HTC One V umfjöllun

Fyrir sumarið gaf HTC út nýja línu sem heitir One. Í henni eru þrír símar og eru nú tveir af þeim í sölu á Íslandi. Simon hefur áður skoðað One X og þótti mikið til hans koma. Nú fer One V undir smásjána, en hér á ferðinni er minnsti og ódýrasti One síminn. Síminn er í miðjunni og er verðlagður á eitthvað í kringum 60 þúsund krónur hjá flestum íslenskum söluaðilum. One V minnir mikið á forfeður sína HTC Hero og Legend sem voru með smá höku (Jay Leno?) neðst á símanum sem er mjög einkennandi.

Innvols

Síminn er ekki líkur bræðrum sínum X og S þegar það kemur að innvolsi, enda sprengja þeir tveir flesta skala. Síminn er með 1GHz örgjörva og 512MB í vinnsluminni sem gerir hann frekar hægan og erfitt er að skipta á milli forrita fljótlega. Hann nær þó að framkvæma allt sem var prófað, eins og YouTube HD, flash myndbandaspilun og þungar vefsíður. Svo er boðið upp á 4GB í geymslupláss en síminn einmitt styður meira pláss með microSD rauf sinni. Með svo litlu plássi verður að bæta við minniskorti til að nota símann almennilega, sem er einmitt það fyrsta sem við gerðum. Það er þó skrítið að glænýr Android 4 sími í þessum verðflokki skuli bjóða upp á slappan örgjörva, þegar Sony Xperia U og Ace 2 koma báðir með tvíkjarna örgjörva. Hann er í raun að nota svipað innvols og HTC Desire sem kom út vorið 2010 (sem er einn af mínum uppáhalds símum). Áhrifin eru þó ekki það slæm og þarf einungis dass af þolinmæði til að nota símann. Síminn spilar tölvuleiki ágætlega, en er lengi að hlaða þeim þegar hann er borinn saman við dýrari týpur eins og One X.

Rafhlaða

Síminn er með 1500 mAh rafhlöðu sem telst vera venjulegt í dag. Síminn ber af endingu og er einn sá best sem ég hef notað! Samkvæmt vinum okkar hjá GSMArena þolir hann 10 tíma í tali og nær 7 tíma í vefvafri. En því miður þolir hann illa myndbandsspilun og nær einungis 5 tímum og 20 mínútum þar. En samt sem áður, frábær nýting á venjulegri rafhlöðu. Þetta er einn af fáum símum sem endist mér heilan vinnudag og skóladag, og á samt nóg til að endast vinnahittingin eftir svo langan dag.

Mynd og hljóð

One V er með 3,7″ LCD skjá með 480×800 upplausn. Þetta er svipuð skjástærð og á iPhone 4S og upplausnin sú algengasta á Android símum. Þessi stærð er mjög þægileg og hægt er að framkvæma allar aðgerðir með einni hendi. Skjárinn sýnir rétta liti, nema svartan sem virkar alltaf grár á flestum LCD skjám (nema á One X). Skjárinn er með góða sjálfvirkar birtustillingar og ég þurfti aldrei að slökkva á henni (eins og maður gerir á mörgum símum, sérstaklega Nokia). Skjárinn er mjög bjartur og virkar mjög vel í sól, meira segja mun betur en Samsung flaggskipið Galaxy S3!

One V er með eina myndavél á bakinu og fylgir því LED flass. Myndavélin er með 5MP skynjara og býður upp á sjálfvirkan fókus. Hún er staðsett á mjög svipuðum stað og iPhone 4S myndavélin, til hliðar vinstra megin á bakinu, sem er ólíkt öllum öðrum HTC símum sem eru með hana fyrir miðju ofarlega á bakinu. Myndavélin getur náð góðum myndum og býður upp á skemmtilega filtera til að setja ofan á myndirnar, svona eins og við þekkjum af Instagram. Myndavélarappið sem fylgir með símanum er það besta sem ég hef notað og það skemmtilegasta. Myndavélin var stundum í erfiðleikum með að ná fókus, en það er kannski vegna þess að ég hef enga hæfileika í ljósmyndun. Það var þó mun erfiðra við léleg birtuskilyrði.  Hér fyrir neðan er prufuskot af sérrétti Simon.is (mínum)! Endilega giskið á réttinn og innihaldið í athugasemdum ;)

Prufuskot á myndavélinni

Síminn er með hátalara á bakinu sem gerir myndbandsafspilun frekar óþægilega, en þetta er svona á flestum símum í dag (eini síminn sem ég veit til þess að hafa leist þetta er HTC Surround). Ég var sáttur við hljóðið í hátalaranum, en ég nota hann aðallega fyrir símtöl (það er þreytandi að halda á símum). Hljóðneminn og hlustin virkuðu líka vel og án hiksta.

