Nokia Lumia 610 umfjöllun
Lélegur snjallsími eða góður smartsími?
Nokia Lumia 610 er nýkominn á markað hérlendis og fyrsti Windows Phone síminn í þessum verðflokki (40-50 þúsund krónur) í heiminum. Fram að þessu hafa Windows Phone tækin öll verið mjög dýr, enda hafa framleiðendur þurft að aðlagast hörðum reglum frá Microsoft um vélbúnað. Tækið er sérstaklega gert til að nálgast kínverska markaðinn, en þar eru dýrir símar ekki jafnvinsælir og í hinum vestræna heimi.
Hér áður fyrr kom ekkert annað til greina fyrir mig en að notast við síma frá Nokia, þeir voru með flestu eiginleikana sem ég þurfti. Tölvupóstur, eitt og eitt forrit sem ég gat notast aukalega við í gamla Symbian og svo skipti auðvitað máli að síminn væri góður.
Svo kom tíð snjallsíma og Nokia er fyrst núna að reyna að ná að standa í lappirnar gagnvart Google (Android) og Apple (iOS). Kynnt var til sögunnar Lumia línan til höfuðs þeim og við skoðuðum ódýrustu útgáfuna, Nokia Lumia 610, sem keyrir Windows Phone stýrikerfið.
Lumia 610 er ætlað að keppa við snjallsíma á verðbilinu 40 til 50 þúsund og ber þar að nefna Samsung Galaxy Ace og Xcover, LG P970 Optimus Black og HTC Wildfire S.
Hönnun og innvols
Síminn kemur með 256 mb í vinnsluminni og Cortex A5 800 Mhz örgjörva, sem er ágætt fyrir þetta verð á svona síma. Bakhliðin er með þeim betri sem ég hef séð á svona síma en hann læðist undir símann og er hluti neðst af framhlið símans. Þegar haldið er á honum þá er eins og bakhliðin sé gerð eins og stammt gúmmí og rennur ekki auðveldlega til þegar haldið er á honum. Hátalarinn á símanum er öflugur miðað við sambærilega síma og heyrist vel í honum sama hvert var farið.
Myndavél er með 5MP upplausn og myndir úr símanum eru í takt við það. Sér hnappur er fyrir myndatökur eða myndbandsupptöku. Myndbandsupptaka er með VGA upplausn sem er í takt við verðið á símanum og sambærilegum símum en þó eru þegar nokkrir sambærilegir símar eru að taka upp í 720P upplausn. Hljóðstyrks og ræsitakkinn eru þægilega staðsettir á hægri hlið símans.
Síminn kemur með 8GB geymsluminni sem er hentug stærð. Það hefði verið gott að hafa möguleikann á því að smella auka SD korti í símann til að stækka plássið, en það er því miður ekki í boði.
Skjárinn er 3,7 tommur og er með upplausn upp á 480 x 800 punkta, en það er ekki mikið meira að segja um skjáinn. Hann er ágætur en þegar hann er settur við hlið á öðrum símum þá virkar svartur litur frekar grár á símanum og dýptina vantar fyrir vikið.
Hugbúnaður
Hérna erum við kominn í samanburðinn á stýrikerfum og hér átti ég erfitt með að átta mig á hvort suma daga að ég væri að nota góðan síma með tölvupósti eða snjallsíma. Byrjum á fyrsta atriðinu, það er ekki hægt að keyra Angry Birds á þessum síma. Þegar þú finnur Angry birds í app verslun Microsoft þá kemur tilkynning sem segir að þú hafi ekki nægilegt minni. Sama er í gangi með nánast öll þau forrit sem ég ætlaði að setja upp á símanum, ber þá hæst að nefna Skype sem Microsoft á og þróar í dag.
Ég verð þó að nefna að fréttir herma að Rovio sem gefur út Angry Birds sé að vinna að sér útgáfu fyrir þennan síma en samt sem áður var reynslan að setja upp forrit á þessum snjallsíma frekar mikil vonbrigði. Nokia segir að 95% af forritum eigi að keyra á þessum síma en það var ekki reynslan mín. Svo ber að nefna að 95% af forritum sem eru í boði fyrir alla síma eru venjulega slæm af minni og reynslu og það er greinilega þessi 5% sem ég var að leitast eftir að setja upp á þessum síma.
