HTC One S umfjöllun

HTC One S kom út fyrir sumarið og er miðjubarnið í One fjölskyldunni frá HTC. Simon er nú þegar búinn að fjalla um One X sem er flaggskipið og One V sem er ódýrari valkosturinn, sem fengu góða dóma hjá okkur. One S er frekar furðulega verðlagður og er of nálægt One X í verði. Hann hefur því ekki komið almennilega í sölu hérlendis og er einungis í boði hjá Hátækni sem flytur HTC inn til landsins.

Innvols 

Síminn er með tvíkjarna 1,5 GHz S4 örgjörva og 1GB vinnslu minni, sem er alveg hreint ótrúlegt hraðvirkt. Þetta er einn sá hraðasti sem þú getur fengið og kemur hann betur út í flestum prófunum en fjórkjarna símar eins og One X og S3 (S3 slær reyndar alla út í vöfrun). Innbyggt í símanum er 16GB geymslupláss og hægt er að nota rétt yfir 12GB (4GB tekin frá fyrir stýrikerfið) og ekki er boðið upp á MicroSD rauf. Þrátt fyrir það þá lenti ég aldrei í vandræðum með pláss, en þeir sem horfa á á myndbönd á ferðinni gætu lent í vandræðum með það.  Síminn réð við allt sem gerði á honum og þá mjög hratt.

Rafhlaða

Rafhlaðan er með 1650 mAh hleðslu sem telst vera eðlilegt í dag en er minna en á símum eins og One X (1800 mAh), S3 (2050 mAh) og 4XHD (2150 mAh). Þrátt fyrir það þá er þetta besta ending sem ég hef séð á snjallsíma. Hugbúnaðurinn og innvolsið er það vel fínstillt að síminn nær að nýta rafhlöðuna til lengri tíma. Síminn fær klárlega hæstu einkunn fyrir endingu.

Mynd og hljóð 

Síminn er með sömu myndavél að aftan og One X er með, sem kom einmitt mjög vel út hjá okkur. Þetta er 8MP myndavél sem tekur myndir hratt og býður upp á burst mode, BSI (backside illumation) og F/2,0 ljósop. Einnig er hægt að taka 1080p myndbönd eins og ekkert sé. Það er aðeins lakari myndavél að framan fyrir myndsímtöl með VGA upplausn sem ætti að sleppa. Myndavélarappið sem fylgir með er mjög skemmtilegt og er það með filtera og fleiri skemmtilegar viðbætur. Eitt sem ég tók eftir var að myndavélin að framan var mjög dugleg að safna ryki enda með mjög skörpum köntum.

Bakhlið One S

Skjárinn er stór, en ekki of stór eða 4,3″ með 540×960 upplausn. Þetta er einmitt stærðin þar sem flestir geta enn notað símann einhentir, sem mér er persónulega mjög annt um að geta. Þetta er Super AMOLED pentile skjár og er mjög svipaður því sem við höfum séð á Motorola Razr. Skjárinn sýnir góða svarta liti en ýkir flesta aðra liti og sérstaklega bláan. Þessi skjár á ekkert skylt við skjáinn á One X, sem er besti skjárinn sem þú færð á síma í dag, en er þó nothæfur.

Hátalarinn er aftan á símanum en það heyrist vel í honum. Það heyrist mjög vel í heyrnatækinu fyrir símtöl og enginn kvartaði yfir að heyra illa í mér. Síminn kemur með Beats hljóðblandara (e. equalizer) sem bætir hljómgæðin fyrir heyrnatól. Heyrnatólin sem fylgja með eru ekki frá Beats (sem ég átti von á) og voru þau vonbrigði.

Hönnun

Síminn er mjög flottur og vel hannaður. Hann er mjög þunnur (7,8 mm!) og nettur. Mun nettari en One X (8,9 mm) og S3 (8,6 mm) og fellur mjög vel að hendi. Ytri byrðin er búin til úr möttu áli sem reyndar frekar sleipt. Síminn ætti samt að þola mikla refsingu með þessum álramma, sem fær í gegnum sig 10.000 volt af rafmagni við framleiðslu bara til að herða hann.

[youtube id=”ZPZ7y1EDKvk” width=”600″ height=”350″]

Fremri myndavélin

Síminn kemur í tveimur litum: silfri og dökkum brúnleitum lit (sem er kallaður svartur?) sem eru báðir mjög flottir. Ég fíla sérstaklega rauða litinn í kringum myndavélina á dökka símanum. Það eru bara tveir takkar á símanum: ræsitakki efast á símanum og hljóðstyrkstakki á hægri hlið. Ræsitakkinn er mjög illa staðsettur og þyrfti helst að vera á hægri hlið símans. Ég myndi segja að það væri stærsti galli þessa síma og hann gerði það að verkum að það var mjög leiðinlegt að kveikja á símanum. Vonandi laga þeir það á næsta síma. Neðst á skjánum eru þrír snertitakkar: til baka (sem er alveg til vinstri), heim (í miðjunni) og fjölverkatakki. Eftir að hafa notað slatta af Samsung símum, þá finnst mér mun þægilegra að hafa til baka hægra megin (fyrir rétthenta). Einnig þá finnst mér fjölverkatakkar óþarfir á símum, en sniðugir á spjaldtölvum. HTC leysti það vandamál nýlega og er nú hægt að breyta fjölverkatakkanum í gamla góða valmyndartakkann (heldur niðri fyrir opin forrit). HTC fær fullt af stigum fyrir það.

Ég lenti í vandræðum með prufu eintakið mitt. Málningin á það til að flagna efst þar sem ræsitakkinn er. Þegar símkort er sett í, þá þarf að taka af plastlokið sem er efst á símanum.Við það brotnar málninginn og skilur eftir lítil sár þar sem glittir í álið undir því. Þetta er mjög ljótt og kemur óvart því þessi 10.000 volt áttu víst að koma í veg fyrir slíkt. HTC hefur viðurkennt gallann og er hann mjög sjaldgæfur. Ef þetta gerist, þá skipta þeir símanum út. Sjá frétt frá Engadget.

One S notar sama viðmót og One X sem er kallað HTC Sense 4.0 (sem fékk reyndar nýlega uppfærslu). Það er fallegt og nothæft, en mjög þungt viðmót. Aflæsingarskjárinn býður upp á að aflæsa beint í fjögur forrit að eigin vali, sem er þægilegt. Ég ætla ekki að skrifa mikið um viðmótið, annað en að segja að það er nothæft en ég er almennt hrifnari af venjulegu viðmóti Android. Síminn kemur með Android 4.0 (Ice Cream Sandwich) en HTC hefur staðfest uppfærslu upp í 4.1 (Jelly Bean)

Niðurstaða

Frábær sími! Verst að hann er illa verðlagður og ekki seldur hér heima hjá fjarskiptafélögunum og öðrum smásölum. Síminn er seldur hjá Tali á 90 þúsund krónur, sem er fínt verð. Það sem hefði gert þennan síma fullkominn hefði verið betur staðsettur ræsitakki, 800×1280 upplausn og sama skjátækni og One X. Skoðum nú kosti og galla:

Kostir

  • Hraður
  • Vel hannaður
  • Rétt stærð (4,3″)
  • Skemmtileg myndavél
  • Góð ending rafhlöðu

Gallar

  • Furðulega verðlagður
  • Venjulegur skjár
  • Lélegur og illa staðsettur ræsitakki

Simon.is gefur HTC One S 8,6 af 10 mögulegum í einkunn.