Netbanki Arion fyrir Android og iPhone
Nú hefur Arion banki tekið skrefið inn í árið 2012 og gefið út netbanka app fyrir Android og iPhone. Appið lítur mjög vel út og í núverandi útgáfu er hægt að sjá stöðu reikninga, skoða síðustu færslur, fá lista yfir ógreidda reikninga ásamt því að millifæra á milli reikninga.
Í fyrsta skipti sem appið er opnað þá er mælt með því að læsa forritinu með PIN númeri sem er búið til á staðnum. Eftir að það er gert þá biður appið alltaf um þetta PIN númer þegar það er ræst, jafnvel þegar maður er nýbúinn að bakka út úr því.
Næst skráir maður sig með notandanafni og lykilorði netbankans, ásamt lykilnúmeri frá auðkennislyklinum. Í kjölfarið þá man appið hver þú ert þannig að þú þarft ekki að slá inn þessar upplýsingar nema í þeim tilfellum sem þú ætlar að sýsla með peninga (millifæra). Þetta gerir allar upplýsingar mjög nærtækar því maður er enga stund að kveikja á appinu, slá inn PIN númerið og sjá hvort maður eigi fyrir kaffibollanum.
Appið sendir svo notanda tilkynningu (notification) við ákveðnar aðstæður. Sendar eru tilkynningar þegar greitt er inn á reikning og þegar greiðslur sem gerðar eru fram í tímann misfarast. Nú er því hægt að hætta að fá sent SMS þegar launin eru greidd út og spara þannig 6 krónur á mánuði, sparnaðarráð í boði Simon.is!
Eins og viðskiptavinir Íslandsbanka og Landsbankans hafa líklega tekið eftir, þá er algjör snilld að hafa heimabankann við höndina hvar sem maður er. Arion banki hefur greinilega lagt mikla vinnu í að greina hvaða upplýsingar notendur vilja fá í gegnum símann og gert þessar upplýsingar eins aðgengilegar og mögulegt er. Appið er samt frekar stórt (rúmlega 16 mb) en það gerir eigendum eldri og ódýrari Android tækja erfitt fyrir að nota það vegna sífelldra plássvandræða. Einnig myndi ég vilja sjá gengisreikni í þessu appi eins og er í appi Íslandsbanka og vonandi bætir Arion banki því við sem fyrst. Að lokum þá voru meðlimir Simon.is ekki alveg sammála um hver upphafsskjár svona netbanka eigi að vera, en Arionbanki kýs að sýna stöðu reikninga um leið og appið er opnað. Þetta snýr svolítið að því hvernig appið er notað og sem betur fer erum við ekki öll eins, því verður það látið liggja á milli hluta að dæma um þetta atriði. Hvað finnst ykkur?
Við mælum með að viðskiptavinir Arionbanka prófi appið og láti okkur vita hvað þeim finnst.
Appið má nálgast á og á App Store
Breyting 21.8.2012: Tilkynning um reikninga komna yfir eindaga er ekki komin í appið en von er á henni innan bráðar. Texti um þennan eiginleika tekinn út.