Nokia Lumia 800 í öllu sínu veldi
Þá er komið að því, Nokia Lumia 800 fór í sölu í dag (2.mars)! Simon.is meðlimir voru það heppnir að fá að skoða eintak áður en salan fór af stað. Hér eru okkar fyrstu niðurstöður. Nokia Lumia 800 kom út fyrir síðustu jól á ákveðnum evrópskum mörkuðum (t.d. UK, NL, DK) en ekki á Íslandi. Síminn er núverandi flaggskip Nokia og keyrir á Windows Phone stýrikerfinu sem við höfum áður fjallað um ítarlega. Flaggskipið verður reyndar leyst af innan skamms af Nokia Lumia 900, sem var einmitt tilkynnt núna í vikunni á Mobile World Congress ráðstefnunni. Lumia 900 er stærri útgáfa af Lumia 800 sem var upprunalega búin til fyrir ameríska markaðinn, sem einmitt kaupir einungis stóra síma eða iPhone (eða svo mætti halda).
Innvols
Skoðum nú tölurnar. Lumia 800 er með 3,7″ OLED skjá með 480 x 800 upplausn ásamt rispuvörn. Skjárinn er svipað stór og á iPhone en ekki eins skarpur (Retina skjárinn á iPhone er með 640 x 960 upplausn). Skjárinn er ótrúlega glansandi og hentar ágætlega sem spegill (ég er í matta klúbbnum). Örgjörvinn er einskjarna 1,4 GHz, en Android símar á þessu verðbili eru komnir með tvíkjarna. Microsoft tók þá ákvörðun að styðja ekki tvíkjarna örgjörva alveg strax, þar sem aukin afköst vógu ekki nógu þungt á móti aukinni rafmagnsnotkun (styttri endingu rafhleðslu).
Einnig er síminn einungis með 512 MB vinnsluminni sem væri einmitt nær ónothæft á Android við fulla notkun. Ég fann þó ekki fyrir neinu hiksti. Þvert á móti, þá er síminn mjög snöggur og þægilegur! Geymsluplássið er 16GB (13GB laus til notkunar), sem er einmitt fín stærð að mínu mati. Það er þó ekki hægt að bæta við plássi því það er engin minnisrauf í boði á Lumia 800, frekar en á öðrum Windows Phone símum fram að þessu. Myndavélin er 8 MP með Carl Zeiss Tessar linsu (þýðir það eitthvað?) og tvöföldu LED flassi. Ég saknaði myndavélar að framan, enda er Skype beta nýkomið út með stuðning fyrir myndsímtöl.
Helstu eiginleikar
Hönnunin er klárlega helsti kostur Lumia. Síminn er í þægilegri stærð og fer vel í hendi. Hliðarnar eru þægilega rúnaðar og plastið þægilegt viðkomu. Síminn er fallegur og táknrænn (iconic). Hann minnir mig þó óþægilega mikið á N8, en þetta er samt allt annar sími.
Það er þó tvennt sem heillaði mig ekki. Það er erfitt að komast að microUSB raufinni (til að hlaða símann) og ég sé fyrir mér að sú loka muni brotna af hjá einhverjum notendum. Takkarnir á hægri hliðinni til að hækka og lækka, slökkva og kveikja og taka myndir virka ódýrir, en þeir eru samt vel staðsettir.
Ending rafhlöðunnar var ekki sérstök og náði síminn varla heilum degi hjá mér (ég nota hann reyndar slatta). Ég hefði viljað sjá símann endast lengur, sérstaklega þar sem hann er að keppa beint á móti iPhone sem er með góða endingu. Ég hef þó kynnt mér málið og samkvæmt umboðsaðila Nokia hér á landi er von á fínpússun sem mun skilar sér í lengri endingu. Síðast í dag lak út á Twitter að það sé uppfærsla komin í prófun.
