Ekki bara Apple starfsmenn sem eru gleymnir – Nexus 4 gleymist á bar
Það muna eflaust flestir eftir því þegar að Apple starfsmaður gleymdi iPhone prótótýpu á bar 2010 og svo aftur 2011, en svo virðist sem að fleiri en bara Apple starfsmenn geti týnt óútkomnum prótótýpum af símum á djamminu. Það var barþjónninn Jamin Barton á 500 Club í San Francisco sem fann símann á vakt. Í hverri viku gleymast um 20 símar á barnum og flestir þeir sem týna símanum sækja hann á innan við korteri. Það var þó ekki gert í þetta skiptið og barþjóninum fannst einnig eitthvað sérstakt vera við hann. Það var ekkert sim-kort í símanum, hann var læstur og merktur “ekki til sölu” og með stórt Google merki á bakhliðinni.
Barton, sem er ekki vel að sér í tæknimálum, sýndi vini sínum símann og sá áttaði sig strax á því hvaða sími þetta var; nýi Nexus síminn, LG Nexus 4. Þeir félagarnir höfðu strax samband við Google, sem sendu mann til þeirra að ná í símann. Þá hófst það sem er best er lýst sem algjörum farsa, þar sem starfsmaður Google, Brian Katz, vildi ekki staðfesta við Barton að hann ynni hjá tæknirisanum. Við tók löng og stórfurðuleg atburaðarrás þar sem að barþjónninn og vinurinn enduðu á að flýja Katz.
Að lokum fékk Google þó símann aftur og buðu þeir Barton glænýjan síma gegn því að hann mundi ekki dreifa myndum og myndbandi sem hann tók af símanum. Barþjónninn þáði ekki það tilboð og hefur nú selt myndirnar til vefsíðunnar Wired.com fyrir umtalsvert hærri upphæð en virði símans sem Google bauð honum.
Hvort að símamissirinn hafi verið skipulagður af Google til þess að vekja athygli á símanum er erfitt að segja, en eitt er víst, þetta vakti mikla athygli víðsvegar um netið. Síminn verður tilkynntur formlega á árlegum Android viðburði sem átti að halda á 29. október, en var frestað vegna fellibylsins Sandy.
Það má lesa lengri og ítarlegri grein um týnda Nexus símann á Wired.com.