Nova appið – Hresst, skemmtilegt og nothæft app sem étur gagnamagn

Nova gáfu út app fyrir Android og iPhone í ágúst síðastliðin og eru því annað fjarskiptafyrirtækið á Íslandi sem hefur gefið út app, en Vodafone appið kom út í fyrra.

Appið frá Nova er alveg í stíl við fyrirtækið sjálft, það er hresst og skemmtilegt og reynir að halda í einkunnarorð Nova sem eru „stærsti skemmtistaður í heimi“. Appið er einfalt og mjög auðvelt að vafra í því. Aðalvalmyndin gefur 4 valmöguleika: Tónlist, 2 fyrir 1, Fyllt”ann og Stóllinn. 

Þegar Tónlist er valin færist maður yfir í aðra valmynd sem býður upp á Lagalista DJ Nova og Vinatóna, ásamt tengil í tónlistarmyndbönd. Lagalistarnir eru 11 talsins og má þar nefna til dæmis Í ræktinni, Í vinnunni, Ferðalagið og Barnaefni. Listarnir virka mjög svipað og Bestu lögin hjá Símanum sem var hannað af Grapewire. Við það að smella á lista byrjar streymi á lagi, það virkar ekki ósvipað því að hlusta á útvarp. Það er ekki hægt að spóla áfram eða afturábak og það er ekki hægt að skipta um lag, einnig er ekki hægt að sjá hvaða lög eru á listanum. Listarnir eru engu að síður margir og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Ég get vel ímyndað mér að það sé þægilegt að grípa í listana í tónlistarlausu partýi eða ef maður er að passa óþreyjufull börn. Við prófun þá kom í ljós að streymið á lögunum teur mjög mikið gagnamagn. Lagið Barfly með Jeff Who, sem er rétt um 3 mínútur og 42 sekúndur, tók rúmlega 9mb og Úlfur úlfur með Berndsen og Bubba Morthens (3 mínútur og 7 sekúndúr) tók  7,2mb af gagnamagni. Það er því greinilega lítil sem engin þjöppun á lögunum og appið étur upp gagnamagn. Ég mæli því sterklega með því að nota appið á þráðlausu neti, nema að þú sért með góða gagnamagnsáskrift. Tónlistarmyndböndin taka líka sinn skerf af gagnamagni og tóku 32 sekúndur 8,5mb, sem þýðir að mínútan af vídeoafspilun tekur tæp 17 mb.

Í tónlistarhlutanum er einnig hægt að fara í valmyndina Vinatónar. Þar er hægt að hlusta á og velja (eða kaupa) sér nýja vinatóna. Það má finna mikið úrval af tónum og hægt er að velja á milli vinsælla og nýrra tóna.

Næsti möguleikinn í aðalvalmyndinni ber heitið 2 fyrir 1. Þar má finna ýmis tilboð sem Nova býður viðskiptavinum sínum upp á. Viðmótið er nokkuð einfalt, maður velur einfaldlega það tilboð sem á að nýta sér og er það þá sent með SMSi.

Skilaboðin sem koma þegar appið er að hlaða nýja síðu eru nokkuð fyndin, ég rak augun meðal annars í „Bíddu pabbi bíddu mín“, „Appið er eitthvað að hugsa“ og „Rólegur tígur“. Appið heldur Nova stílnum alveg út í gegn.

Næstur í aðalvalmyndinni er möguleikinn Fyllt”ann, þar sem á að vera hægt að fylla á inneign. Mér tókst það reyndar ekki í fyrstu en við endurræsingu á appinu komst ég inn í þá valmynd. Þar er hægt að velja ýmsar áfyllingar og eru flokkarnir þrír; Tilboðsáfyllingar, 3g frelsi og Netið í símann. Það virðist ekki vera hægt að leggja inn aðrar upphæðir en eru í boði þarna og fann ég engan möguleika til þess að stimpla sjálfur inn upphæð. Þegar maður hefur valið sér áfyllingu fær maður valmynd um að fylla inn debet- eða kreditkortanúmer og leggst inneignin þá beint inn á númerið.

Síðasti valmöguleikinn í aðalvalmyndinni er Stóllinn, þar sem maður getur séð stöðuna á símanúmerinu sínu og breytt stillingum fyrir það. Þar er hægt að kveikja eða slökkva á talhólfi, vinatónum og netinu í símanum erlendis.

Appið sjálft er bæði vel nothæft og skemmtilegt. Það er þægilegt að geta lagt inn á sig inneign og séð stöðuna á henni með appi, án þess að þurfa að skrá sig inn á vefsíðu Nova í hvert skiptið. Tónlistar listarnir geta einnig nýst vel við hinar ýmsu aðstæður, en Nova menn falla í sömu gryfju og t.d. Gogoyoko og Tonlist.is með því að vera með litla sem enga þjöppun yfir 3g. Það eru eflaust margir sem átta sig ekki á því hversu mikið gagnamagn appið notar og brenna upp gagnamagnið sitt. Til dæmis myndu 30 mínútna hlustun af ræktarlistann á hlaupabrettinu taka um það bil 72mb. Maður þarf ekki að vera viðskiptavinur Nova til þess að geta notað appið, eða í það minnsta ekki beint. Það er nóg að stimpla inn númerið hjá einhverjum sem er hjá Nova og fá hann til þess að gefa þér upp SMS kóðann. Ein innskráning er nóg og ég hélst innskráður þrátt fyrir að hafa endurræst símann og gat hlustað á alla lagalistana og komist aftur í Stólinn án þess að þurfa að auðkenna mig aftur. Appið les því greinilega ekki símanúmerið á símanum sjálfum. Það má líta á þetta sem öryggisgalla. Ef einhver fer í símann hjá vini sínum til þess að leggja inn á sig inneign helst sími vinarins innskráður þar til hann skráir sig út eða hendir appinu. Sem betur fer er ekki hægt að nálgast viðkvæmar upplýsingar, en það er þó hægt að sjá stöðu inneignar, fikta í stillingum og fylgjast með notkun innan Nova. Það eru einnig nokkrir hnökrar á appinu, enda hefur það ekki verið uppfært síðan það kom út. Appið kolgeggjaðist þegar ég skipti úr þráðlausu neti yfir á 3g og reyndi að spila lag. Það lokaðist að minnsta kosti tvisvar við gerð þessara greinar. Appið er flott, það er hægt að nota það í annað en bara að leggja inn á sig inneign og sjá hvað maður á mörg megabæt eftir, en þó verður að bæta við þjöppun á tónlistina og laga þá hnökra og villur sem eru enn til staðar.

Appið heitir Nova Iceland og má nálgast á  og App Store.