Iceland Airwaves 2012

Iceland Airwaves 2012 appið – Ef þú ert að fara þá verður þú að hafa það!

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves er íslenskt tónlistarhátíð sem er haldin árlega hvert haust í Reykjavík. Hátíðin hefst í næstu viku og dregur að sér þúsundir erlendra gesta. Hátíðinni er dreift á nokkra tónlistarstaði í miðbænum og er dagskráin mjög metnaðarfull. Nú annað árið í röð hefur Síminn og Airwaves gefið út app svo gestir hátíðarinnar geti skipulagt sig almennilega. Simon skoðaði appið í ár og bar saman við appið frá í fyrra.

Hvað gerir þetta app?

Þetta app sýnir dagskrá eftir dögum, tónlistarstöðum, landakorti og tekur saman off-venue dagskrána. Hægt er að búa til sína eigin dagskrá með því að plúsa ákveðin atburð og kalla hana þá fram undir My Lineup. Það er einnig hægt að kalla upp mynd af röðum skemmtistaða áður til að takmarka alla bið (eða sjá inn í sumarbústað starfsmanns Símans eins og var í boði eftir hátíðina í fyrra). Appið er með mjög ítarlegar upplýsingar um alla listamennina og hljómsveitir sem spila á hátíðinni og er hægt sjá lista yfir alla tónleika sem þeir halda ásamt staðsetningu. Það eru tenglar á YouTube myndbönd við alla flytjendur og því auðvelt að kynnast nýjum flytjendum eða endurnýja kynnin við gamla.

Mesta virði appsins er klárlega í dagskránni, en maður verður eiginlega að púsla saman sína eigin dagskrá þegar svo margir flytjendur eru á hátíðinni. Það er líka auðvelt að sjá hvenær flytjendur eru að spila aftur og gefur manni því enn betra tækifæri á því að sjá sem flesta.

Appið er líka með aukahluti eins og möguleikann að deila sinni eigin dagskrá, skoða viðtöl við tónlistafólkið af hátíðinni og finna sér eitthvað að gera (aðallega að borða og drekka) í gegnum Activities sem virðist einna helst vera miðað að ferðamönnum.

Hvað finnst okkur?

Við elskum Airwaves. Við elskum þetta app. Must have ef þú ert að fara á hátíðina. Það er augljóst að Síminn hefur tekið appið frá því í fyrra alveg í gegn, bæði útlistlega og efnislega. Þeir hafa mögulega fengið einhverjar hugmyndir frá Werchter appinu eða öðrum tónleika öppum, en það er allt annað að sjá appið fyrir hátíðina í ár. Það eina sem hefði mátt bæta inn í það er betri samfélagstenging, til dæmis að geta séð dagskrá annara Facebook vina sinna eða gefa leyfi á að sjá hvar vinir sínir eru staddir í bænum (eins og er í Werchter appinu). Við tökum að ofan fyrir Símanum og hrósum þeim fyrir virkilega vel unnið app.