Nær BlackBerry að snúa við blaðinu með nýju stýrikerfi?
Framleiðendur BlackBerry, Research In Motion (RIM), hafa á undanförnum misserum þurft að horfa á eftir ansi mörgum notendum sem hafa tekið ástfóstri við Android, WP7 og iOS. Þeir sáu fram á að þeir yrðu að gera eitthvað róttækt í sínum málum og stimpla sig hressilega inn á snjallsímamarkaðinn að nýju. RIM héldu því nýverið kynningu á nýju stýrikerfi fyrir komandi BlackBerry-símtæki, sem þeir hafa verið að þróa um nokkurt skeið.
Stýrikerfið kallast BlackBerry 10 og er í grunninn byggt á QNX-stýrikerfinu, en það er stýrikerfi sem meðal annars hefur verið notað í nýlegum bílum með innbyggðum snertiskjám. BlackBerry 10 er töluvert frábrugðið þeim stýrikerfum sem BlackBerry notendur hafa vanist til þessa, enda er mikil áhersla lögð á öpp, tilkynningar og þægilega framsetningu skjala (Word, PDF, Excel o.fl.).
Lyklaborðið er mjög stórt atriði í BlackBerry 10, enda hefur BlackBerry yfirleitt státað af framúrskarandi QWERTY-lyklaborðum á sínum símtækjum. Þegar slegið er inn á lyklaborðið þá koma upp tillögur að næstu orðum sem geta sparað ansi drjúgan tíma í innslætti og síminn lærir með tímanum hvernig orðalagi notandans er háttað.
Myndavélin í Blackberry 10 er einnig með ansi magnaðan fídus, sem lýsir sér þannig að ef tekin er mynd af einhverjum sem er með lokuð augun þegar smellt var af, þá er einfaldlega hægt að velja andlit viðkomandi á myndinni og spóla aftur/fram á þann tíma þar sem augun voru opin og ná þannig fram bestu mögulegu myndinni. Sjá nánar hér.
Það er alveg ljóst að BlackBerry á ennþá möguleika miðað við þetta, það verður fróðlegt að sjá hvort að BlackBerry 10 muni færa RIM sína gömlu kúnna á ný og jafnvel laða að nýja notendur. Það verður líka áhugavert að sjá hvort að BlackBerry takist að fara í harða samkeppni við hina risana með þessu nýjasta útspili sínu.
Endilega horfið á myndbandið hér fyrir neðan og sjáið hvort BlackBerry 10 sé eitthvað sem þið gætuð hugsað ykkur að nota:
[youtube id=”JEPYYo0-gfc” width=”600″ height=”350″]
Heimild:
The Verge