LG Optimus Pad V900 umfjöllun

LG er búið að vera að sækja í sig veðrið í farsímum í þó nokkurn tíma. Markaðshlutdeildin hér á landi er ekki stærst þó svo að símarnir séu að gera góða hluti. En við fengum afnot af LG Optimus Pad V900 sem er fyrsta spjaldtölvan sem kom frá þeim.

Hönnun og Innvols
Tölvan stendur sér á báti með Samsung með 8.9 tommu skjá en flestir framleiðendur eru ekki að framleiða þessa tilteknu stærð. Með þessari tölvu var LG hinsvegar fyrst til að notast við þessa skjástærð. Þegar hún kom út þá var skjárinn með því besta sem hægt var að fá en punktaupplausn á skjánum er 168 PPI (Pixels Per Inch) og skaut þá iPad tvö ref fyrir rass sem dæmi og var einungis 132PPI undir sjö tommu Samsung Galaxy Tab þess tíma. Týpan af skjá er IPS LCD með 16 milljón litum með upplausnin 768×1280. Upplifunin af skjánum er ágæt en það hrjáir skjáinn eins og flesta af sömu gerð að svartur er ekki alveg nógu góður og verður ögn grár. En dagsdaglega er þetta ekki eitthvað sem maður tekur mikið eftir.

Bakhlið Optimus Pad með tvær myndavélar

Tölvan fer vel í hendi og virkar ekki eins stór og skjárinn segir til um en gott er að nota hana til lestrar á bókum og vefsíðum. Tölvan er 621g að þyngd og því í þyngri kantinum, þú tekur eftir því þegar þú ert búinn að halda á henni í eitthvern tíma. Tölvan styður 3G og 4G kort fyrir gagnasamband og gerir það vel þegar GSM samband er gott. Ég gerði hraðaprufanir á 3/4G netsambandinu en niðurstöður þeirra voru svo mismunandi eftir hverja prufu að það var ekki marktækt. Best er að segja að netsamband var í meðallagi; um 1.5 mb/s í niðurhali og um það bil það sama upp. Það hefur ekkert með spjaldtölvuna að gera en gefur vísbendingu um við hverju má búast af svona tölvu á 3G/4G netsambandi.

Myndavélin tekur upp video í 1080p upplausn sem kemur vel út en einnig býður tölvan upp á video upptöku í þrívídd í 720P sem er eitthvað sem einungis LG er að bjóða upp á í dag í tækjum sínum. Hinsvegar er skjárinn ekki með möguleika að sýna þrívídd.

Skemmtileg stærð

Myndir eru teknar með 5MP upplausn og er með LED flash en ekki er hægt að taka myndir í þrívídd, það virkar eingöngu sem stendur með myndbandsupptökunni.

Það eru mini-HDMI tengi á tölvunni og því ekkert mál er að tengja hana við sjónvarpstæki ef svo ber undir og einnig microUSB til að tengja við tölvu. Virkilega gott að sjá en slíkt vantaði alveg í Samsung Galaxy Tab sem tekin var til umfjöllunar hér fyrir nokkru.

Endingartími rafhlöðunnar var gríðarlega góður, ég verð að segja að hvað sem LG menn hafa gert þá entist tölvan dögunum saman. Þá aðalega að gengið hefur vel frá því að þegar hún sofnar þá er tölvan að nota nánast ekkert rafmagn og ávallt var ég jafn hissa á að grípa í hana eftir einn til tvo daga og fullt eftir af hleðslu á henni. Ekki beint vísindaleg nálgun en þetta er dagsdaglega tilfinningin fyrir notkun af tölvunni.

Tölvan keyrir á tvíkjarna Tegra-2 örgjörva sem er klukkaður á 1GHz og hefur yfir að ráða 1GB í vinnsluminni. Keyrsla á bæði stýrikerfi og forritum var ágætlega þýð með Android 3,1 sem er keyrandi á tölvunni.

Hugbúnaður
Tölvan kemur uppsett með Android 3,1 stýrikerfinu, sem er hannað sérstaklega fyrir spjaldtölvur og allt virkar vel, hinsvegar hefði ég viljað sjá hana keyra á Android 4 eða hærra því reynslan er að allar keyrslur verða margfalt þýðari á þeirri útgáfu af Android. En vissar skipanir og að hoppa á milli forrita og glugga gátu hikstað eitthvað. Notkun hreyfibakgrunna (Live Wallpaper) setti mikið álág á tölvuna og allt varð einstaklega hægt. Að því slepptu virkar allt vel og upplifunin er góð af sjálfgefna umhverfinu sem fylgir Android 3,1 en LG sleppti alveg að setja inn breytingar á umhverfi eða gluggum tölvunnar. Slíkt er hægt að gera vel en að gefinni reynslu mega fleiri framleiðendur sleppa því og notast frekar við umhverfið sem Android kemur með. Vafrinn virkar eins og við er að búast en aftur vantar uppfærsluna upp í Android 4 en þá hefði verið hægt að keyra Google Chrome en upplifunin er betri af heimasíðum ef hún er keyrð á Android tækjum.

Niðurstaða
Reynsla mín af þessari spjaldtölvu er almennt góð, hún er reyndar ekki í sölu á Íslandi og því get ég ekki metið hana miðað við aðrar tölvur með tilliti til verðflokks sem hún myndi lenda í. Stærðin er góð og fer vel í hendi við lestur og vinnu. Að vera ávallt tengdur er alltaf gott með spjaldtölvur. Hefði sómað tölvunni miklu betur að keyra Android 4.0 miðað við innvols í tölvunni.

Að auki er tölvan í þeim hlutföllum að hún lítur út eins og stór sími og var gott grín gert að ganga um með hana upp að eyra og sjá viðbrögð fólks við því.

Kostir

  • Góð skjástærð
  • Góð ending á rafhlöðu
  • HDMI og microUSB tengi í boði

Gallar

  • Þyngd
  • Eldri útgáfa af Android

Ég gef LG Optimus Pad V900 7,2 af 10 mögulegum

 

Simon.is á fleiri miðlum