Samsung Galaxy Tab 10.1 umfjöllun

Flaggskip Samsung spjaldtölva er Galaxy Tab 10.1. Við hjá simon.is prufuðum slíka tölvu á dögunum og tókum saman smá umfjöllun. Það er rúmlega ár síðan tölvan kom á markað og stóra spurningin hlýtur að vera hvort Galaxy Tab 10.1 standist samanburð við iPad 3 og aðrar nýlegar spjaldtölvur.

Það fyrsta sem vakti athygli mína er ég handlék tölvuna var hönnunin, en hún er í anda Galaxy símanna sem ég er hrifinn af. Þar sem ég var með hvíta útgáfu bar ég tölvuna ósjálfrátt saman við iPad og stenst hún þann samanburð vel. Báðar tölvur líta vel út og fara vel í hendi.

Innvols

Hvað er það sem keyrir tölvuna? Tab 10.1 kemur með kubbasett frá Nvidia af týpunni Tegra 2 sem klukkar tvíkjarna örgjörva á 1 GHz. 1 GB er fyrir vinnsluminni og kemur tölvan annaðhvort með 16 eða 32 GB geymslupláss. Ekkert tengi er fyrir SD kort sem er óskiljanlegt þar sem þetta er staðalbúnaður í öllum spjaldtölvum á sama verðbili. Skjárinn er 10.1 tomma eins og gefið er í skyn í nafni tölvunnar. Upplausnin er 1280×800 með 149 ppi (Pixel per inch). Til samanburðar þá er iPad 2 með 132 ppi og iPad 3 (iPad new) 264 ppi. En ppi er hversu mikið af dílum er komið fyrir á 1 tommu fleti.

Rafhlaðan er 7.000 mAH og endingin er mjög góð í almennri notkun. Ávallt entist spjaldið daginn þrátt fyrir mikla notkun til lestur, Youtube og almenna vöfrun á netinu.Samkvæmt tölum framleiðanda á hún að endast í níu tíma með video í gangi og 72 með tónlist. Myndavél á baki er 3 MP og tekur video upp í allt að 720p upplausn. Að framan er svo 2MP myndavél sem nýtist vel fyrir  Skype og önnur samskiptaforrit.

Helstu eiginleikar

Það helsta sem ég tók eftir þegar ég notaði tölvuna var að hún var mjög þýð í vinnslu og því gaman að nota hana. Útgáfan sem við fengum uppfærði sig upp í Android 3.2 en uppfærsla upp í ICS (Android 4.0) mun vera á leiðinni. Ég hef tekið eftir hingað til að 3.x útgáfan af Android er mismunandi viðbragðsfljót og þægileg í notkun eftir framleiðendum, þá hversu snöggt umhverfið er að taka við sér við snertiskipanir og hik í flettingum. Slíkt var ekkert sjáanlegt í notkun á Tab 10.1 sem gerði upplifunina af tölvunni einstaklega skemmtilega.

Spjaldið er einungis 565g að þyngd sem er léttara en iPad 2 og 3 og skiptir miklu ef maður ætlar sér að halda á spjaldinu lengi við lestur sem dæmi.

Miðað við afburðarhönnun á Galaxy S2 símum að mínu mati skil ég ekki þá ákvörðun Samsung að hafa ekki mini-HDMI tengi eða micro USB tengi. Nýtingarmöguleikar tölvunnar eru gríðarlegir en þetta er eitthvað sem er staðalbúnaður í spjaldtölvum í dag. Það er hægt að tengja breytistykki til að fá þessa virkni en slíkt er bara til að flækja málin og auka kostnað við rekstur tölvunnar. Sama á við vöntunina á rauf fyrir SD kort. Maður hefur á tilfinningunni að Tab 10.1 sé of mikið að elta hönnun Apple að þessu leyti. Sem ætti að vera óþarft því það að hafa þessi tengi til staðar myndi efla upplifun notenda af tölvunni.

Hljóð og mynd

Samsung má eiga það að þegar tölvan kom á markað var skjárinn með þeim flottustu sem hægt var að fá. Þróunin á skjáum á gríðarlegu flugi þannig að ekki er hægt að segja það sama miðað við nýrri spjöld sem eru kominn á markað. Það mitt persónulega mat að 1280×800 er meira en nóg fyrir allt sem þarf að gera á spjaldi í dag, þó svo að það sé ekki full HD upplausn. Myndavélin er ágæt til síns brúks en best fannst mér að myndavélin sem er á framhlið sé 2 MP. Það er margfalt hærra en 0.3 MP á iPad 2 og 3. Fyrir vikið er skemmtilegra að nýta tölvuna sem samskiptatæki með forritum eins og Skype.

Vafrinn og Google Play

Eftir uppfærslu í Android 3.2 var vafrinn snöggur og þægilegur í notkun. Allar síður birtast eins og til er ætlast og fátt er meira um það að segja. Stuðningur er fyrir Flash 10.1 í tölvunni og er það eitthvað sem allar Android spjaldtölvur hafa umfram iPad.  Með tímanum skiptir þetta hins vegar alltaf minna og minna máli. Við höfum rætt um nýja Google Play markaðinn en auðvitað hefur spjaldið aðgang að öllu sem þar kemur fyrir. En ekki má gleyma að Nvidia Tegra 2 kubbasettið gerir þér kleift að keyra alla flottustu leikina sem eru í boði, á góðum hraða og án sýnilegs hiks.

Niðurstaða

Skemmtileg er orðið sem ég myndi nota til að lýsa þessarri spjaldtölvu í einu orði. Samsung Tab 10.1 er auðvitað ekki ný á markaðnum og því má búast við að hún fari að lækka í verði fljótlega. Það að breytistykki þurfi fyrir USB, mini HDMI tengin og vöntun á SD korts tengi vekur upp spurningar um þægindi í notkun. Hinsvegar er svo margt sem vegur upp á móti.

Kostir

  • Falleg og stílhrein
  • Eitt léttasta spjaldið á markaðnum
  • Stýrikerfið viðbragðsgott og þægilegt í notkun
  • Góð myndavél á framhlið
  • Sæmileg ending á rafhlöðu

Gallar

  • Breytistykki fyrir USB og mini HDMI tengi
  • Ekkert pláss fyrir SD kort
  • Dýr miðað við nýlegri spjaldtölvur

Ég gef Samsung Galaxy Tab 10.1 einkunnina 7 af 10 mögulegum.

 

 

Simon.is á fleiri miðlum