Hönnun

Síminn er vel hannaður, eins og flestir HTC símar. Ytra byrðið er búið til úr þægilegu áli sem gerir símann mjög þéttann, en það er samt sleipt. Aftast hjá myndavélinni er smá svæði sem er úr gúmmí, sem reyndar gagnast ágætlega til að halda símanum á sínum stað þar sem álið er svo sleipt. Neðst svo á símanum er aftur gúmmí bakvið hökuna. Þar er líka leynihólf og hægt er að taka gúmmíið af til að finna símkortaraufina og microSD raufina. Það eru tveir takkar á One V: ræsitakki efst hægra megin (ég vil hafa þá vinstra megin) og hljóðstyrkur á hægri hlið. Ef þetta væri stærri sími, þá væri mjög slæmt að hafa ræsitakkann efst á símanum. Það er mjög erfitt að teygja sig í hann þar á símum með +4″ skjái. Þetta sleppur þó vel á One V. Svo eru snertitakkar fyrir til baka-, heim- og fjölverkatakkann (e. multitasking). HTC hefur fylgt fordæmi Google og skipt út valmyndartakka fyrir fjölverkatakka, sem okkur hjá Simon líkar mjög illa við. LG og Samsung hafa einmitt sleppt þessum nærgagnslausa fjölverkatakka og sett valmyndartakka á sína nýjustu síma (LG Optimus L7 og Samsung Galaxy S3). Öllu er hægt að venjast. HTC streytist við að setja hleðslurauf sína á vinstri hlið símans, sem er því miður ekki jafn praktískt eins og að hafa það neðst eða efst á símanum. Síminn passa því illa í flestar vöggur og bílahaldara frá þriðja aðila. Það eru samt til lausnir sem virka og maður þarf aðeins að passa sig á þessu.

Snertitakkar One V

One V býður upp á nýjasta viðmót HTC sem er kallað Sense 4.0. Eins og á One X, þá er algerlega búið að taka það í gegn til hins betra. Það var orðið óþolandi þungt og leiðinlegt. Þeir tóku út fullt af óþarfa hlutum og nú líkist það meira Android eins og það kemur frá Google, nema í HTC stíl. Þetta er fallegasta viðmótið frá framleiðanda að mínu mati, ásamt því að vera með fullt af mjög gagnlegum eiginleikum og skjátólum (e. widgets). Þeir eru með flottasta veður- og klukkutólið, sem HTC er þekkt fyrir. Þeir bjóða upp á lítið dagatal sem sýnir næsta atburð á dagskrá, sem ég get varla verið án í dag. Síminn styður fullt af tólum og samskiptaleiðum sem eru gagnleg, eins og t.d. Google+ , Twitter, Facebook, Dropbox, MS Exchange, MS Skydrive,  MS Hotmail og Flickr, án þess að það þurfi að sækja þau sérstaklega.

Heimaskjár HTC One V

Í heildina litið þá er þetta vel hannaður sími, bæði hvað varðar útlit og hugbúnað. Hann er fallegur og fer vel í hendi. Ég var ekki var við neina hnökkra í stýrikerfinu og allt virkaði vel.

Niðurstaða

Simon.is mælir eindregið með HTC One V og þá sérstaklega þá sem vilja ekki borga yfir 100 þúsund krónur fyrir snjallsíma. Hér er á ferðinni frábær sími á góðu verði. Ég hefði þó viljað sjá betri örgjörva í þessum síma. Það hefði gert vöfrun og skiptingar milli forrita mun sneggri. Meira vinnsluminni myndi einnig bæta vinnslu til muna. Mér finnst einmitt vanta síma í þessari stærð sem býður upp á betri afköst. Það gæti verið að Sony Xperia P eða Samsung Galaxy Ace 2 séu þeir símar.

Kostir:

  • Góð hönnun, fer vel í hendi
  • Góður skjár, sérstaklega í sól
  • Frekar ódýr

Gallar

  • Hægur
  • Lítið geymslupláss í boði án minniskorts

HTC One V fær 7,5 af 10 mögulegum í einkunn. 

Simon.is á fleiri miðlum

2 replies

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] Það er hægt að mæla með öllum símunum úr One línu HTC. One V er ekki eins hraður og hinir One símanir, en er byggður á sömu forsendum: gæði í ytra byrði, flottur skjár, góð myndavél með flassi og þægilegt viðmót (HTC Sense 4.0). Hans helsti akkilesarhæll er einskjarna örgjörvinn og 512MB í vinnsluminni, sem gerir símann frekar hægan. Það er þó auðvelt að venjast því og síminn samt sem áður góð kaup á 60 þúsund krónur hjá flestum söluaðilum. Hægt er að lesa um One V hér. […]

  2. […] One fjölskyldunni frá HTC. Simon er nú þegar búinn að fjalla um One X sem er flaggskipið og One V sem er ódýrari valkosturinn, sem fengu góða dóma hjá okkur. One S er frekar furðulega […]

Comments are closed.