Hátískusíminn Prada 3.0

Í byrjun þessa árs gaf LG út þriðja hátískusímann í samstarfi við tískuhúsið Prada. Síminn er einmitt kallaður Prada 3.0 og náðu fyrirverar hans góðum árangri á sínum tíma. Síminn er dýr en kemur með fínum vélbúnaði. Síminn kemur með sínu eigin viðmóti sem er ætlað að tóna saman með ytri hönnum símanum og er það einungis í svarthvítum lit.  Viðmótið er byggt á Android 2.3.7, sem er talsvert gömul útgáfa. Síminn hentar vel fyrir bæði kynin og er ekkert sérstaklega kvenlegur.

 

Innvols

Síminn er með tvíkjarna 1 GHz örgjörva með 1 GB í vinnsluminni, sem lofar góðu og náði 2387 í einkunn í Quadrant2. Ég var því miður oft var við hökt í símanum þrátt fyrir tvíkjarna örgjörva og oft hægagang til lengri tíma. Vöfrun var sérstaklega slæm og er vafrinn á Prada einn sá versti sem ég hef notað (af hverju þarf maður bókarmerkjatakka hjá slóðarstikunni?). Síminn hitnaði mjög mikið við vöfrun og myndbandsafspilun. Eitt kvöldið hitnaði síminn það mikið að hann þurfti að slökkva á sér sjálfur.  Þrátt fyrir þetta náði hann frábærum afköstum í tölvuleikum, enda fékk hann góðar mælingar þar. Það virðist vera að TI OMAP örgjörvarnir komi ekkert sérstaklega vel út við hefðbundna vinnslu. Síminn er með 8GB geymslupláss og hægt er að bæta við microSD minniskort til að stækka plássið.

Rafhlaða

Rafhlaðan hefur að geyma 1540 mAh getu, sem náði því miður ekki nógu góðri endingu. Einnig þá eru flestir snjallsímar með tví- og fjórkjarna með mun meiri getu (1800-2100 mAh).  LG virðist líka ekki ná að negla niður nógu vel slípaðan hugbúnað sem stýrir rafmagnsnotkun nógu vel.

Mynd og hljóð

Prada er með 4,3″ IPS LCD skjá með 480×800 upplausn sem er góð stærð en með slappri upplausn. Ég hefði viljað sjá qHD eða HD upplausn á svona stórum skjái og fer mikið pláss til spillis. Þegar síminn kemur út er komið talsvert af skjám með qHD og fyrstu HD símarnir að komnir á markað. Einnig hefði ég viljað sjá AMOLED skjá, þar sem viðmótið notar mjög mikið af svörtum lit, en með LCD skjátækni þá er svarti liturinn gráleitur. Síminn kemur ekkert sérstaklega vel út í sól þrátt fyrir mikla birtu, en svarthvíta viðmótið vegur aðeins á móti mikilli birtu. Skjárinn er bregst mjög vel við snertingu og eiginlega of vel. Við lentum oft í því að síminn skrollaði of mikið eða var farinn af stað á næsta hlekk við minnstu snertingu.

Það eru tvær myndavélar á Prada: 8MP að aftan með flassi og 1,3MP að framan fyrir myndsímtöl. Síminn nær ágætis myndum en myndavélin er mjög hæg. Myndavélaforritið er lengi að opnast og að smella af einni mynd. Flestir dýrir símar í dag bjóða upp á mun sneggri myndavél. Síminn er einnig með furðulegasta myndavélatakka sem við höfum séð: hann er ofan á símanum og er pínulítill og hringlaga. Það er ekki hægt að nota hann til að hoppa beint í myndavélina frá læstum síma.

Hátalarinn er staðsettur á bakhliðinni og heyrist ágætlega í honum þrátt fyrir það. Það heyrðist vel á báðum endum í símtölum og hann hélt góðu sambandi. Heyrnatólin sem fylgja með eru frábær, og virkuðu mjög vel. Einnig eru þau mjög vel hönnuð,  en það fer of mikið Prada merkingunum á báðum heyrnatólunum.

Hönnun

Hér er Prada síminn á heimavelli. Síminn er mjög stílhreinn og fallegur. Gæði ytri byrðar og takka eru í hæsta gæðaflokki. Viðmótið er einstakt og sérstaklega hannað af Prada. Það er allt svarthvítt og býður upp á að breyta táknum fyrir app sem þú nærð í, yfir í svarthvítan stíl. Síminn er mjög þunnur og léttur. Bakhliðin er með þægrilegri grófri áferð og búin til úr hörðu plasti. Það gerir hann reyndar aðeins sleipann og það getur stundum verið erfitt að halda á honum. Neðst framan á símanum eru snertitakkar fyrir valmynd, til baka, heim og leit. Ekki bara eru það einum og margir takkar, heldur er til baka takkinn inn í miðjunni sem er sérlega óþægilegt. Takkarnir að ofan eru fallegir, en óþægilegir í notkun. Þegar símanum er snúið á hlið til að taka breiðmynd, þá er myndavélatakkinn á vinstri hlið símans. Takkinn til að ræsa símann og skjáinn er ofan á símanum og er mjög grunnur. Erfitt er að vekja símann með þeim takka, en LG nær að leysa það ágætlega með því að leyfa þér að vekja símann með hljóðstyrkstökkunum á vinstri hlið. Síminn er mjög þunnur og fer merkilega lítið fyrir honum í vasa þrátt fyrir 4,3″ skjá. Síminn er gerður úr plasti að utan með fallegri og er nokkuð sleipur.

Allt mjög óþægilegt

Þetta er falleg og stílhrein hönnun, en ekki mjög praktísk og þægileg. Erfitt er að nota alla takka og snertitakka.

Niðurstaða

Þetta var ágætis tilraun að gera hátískusíma, en því miður hittir ekki í mark sökum fórna fyrir útlit (beauty is pain) og lélegs hugbúnaðar. Símar eru mikilvæg tól og skipta marga miklu máli við vinnu og í einkalífi. Símar mega ekki ofhitna, frjósa, hiksta og vera með óþægilega takka. Ef þessi sími hefði fengið uppfærslu með lagfærslum upp í Android 4.0 þá hefði hann líklega batnað til muna. Einnig er mjög erfitt að réttlæta hátt verð ef það eina sem var “premium” við símann var útlítið. Virkni og gæði þurfa einnig að vera premium.

Kostir

  • Fallegur og stílhreinn
  • Þunnur
  • Góð heyrnatól

Gallar

  • Ofhitnar
  • Lélegt og illaþýtt viðmót
  • Gamalt stýrikerfi
  • Of dýr

Símon.is gefur þessum Prada 3.0 símanum 6,2 í einkunn.