Myndaleitið og þér munuð finna

Þegar ég gekk eftir ganginum í Leifsstöð á dögunum fékk ég einfalda spurningu. Bent var á skilti á veggnum og spurt, hvar er þessi klettur og hvað heitir hann?

Ég þóttist vita að kletturinn væri fyrir norðan en gat ómögulega komið fyrir mig nafninu. Eins og svo oft áður kom það sér vel að vera með snjallsíma og þekkja möguleikana sem hann býður. Ég tók mynd af skiltinu og notaði Google myndaleit.

Á lygilega stuttum tíma, 2-3 sekúndum, var búið að hlaða myndinni upp og niðurstaðan komin. Hvítserkur í Húnafirði.

 

Fyrirbærið sem ég notaði gengur undir nafninu Google Goggles og er hluti af Google appinu í iPhone og Android símum. Ekki er einungis hægt að leita eftir kennileitum, heldur er líka hægt að leita eftir merkjum fyrirtækja (e. logo), listaverkum, bókum og jafnvel vínum. Þá er hægt að taka mynd af erlendum texta sem forritið þýðir á tungumál sem maður skilur.

Ég notaði þessa leit nokkuð þegar ég var erlendis á dögunum og verð að segja að þetta er algjör snilld. Ekki bara til að taka mynd af kennileiti og fá nafn þess heldur einnig til að fá upplýsingar og sögu kennileitanna sem maður er að skoða. Síðast en ekki síst má nefna að appið leysir Sudoku þrautir á skotstundu. Ég tók mynd af Sudoku þraut í blaðinu og var á örfáum sekúndum kominn með lausnina. Þetta getur sparað fólki mikinn tíma !

Hér má sjá myndband frá Google þar sem þeir sýna hvernig maður getur notað þetta.

http://youtu.be/ezc108DTaug

Nánari upplýsingar um Goggles má finna á heimasíðu Google.

 

Simon.is á fleiri miðlum