Hljóðnemavandamál í Galaxy SIII – Möguleg lausn?
Nýjasta flaggskipið frá Samsung, Galaxy SIII, virðist ekki með öllu gallalaust enda hafa margir kaupendur talað um vandamál tengd hljóðnema símans. Helsta vandamálið lýsir sér þannig í símtölum að viðmælandinn heyrir oft lítið sem ekki neitt í þeim sem hringir og röddin bjagast þannig að halda mætti að sá sem hringir sé staddur í stórri tunnu.
Eins og gefur að skilja er þetta vandamál ansi þreytandi til lengdar og eru fleiri umræður þessu tengdar stöðugt að bætast við helstu snjallsímaspjallborðin á netinu og fólk er að forvitnast um hvað það geti eiginlega gert í þessu.
Hér eru mögulegar lausnir á vandamálinu samkvæmt FixYa:
- Endurræstu símtækið og taktu rafhlöðuna úr í 20 sekúndur
- Ef vandamálið er enn til staðar þá skaltu tengjast þráðlausu staðarneti (e. WiFi) til að uppfæra hugbúnað símans (e. firmware)
- Farðu í “Stilling/Settings” sem finna má í forritavalmyndinni
- Neðst í valmyndinni skal velja “Um tækið/About Device” og svo “Hugbúnaðaruppfærsla/Software Update”
- Ef uppfærsla er til staðar skal velja “Uppfæra/Update”
Ef hugbúnaðaruppfærsla virkar ekki, þá þarf að núllstilla símtækið, en það er gert á eftirfarandi hátt:
- ATH – Byrja skal á því að taka afrit af öllum gögnum á símanum og færa yfir á tölvu, svo að ekkert glatist í núllstillingunni!
- Farðu í “Stilling/Settings” sem finna má í forritavalmyndinni
- Veldu “Afrita og núllstilla/Back Up and Reset”
- Veldu “Núllstilla símann/Factory Data Reset” og svo “Endurstilla tækið/Reset Device”
- Að lokum skal velja “Eyða öllu/Erase everything”
Síminn þurrkar út allar stillingar og gögn á innbyggða minniskortinu og hljóðnemavandamálið ætti að lagast.
Það væri gaman að fá athugasemdir hér fyrir neðan frá þeim sem eiga Galaxy SIII og hafa verið að lenda í þessu. Endilega látið líka vita hvort þessar lausnir virkuðu í ykkar tilfellum og líka ef það eru einhverjar aðrar lausnir.
Heimild:
FixYa