Hvaða síma á ég að fá mér?

Áttu enn þá vaxtabætur til að eyða og langar í nýjan síma? Þá erum við með góð ráð fyrir þig. Simon.is mælir með eftirfarandi símum fyrir þig eftir verðflokkum.

Peningar skipta engu máli, ég er múraður/múruð!

Fyrsta ráðið er: EKKI kaupa iPhone! Það er svo stutt í nýjan iPhone að það er bara rugl. Ef þú ert Apple aðdáandi þá verður þú bara að bíða. Ef ekki, þá pældu í þessum:

Samsung Galaxy S3

Þetta er uppáhalds síminn okkar þessa dagana og fékk hann frábæra dóma frá okkur. Þetta er ekki bara flaggskip Samsung, þetta er flaggskip Android. Síminn er með 4,8″ háskerpuskjá, bestu myndavél sem þú færð á snjallsíma (fyrir utan N8 og Pureview 808, sem eru eiginlega ekki snjallsímar ekki samkeppnishæfir snjallsímar sökum veikburða vistkerfis, sem við fjöllum betur um í okkar umfjöllun um Pureview 808), góðri endingu rafhlöðu og svakalegum afköstum. Skoðið umfjöllun okkar hér. Síminn fæst á 120 þúsund krónur hjá flestum smásölum og fjarskiptafélögum og ódýrastur hjá Elko á 118 þúsund.

Galaxy Nexus 

Þetta er besti síminn sem þú færð ef þú horfir fram hjá innvolsinu, sem er orðið frekar gamalt (tvíkjarna, 5mp myndavél). Hugbúnaðurinn er ótrúlega stílhreinn og öflugur. Besta viðmót sem þú færð á snjallsíma og þá beint frá Google. Síminn fær uppfærslur fyrir Android á undan öllum öðrum og er það mikilvægur fídus. Við erum því miður ekki með umfjöllun um hann, en The Verge á eina góða. Síminn fæst á 100 þúsund hjá flestum smásölum og fjarskiptafélögum. Ef þú átt leið til USA þá er hann seldur þar á 350$ (42 þúsund krónur plús vaskur) sem er fáranlega gott verð.

Borga yfir 100 þúsund krónur fyrir síma ertu brjálaður! Hverju mælir þú með undir 100 þúsund?

Samsung Galaxy S2

Já, gamli góði S2 er enn þá í fullu fjöri. Það er ekki að ástæðulausu að Simon valdi S2 síma ársins 2011!  Hann er hraður, með flottan Super AMOLED plus skjá og léttur og nettur. Myndavélin nær fínum myndum og myndböndum. Samsung staðfesti nýlega að síminn mun fá Jelly Bean uppfærslu sem lengir lífið talsvert í honum. Hér er hægt að lesa okkar umfjöllun. Síminn er á 80 þúsund krónur hjá flestum aðilum hér á landi.

Sony Xperia S

Sony losaði sig við Ericsson og byrjaði á því að gefa út þennan fína síma. Síminn er  með 12 MP myndavél sem nær flottum myndum, 32GB geymsluplássi og bjartan “White magic” háskerpuskjá. Hægt er að lesa um hann hér. Klárlega góð kaup á 80 þúsund krónur hjá Símanum (dýrari annars staðar).

Hvað með síma undir 80 þúsund krónum? Má það?

Við erum ekki hrifnir af símum langt undir 80 þúsund krónum, enda eru símanir þá byrjaðir að fórna mikið í afköstum og gæðum þar. Það eru þó tveir símar sem við teljum okkur geta mælt með, enda fóru þeir í gegnum prófanir hjá okkur.

Samsung Galaxy Ace 2

Ace 2 er góður sími á sanngjörnu verði.  Hann er með fínan 3,8″ skjá, tvíkjarna örgjörva, nóg vinnsluminni og geymsluplássi. Hann er meira segja með nothæfa myndavél með flassi. Síminn er einnig að slá í gegn hérlendis og selst eins og heitar lummur. Allt þetta á 50 þúsund krónur hjá flestum söluaðilum og umfjöllun á leiðinni.

HTC One V

Það er hægt að mæla með öllum símunum úr One línu HTC. One V er ekki eins hraður og hinir One símanir, en er byggður á sömu forsendum: gæði í ytra byrði, flottur skjár, góð myndavél með flassi og þægilegt viðmót (HTC Sense 4.0). Hans helsti akkilesarhæll er einskjarna örgjörvinn og 512MB í vinnsluminni, sem gerir símann frekar hægan. Það er þó auðvelt að venjast því og síminn samt sem áður góð kaup á 60 þúsund krónur hjá flestum söluaðilum. Hægt er að lesa um One V hér.