Google kynnir nýjan síma, spjaldtölvu og 4.2 Jelly Bean
Eins og við sögðum frá í gær þá neyddist Google til að aflýsa Android kynningunni sem átti að vera í dag vegna fellibylsins Sandy. Hvort kynningin verði haldin seinna er óljóst en Google sendi rétt í þessu út upplýsingar um það sem átti að kynna í dag, sem er ekki lítið:
- nýr snjallsími: LG Nexus 4
- ný spjaldtölva: Samsung Nexus 10
- uppfærð spjaldtölva: Asus Nexus 7 með 32GB plássi
- ný útgáfa af Android Jelly Bean
LG Nexus 4
Google gefur út fjórða Nexus símann og nú í samstarfi við nýjan framleiðanda, LG. Nexus 4 er að miklu leyti byggður á Optimus G sem hefur fengið frábæra dóma gagnrýnenda. Síminn tekur við af Galaxy Nexus sem nú orðin rétt yfir ársgamall. Síminn verður með 4,7″ True HD IPS+ háskerpuskjá (768 x 1280 upplausn), fjórkjarna 1,5 GHz Snapdragon örgjörva, 2 GB af vinnsluminni og Adreno 320 skjástýringu. Þetta gerir hann auðveldlega einn öflugasta símann á markaðinum í dag. Ofan á þetta kemur hann með nýjustu útgáfunni af Android Jelly Bean (4,2). Myndavélin verður 8MP og einnig er myndavél á framhliðinni fyrir myndsamtöl. Síminn verður 9,1 mm þunnur og vegur 139 grömm. Hann verður með 2100 mAH rafhlöðu sem ætti að endast vel og mun síminn styðja þráðlausa hleðslu (með sérstakri hleðslukví sem er seld sér). Hann verður með Gorilla Glass gleri bæði að framan og að aftan, rétt eins og iPhone 4S. Bakhliðin er sérstaklega flott og skemmtilega mynstruð. Síminn verður í boði með 8GB og 16GB geymsluplássi. Áætlað er að síminn komi í sölu á Íslandi um miðjan nóvember.
Samsung Nexus 10
Hér er á ferðinni spjaldtölva með 10″ skjá, 2560 x 1600 pixla upplausn og 300 ppi (pixlar á hverja tommu). Þetta slær jafnvel Retina skjánum á iPad við því hann er “aðeins” með 2048 x 1536 á 9,7″ tommum og 264 ppi. Tölvan er með tvíkjarna (A15) örgjörva, 2GB vinnsluminni og glænýrri Mali T604 skjástýringu. Það eru tvær myndavélar á tölvunni: 5MP að aftan og 1,9MP að framan fyrir myndsamtöl. Það fylgir 9000 mAh rafhlaða með og vegur tölvan 602 grömm. Með Nexus 10 hjólar Google af fullum þunga í Apple því Nexus 10 er bæði léttari, öflugri (a.m.k. á blaði) og kostar þar að auki talsvert minna en iPad. Nexus 10 kemur vonandi í sölu hér á landi fyrir jól.
Nexus 7 uppfærður
Google bætti við 32 GB útgáfu af Nexus 7, sem var einungis til í 8 og 16 GB útgáfum áður. Nýja útgáfan er eins að öllu leyti nema, til viðbótar við aukið geymslupláss, þá er hún einnig með 3G aðgangi og GPS. Tölvan verður seld í Bandaríkjunum á $299. Ekki er vitað hvort eða hvenær hún kemur í almenna sölu á Íslandi því ennþá er Nexus 7 ekki komin í almenna sölu heldur aðeins fáanleg hjá buy.is og sambærilegum netverslunum.
Jelly Bean
Síðast en ekki síðst þá kynnti Google uppfærða útgáfu Jelly Bean, Android 4.2 Jelly Bean. Þessi útgáfa felur í sér tvær áhugaverðar nýjungar: Miracast þráðlausa birtingu og nýtt lyklaborð með stuðningu við aðgerðir (e. gestures). Miracast virkar svipað og Airplay eða Intel WiDi. Hægt verður að senda myndbönd og myndir frá Android tækjum yfir á Miracast tæki sem er tengt við skjá eða sjónvarp. Þetta er fín uppfærsla og Google segir að Miracast verði vonandi innbyggt í komandi kynslóð af sjónvörpum.
Eins og sést af þessu þá virðist Google ætla sér ennþá stærri hluta af kökunni. Við hjá Símon.is munum að sjálfsögðu færa nánari fréttir og koma með ítarlegar umfjallanir um öll þessi tæki og Jelly Bean.