WWDC 2012: iOS 6 beta kemur út í dag
Tim Cook, forstjóri Apple, steig á svið fyrr í dag og kynnti helstu nýjungar fyrirtækisins. Það var ekki mikið um óvæntar uppákomur og ekkert sást til iPhone 5 þrátt fyrir að myndir og myndbönd af bakhlið símans hafi tröllriðið netinu undanfarna daga.
Ný útgáfa af iOS stýrikerfinu fyrir iPhone, iPad og iPod verður gefin út í beta útgáfu í dag fyrir hugbúnaðarframleiðendur og full útgáfa kemur svo út í haust. Meðal nýunga í iOS 6 er uppfært kortakerfi sem tengist vefsíðunni Yelp.com og sækir þaðan umsagnir frá notendum um ýmsa þjónustu. Eins og við mátti búast birtir kerfið þrívíddar myndir af borgum og miðað við skjáskot frá ýmsum netmiðlum lítur kortið mjög vel út. Apple henti Google út og notar nú eigið kortakerfi.
Siri er búin að læra nokkur ný tungumál en kann að sjálfsögðu ekki að tala íslensku. Hún veit þó meira um íþróttir en hún gerði áður því nú er hægt að fá upplýsingar um úrslit leikja frá henni. Hvort hún viti eitthvað um Pepsi-deildina hér á Íslandi verður spennandi að sjá.
Bæði Macbook Air og Macbook Pro fartölvur fá uppfærslu á innvolsi en stóra fréttin er að ný kynslóð Macbook Pro línunnar var kynnt. Meðal nýjunga í hönnun tölvunnar eru ósamhverfar (e. asymmetrical) viftur sem eiga að vera hljóðlátari en aðrar viftur, þynnri hönnun á sjálfri tölvunni og að sjálfsögðu er ekkert geisladrif. Gömlu útgáfur af MacBook Pro verða seldar áfram samhliða þeirri nýju en 17″ útgáfan er hætt í sölu.
Helstu upplýsingar um innvols:
- 15,4″ retina skjár með 2880×1800 pixla upplausn (220 PPI)
- Intel Quad-core Ivy Bridge i7 örgjörvi
- Nvidia GeForce GT 650M skjákort
- Allt að 16GB vinnsluminni
- Allt að 768GB geymslurými
- 7 tíma rafhlöðuending
- USB 3 tengi
- HDMI tengi, SD kortarauf og tvö Thunderbolt tengi
- Um 2kg að þyngd
Ódýrasta útgáfa tölvunnar mun kosta $2199 og inniheldur 2,3GHz Quad-core i7 örgjörva, 8GB vinnsluminni og 256GB geymslurými.
Það var því ekki mikið sem kom á óvart á opnunardegi WWDC en engu að síður alltaf fréttnæmt þegar Apple uppfærir vörur sínar.