Google Nexus 7 umfjöllun

Nexus 7 spjaldtölvan er fyrsta spjaldtölvan frá Google. Hún er framleidd af Asus sem hefur staðið sig frábærlega í framleiðslu á Android spjaldtölvum með Transformer línunni sinni. Tölvurnar fá góða dóma og virðast vera vel hannaðar. Nexus 7 kemur með nýrri útgáfu af Android, sem er kölluð Jelly Bean og er sérstaklega hönnuð fyrir spjaldtölvuna. Lögð var áhersla á að gera viðmótið sérstaklega viðbragðsgott og þægilegt í notkun.

Innvols

Tölvan er með fjórkjarna Tegra3 1,5 GHz örgjörva, 1 GB í vinnsluminni, 8 eða 16 GB geymslupláss og 7″ IPS háskerpuskjá (768×1280). Örgjörvinn er mjög öflugur og nær að keyra alla leiki hnökralaust og hoppar snögglega milli forrita. Það hefði mátt hafa microSD rauf til að auka við geymsluplássið, sem mér finnst vera frekar mikilvægt fyrir spjaldtölvur (frekar en snjallsíma), en miðað við verðið þá er erfitt að kvarta. Tölvan bauð fyrst um sinn einungis þráðlaust net, en núna  í vikunni bættust nokkrar útgáfur við sem munu líta dagsins ljós á næstunni. Þar er helst að nefa 32GB útgáfu af tölvunni sem og 3G útgáfu. Allar útgáfur eru þó auðvitað með GPS, Bluetooth og NFC. Tölvan er einnig með 1,3 MP myndavél að framan fyrir ofan skjáinn sem hentar vel í myndsamtöl.

Rafhlaða

Í tölvunni er 4325 mAh rafhlaða sem er nokkuð eðlileg geta miðað við stærð tölvunnar. Rafhlaðan endist í 10 tíma við stöðuga notkun, en getur auðvitað haldið sér gangandi í marga daga með eðlilega notkun. Ég var nokkuð sáttur við endinguna, en ég nota mína mjög mikið í lestur.

Mynd og hljóð

Skjárinn kemur á óvart og skilar sínu. Þetta er 7″ IPS skjár með LED lýsingu (sparar rafmagn) sem sýnir eðlilega liti og er frekar bjartur. Upplausnin hentar mjög vel í lestur, mun betur en Kindle Fire (eldri) og iPad Mini (sem er með lægri upplausn). Því hærri upplausn, því skarpara letur og myndir.

Hljóðið kemur öðru megin ef Nexus 7 snýr á hlið

Hátalarinn er neðst á tölvunni, þannig að ef henni er haldið á hlið heyrist bara frá annari áttinni. Það er talsverður galli fyrir spjaldtölvu, sérstaklega í tölvuleikjum og myndbandsglápi. Ég mæli því með heyrnatólulum þegar tölvan er notuð til að spila hljóð en það á nánast við allar svona handhægar græjur í dag. Þetta truflaði mig ekkert sérstaklega, enda tölvan aðallega notuð í lestur og vefráp. Ég er mun hrifnari af því að hafa tvo hátalara framan á tölvunni sitthvoru meginn við skjáinn, eins og hefur sést á Galaxy Tab.

Hönnun

Tölvan er létt (340 g) og fer ótrúlega vel í hendi. Bakið á henni er gúmmíhúðað plast með litlum holum sem bætir gripið mikið. Ég hef notað iPad talsvert og það er varla hægt að halda á honum með einni hendi án þess að vera með tækið í einhvers konar hulstri. Bakið á iPad er búið til úr burstuðu áli, sem mjög sleipt og því auðvelt að missa tækið úr hendi sér. Nexus 7 er rétt yfir 1 sentimeter á þykkt, sem er svipað og flestir snjallsímar í dag og kemst auðveldlega fyrir í rassvasa. Ytra byrðið er úr plasti og virkar ekkert sérstaklega harðgert, en skjárinn er þó rispuvarinn með Gorilla glass. Það eru einungis tveir takkar á tölvunni og eru þeir báðir á hægri hliðinni: einn fyrir hljóðstyrk og einn ræsihnappur. Tölvan notar “softkeys” eða snertitakka inn á viðmótinu: til baka, heim og appskiptingar. Mér finnst mun þægilegra að hafa takka framan á tölvunni hjá skjánum eins og á iPad og Surface og saknaði þess pínu.

