nexus í boði og fyrir hin 38 voru aðeins örfá með nothæfan annan valkost.

 

Niðurstaða

Lumia 900 er óttalegur bastarður og það er erfitt að gefa honum einkunn. þessi sími ásamt litla bróðir 800 eru einfaldlega bestu snjallsímar sem Nokia hefur nokkurn tímann framleitt. Ef þessi símar hefðu komið árið 2010 þá væri snjallsímalandslagið í dag talsvert annað en það er. En það er því miður ekki 2010 og samkeppnin í dag er gríðarleg. Það er erfitt að mæla með Lumia 900 fram yfir HTC One S sem kostar 10.000 kr. minna, en er miklu betri sími.

Snjallsími í dag er heldur ekkert án þess að hafa smekkfulla app verslun og þar er App Market Windows Phone einfaldlega mörgum klössum fyrir neðan iOS og Android. Einföld forrit sem eiga að vera til á öllum platformum eins og Dropbox eru hvergi sjáanleg og í raun voru aðeins örfá af þeim forritum sem ég nota á Android fáanleg og nothæfir varavalkostir ekki í boði

Staðreyndin er einfaldlega sú að 80-100.000 kr. Android símar í dag miklu meira aðlaðandi kaup og Android sem stýrikerfi er einfaldlega komið lengara í þróun. Við þetta bætist sú staðreynd að hvorki Lumia 800 né 900 munu fá uppfærslu í Windows phone 8 heldur fá smá bein að naga með Windows Phone 7.8. Lumia 900 er því fínn sími umkringdur frábærum símum og það er alltaf erfitt að velja gott frekar en frábært.

 

Kostir

  • Windows phone 7 er finpússað stýrikerfi og miklu betra en Symbian og Meego
  • Góður skjár
  • Fín myndavél
  • Falleg hönnun

Gallar

  • Síminn er stór og klunnalegur, meira að segja samanborið við síma með stærri skjá
  • Windows Phone 7 stýrikerfið er talsvert á eftir iOS og Android
  • Dapurt framboð af hugbúnaði, sérstaklega íslenskum

Simon.is gefur Nokia Lumia 900 6,8 af 10 mögulegum í einkunn.