LG Optimus L7: Flottur í miðjunni

LG er algerlega að endurnýja snjallsímaframboð sitt og hefur nú sett á markað hérlendis tvo nýja síma á úr L-línunni: Optimus L3 og L7. Optimus L3 er sá ódýrasti og minnsti, L5 (sem er á leiðinni) í miðjunni og svo L7 sá dýrasti og stærsti af þessum þremur. L7 er hinsvegar ekki alvöru flaggskip sími og á lítið í síma á borð við HTC One X, Galaxy SIII o.fl. en hann kostar líka mun minna. Símarnir henta vel fyrir yngri kynslóðina og þá sem eru að byrja í snjallsímum. Línan er á heildina með sama útlitinu: þunnt og kassalegt. LG leggur sérstaka áherslu á skjátækni í þessari línu og sést það á öllum tækjunum. Simon.is fékk að skoða Optimus L7 og hér er okkar álit á tækinu.

Optimus L7 lítur vel út við fyrstu notkun og fær mann til að halda að hér sé einhvers konar flaggskip á ferðinni.  Síminn er vel hannaður, örþunnur, og með stóran skjá. Hönnunin er mjög stílhrein og aðgengileg en kannski of einföld. Hönnunin minnir mjög á Galaxy línuna frá Samsung. Optimus L7 er þó ekki sama flokki og Galaxy SII í gæðum og er verðlagður eftir því. Síminn er það sem er kallað “mid-range” og er hann vel staðsettur þar.

Þunnur og flottur

 

 

Innvols

Síminn er með einskjarna 1 GHz örgjörva. Þetta er frekar gamall örgjörvi þegar hann er borin saman við það besta á markaðnum. Flestir símar eru komnir með tvíkjarnaörgjafa og sumir meira að segja komnir með fjóra (HTC One X og Samsung Galaxy S3). Síminn er með 512MB vinnsluminni sem er dugar en við hjá Simon.is mælum ekki með minna en 1GB fyrir kröfuharða.  Það besta við símann er klárlega skjárinn. Skjárinn er 4,3″ stór, með IPS LCD tækni sem sýnir 480×800 upplausn og með raunverulegum litum. Skjárinn er rispuvarinn (Gorilla Glass) og er þægilegur viðkomu. Með símanum fylgir 4GB geymslupláss fyrir öpp ásamt microSD minnisrauf til að bæta við plássi. Myndavélin er  5MP með flassi og einnig er myndavél að framan fyrir myndsímtöl. Það kemur skemmtilega á óvart að síminn bjóði upp á NFC samskipti sem mun mögulega verða notað á næstunni. Síminn er því staðsettur kirfilega í miðjunni miðað við þessar tölur.

Optimus L7 virkaði hægur og þungur. Allar aðgerðir og skiptingar milli appa eru leiðinlega langar. Vöfrun var sérstaklega hæg, en síminn stóð sig best í tölvuleikjum og höndlaði þá vel. Google gaf út Samsung Galaxy Nexus fyrir jól, sem er sá sími sem segir til um hvernig innvols þurfi að vera til þess að keyra nýjustu útgáfuna af Android. Þessi sími er langt frá því að uppfylla þær kröfur, enda langt frá Galaxy Nexus í verði. Það bitnar þó mikið á stýrikerfinu og allar aðgerðir eru tímafrekar. Tvöföldun á vinnsluminninu upp í 1GB hefði hjálpað mikið þarna en þar sem síminn kostar aðeins 59.990 kr., þá er erfitt að vera of gagnrýnin á innvolsið því öflugstu símarnir á markaðnum kosta mun meira.

 

Rafhlaða

Síminn er með 1700 mAh rafhlöðu, sem er frekar stórt og ætti síminn því að duga í þónokkurn tíma. Það þarf að passa sig að slökkva á GPS þegar það er ekki þörf á því og nota sjálfvirka birtustillingu svo til að auka endingu. Síminn dugði mér alveg út daginn á minni notkun, sem er líklega aðeins yfir meðallagi. Endingin er því góð, sem er einmitt breyting hjá LG þar sem Optimus 2X var þekktur fyrir mjög stutta endingu.

 

Skjár og mynd

Eins og hefur komið fram, þá er skjárinn það besta við þennan L7. Ég er mjög hrifinn af 4,3″ stærðinni og hægt er að gera flestar aðgerðir með einni hendi á með þeirri stærð. LG státar sig af því að birta liti á sem raunverulegasta máta og er þá að bera sig saman við OLED tæknina sem á það til að ýkja bláa liti. Litirnir eru því mjög jafnir og góðir, ólíkt því sem við sjáum á  OLED símum frá Samsung.