Það eru margir farnir að spá í því að geta leyst fartölvuna sína af hólmi með spjaldtölvum og einn í okkar röðum er búinn að stíga það skref með iPad, stylus og Bluetooth lyklaborð. Ég sé ekki fyrir mér að Nexus 7 geti gert það, eins og iPad og Surface spjaldtölvurnar munu reyna að gera á næstunni. Tölvan er of lítil til þess og hún hentar mun frekar til afþreyingar, rétt eins og iPad tölvurnar fram að þessu.

Android stýrkerfið er nú orðið mjög nothæft með tilkomu Android 4.1 (Jelly Bean), en talsvert hafði vantað upp á í fyrri útgáfum og hentaði Android ekki vel fyrir spjaldtölvur yfir höfuð. Allt viðmótið er orðið mun fallegra og allar hreyfingar og flettingar orðnar mun mýkri. Það er betra að hoppa á milli appa og búið að taka tilkynningarsvæðið (e. notification area) alveg í gegn. Öppin eru líka að verða betri fyrir spjaldtölvur, en þó aðallega þökk sé því að flaggskipin á snjallsímamarkaðinum eru að nota svipaða upplausn og flestar Android spjaldtölvur. Það vantar samt talsvert upp á að Android öpp fyrir spjaldtölvur nái fjölda og gæðum iPad appa. Google sér auðvitað til þess að þær þjónustu sem þeir veiti virki vel á spjaldtölvum og það kemur manni á óvart hversu margar maður nýtir sér. YouTube, Gmail, Google Now, Google+ og Maps öppin koma öll sérstaklega vel út á Nexus 7. Nú þurfa aðrir apphönnuðir að fara að nýta sér aukna skjástærð spjaldtölva til að auka notagildi appana og reyna ná iPad sem er leiðandi á markaði í dag.

Niðurstaða

Miðað við þessa frumraun Google í spjaldtölvum er framtíðin mjög björt. Skjástærðin hentar mun betur en ég hélt og er tölvan þægileg í vefráp, lestur og myndbandsáhorf. Tölvan er vel hönnuð og mjög praktísk. Í samanburði við iPad þá virðist Nexus 7 vera mun ódýrari, sem hún einmitt er. Að mínu mati er fórnin algerlega þess virði og að mörgu leiti líkar mér mun betur við plastið og gúmmíið í samanburði við þungt og sleipt burstað ál. Stýrikerfið hefur verið tekið í gegn og er tíð Android spjaldtölvunnar að renna upp.

Kostir

  • Ódýr
  • Nett og létt (7″ er málið)
  • Góður skjár
  • Snögg

Gallar

  • Plastið mun ekki endast vel til lengri tíma
  • Vantar fleiri öpp sérsniðin Android spjaldtölvum
  • Leysir fartölvuna ekki af hólmi

Google Nexus 7 fær 8,5 af 10 mögulegum í einkunn.

Tölvan fæst hér á landi hjá Buy.is, Tölvulistanum, Hátækni og Tal. Minni útgáfan með 8 GB plássi kostar 50 þúsund krónur og sú stærri með 16GB plássi kostar 60 þúsund krónur. Nýlega var 32GB útgáfa tilkynnt, með og án 3G nets. Þær tölvur eru enn ekki komnar til landsins. Erlendis þá kostar Nexus 7 með 16 GB plássi £159 / $249 og 32 GB kostar £199 / $249 eða £239 / $299 með 3G neti. Það munar því slatta, en þá er ábyrgðin auðvitað erlendis.

2 replies

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] elskum nexus 7. Þú getur líka fengið 32GB nexus 7 á sama verði og iPad mini 16GB. Hún er þægilegri í […]

  2. […] Nexus 7 er með mun betra innvolsi, Android stýrikerfi (minna þróað en iOS fyrir spjaldtölvur), […]

Comments are closed.