Tölvupóstur virkar fínt með hvaða þjónustu sem þú notar og síminn keyrir sig saman við Facebook þannig að þú getur átt spjall við vini í sama glugga að notast við tölvupóst, SMS eða Facebook spjall. Þetta er flottur eiginleiki en virkaði í svona helmingi aðstæðna að facebook skilaboð kæmust á leiðarenda frá þessum síma.
Þessar hömlur á vinnsluminni gera það að verkum að þessi sími sker sig engann veginn framúr sambærilegum snjallsímum í virkni þar sem stærri forrit sem eru staðlað að fólk vilji á snjallsíma í dag, virkuðu ekki.
Rafhlaða og símanotkun
Notkun tækisins dagsdaglega sem sími var ágæt og gæði símtalanna sjálfra var aldrei ábótavant. Ég þurfti að venjast símaskránni á símanum en hún er ekki eins snögg að nota eins og í öðrum símum sem ég er vanur. Síminn entist mér daginn en aldrei meira en það sem er sambærilegt við aðra snjallsíma en ég tek á mót miklum pósti yfir daginn og er oft að taka upp símann fyrir vikið.
Samantekt
Ég á erfitt með að staðsetja þennan síma með þær hömlur sem Nokia setur á hann með svona lítið vinnsluminni. Hann er virkilega þýður í notkun og að smella á milli glugga og forrita er ekki að hika neitt. En að geta ekki sett upp helstu forrit sem þó eru í boði fyrir þetta stýrikerfi er mikill mínus. En svo er úrvalið á forritum fyrir Windows Phone stýrikerfið heil grein útaf fyrir sig en þar vantar mikið af því úrvali sem er í boði fyrir Android og iOS.
Tilfinningin var að ég væri með síma sem væri með flott tölvupóst forrit frekar en snjallsíma, en slíka eiginleika er hægt að fá í ódýrari símum. Ég viðurkenni þó að ódýrari símar eru ekki með jafn flottar hreyfingar þegar smellt er á milli tölvupóstsins og símans en ég verð að efast hvort það réttlæti eitt og sér verðmiðann á þessum síma. Fyrir þetta verð eru aðrir sambærilegir snjallsímar sem hafa ekki sömu hömlur á notkun. Vandamálið er að þessi sími er of hátt verðlagður því hann er ekki að keppa nægilega vel við sambærilega snjallsíma í sama verðflokki. Samanber Samsung Galaxy Ace GT-S5830 sem fjallað var um fyrir ári síðan, en 610 virkar ekki eins og hann sé að keppa um markaðshlutdeild á sama markaði en kostar samt meira.
En stóra syndin er að gefa út síma með svona litlu vinnsluminni, Windows Phone var ekki hannað með þessa stærð af vinnsluminni en forritarar gerðu ekki ráð fyrir minna en 512 til að byrja með. Því keyra ekki helstu forrit sem notendur vilja sjá í svona tæki og reynslan er neikvæð af þessu tæki sem snjallsíma. Þegar búið verður að lagfæra forrit til að keyra á símanum, hvenær eða hvort sem það verður gert, þá verður komin ný kynslóð af snjallsímum frá Nokia sem munu skila margfalt betri reynslu.
Þeir sem kaupa þennan síma sem snjallsíma verða fyrir slæmri upplifun ef þeir vilja gera meira en að sækja póst og það er slæmt fyrir jafn ágætis stýrikerfi sem Windows Phone er.
Kostir
- Flott notendaumhverfi
- Góð hönnun
- Góð rafhlöðuending
Gallar
- Lítið úrval af helstu forritum
- Lítið vinnsluminni
- Léleg snjallsímaupplifun
Simon gefur þessum síma 5,7 af 10 í einkunn og eigum við því erfitt með að mæla með honum.