Flottur skjár

Myndavélin að aftan er með 5MP skynjara og björtu LED flassi. Hún er þægilega staðsett ofarlega á miðju bakinu. Myndirnar úr símanum eru skýrar og góðar en eins og með flesta ódýrari síma þá eru myndirnar fínar í góðri lýsingu en verða fljótt lélegar  þegar tekur að rökkva. En myndavélar batna mikið með hverju ári og ef þessi myndavél er borin saman við þá sem var í Optimus One sem kostaði svipað þegar hann var nýr á markaði fyrir tæpum tveimur árum þá er munurinn gríðarlegur.Það er einnig myndavél að framan sem er með arfaslakri upplausn sem ætti þó að nægja í Skype myndsamtöl. Myndavélarappið er ágætlega hratt að bregðast við og opnast snögglega. Það er hægt að fókusa á ákveðna hluti eða fólk með því að smella á snertiskjáinn (snertifókus) og svo er hægt að taka mynd með annað hvort snertiskjánum eða hækka og lækka tökkunum. Myndirnar úr símanum eru skýrar og góðar. Það er hinsvegar einn stór galli við þetta app: það er ekki möguleiki að slökkva á hljóðinu sem kemur þegar tekin er mynd (e. shutter sound). Það er hinsvegar ekkert mál að sækja sér annað myndavélarapp sem býður upp á það.

Blíðvirðisdagur í dalnum

Hönnun

Ytra byrði símans er vel hannað: einfalt og fallegt. Sumir myndu mögulega segja of einfalt. Síminn er þráðbeinn með frekar hvassa kanta og minnir mikið á Samsung Galaxy S2. Síminn notar dökkt króm sem er virðist alltaf enda sjúskað á símtækjum með tíma, en mér sýnist þetta króm mögulega endast lengur. LG fær stórt hrós fyrir að setja alvöru heim-takka fyrir neðan skjáinn! Aðrir framleiðendur virðast hafa viljað elta Google og skipta út alvöru tökum fyrir snertiskjás heim-takka. Takkinn aflæsir einnig símanum og þarf því ekki að nota takkann alveg ofan á símanum, nema þá til að læsa honum aftur. Þetta er ágæt hönnun, en ég skil ekki af hverju LG er að elta Samsung svona mikið. Ég hefði viljað sjá þá hanna síma á eigin forsendum og koma með eitthvað ferskt.

Heim!

Viðmót símans kemur á íslensku, en hún er mjög bjöguð og illa þýdd (Google Translate). Þeir ná samt að bjarga sér fyrir horn með ágætu íslensku lyklaborði og orðabók sem virkar vel.  Orðabókin leiðréttir stafsetningarvillur og breytir stöku “a” í “á” og stöku “i” í “í”. Tad verður það og tu verður þú. Alveg eins og ég vil hafa það. Viðmótið sjálft er frá LG og er byggt ofan á Android viðmótið. LG hefur bætt við nokkrum mismunandi hreyfimyndefni þegar skipt er á milli skjáa sem kemur skemmtilega út. LG halda sig Roboto leturgerðina sem er fylgir með Android 4.0 sem er mjög vinsæl. Annars hefur litlu verið bætt við venjulega viðmótið frá Google, og staðan eiginlega öfug. Of mikið hefur verið tekið burt. Það vantar til dæmis Calendar tól (e. widget) til að geta séð af heimaskjánum hvað er næst á dagskrá, sem er einmitt upprunalega ástæðan fyrir því að ég fór að nota snjallsíma (hvar er næsti fundur?).  Það er greinilega að það vantar aðeins upp á hjá LG hvað varðar hugbúnað og þeir eru langt frá sínum samkeppnisaðilum: Samsung og HTC.

 

Niðurstaða

Optimus L7 er skemmtilegur sími með góðan skjá á góðu verði. Hann hentar vel fyrir þá sem eru að byrja í snjallsímum eða eru að kaupa snjallsíma númer tvö eða vilja ekki kaupa sér hágæðatæki. Hann er einnig ágætur fyrir þá sem eru að skipta frá Symbian “snjallsíma”. Síminn er hinsvegar mjög hægur, en það eru ekki allir sem munu taka eftir því og þeir þolinmóðu munu ekki finna fyrir því. Síminn ber þess merki að snjallsímamarkaðurinn er að þroskast og símarnir á miðjunni eru margir orðnir mjög álitlegir valkostir.

Kostir

  • Bjartur skjár með rétta liti
  • Nothæf myndavél
  • Gott verð miðað við gæði
  • Góð íslensk orðabók

 

Gallar

  • Mjög hægur
  • Óþægilegt og illa þýtt íslensk viðmót

Ég gef þessum síma 6,8 af 10 mögulegum. Ég get mælt með honum útaf góðu verði en ég ætti sjálfur erfitt með að nota hann til lengri tíma.

Simon.is á fleiri miðlum