Mér fannst vanta íslenskuna, í viðmóti, lyklaborði og orðabók. Það er þó hægt að skrifa alla okkar sérkennilegu íslensku stafi með því að halda inni á samsvarandi tökkum. Nokia hefur alltaf verið þekkt fyrir íslenskt viðmót og orðabók, og vonandi er hún á leiðinni. Nýjasta uppfærsla Windows Live bendir einmitt til þess að íslenskan muni koma í næstu uppfærslu Windows Phone (Tango).
Þetta er fyrsti Windows síminn sem mun að öllum líkindum slá í gegn og eru það góðar fréttir fyrir notendur Windows síma og Microsoft/Nokia. Windows Phone er stílhreinasta og notandavænasta snjallsímastýrikerfið (að mínu mati) og á vonandi eftir að ná langt. Síminn býður upp á flest sem þekkist í snjallsímum: öpp, YouTube, Internet Explorer, aðgang að samfélagsmiðlun og auðvitað þekkt forrit frá Microsoft eins og Outlook, Word, Excel, Onenote, Sharepoint, Messenger (MSN Messenger), Bing maps og SkyDrive (sem er snilld). Ofan á þessa kosti býður Nokia upp á kortaforrit sitt Nokia Maps og leiðsögukerfi þeirra Nokia Drive, sem er án endurgjalds. Það er óneitanlega góður kostur, en það má bæta við að GPS eyðir hrikalega miklu rafmagni þegar það er í gangi (passið ykkur að taka með bílahleðslutæki). Það á við allar gerðir síma, ekki bara Nokia síma.
Í dag er mikið talað um öpp, og hér einmitt vantar þau. Þegar ný öpp koma á markaðinn þá koma þau síðast á Windows Phone, ef þau koma yfir höfuð. Vonandi mun það koma til með að breytast í náinni framtíð þökk sé Lumia 800.
Hljóð og mynd
Skjárinn er bjartur og með fallega liti. Mér fannst þó skjárinn vera aðeins of lítill, sem hefur áhrif upplifun vafursins. Einnig þá er skjárinn óþarflega dökkur í flúorlýsingu (skrifstofulýsingu) þegar notast er við sjálfvirka lýsingu (e. automatic brightness). Það er auðvelt að sporna við því með því að stilla hann á medium lýsingu í Settings. Skjárinn er of glansandi og sjást spegilmyndir reglulega í baksýn, sem er ekkert voðalega sniðugt þó það sé fallegt (þ.e. spegilmyndin af sjálfum sér).
Myndavélin er fín, en er víst betri á tvíburabróðir símans: Nokia N9. Hún er samt vel nothæf og náði ég nokkrum góðum myndum. Ég tók hinsvegar eftir að sjálfvirkt WhiteBalance virkar eitthvað furðulega og koma flestar myndir skýbólstraðar út. Ég kynnti mér málið og sá að ný uppfærsla frá Nokia mun koma til með að laga vandamálið. Meira um myndavélina í sérstökum samanburði sem von er á bráðum. Hér fyrir neðan má sjá skýjamyndunina, frá ljósi.
Hátalarinn er staðsettur undir símanum og heyrist vel í honum. Hringitónarnir og hljóðin sem fylgja með eru skemmtileg, enda Nokia með þau mál á hreinu. Ég tók samt eftir að hljóð frá tölvuleikjum voru alltaf mjög hávær og lægsta stillingin of hávær fyrir Angry Birds á klósettinu. Það er frekar skrítið þar sem síminn er með 30 hljóðstig og samt voru leikirnir að óma um á 1/30 stiginu (þetta er Windows Phone vandamál). Ég lenti líka í vandræðum með að tala í símann með hann á öxlinni og heyrði fólk mjög illa í mér við það.
Vafrinn og Marketplace
Internet explorer vafrinn fylgir með á símanum, og er hann hraður og góður. Slóðarstikan hverfur þó aldrei og það er ekki þægilegt að hoppa á milli flipa (tabs). Það er ekki hægt að samhæfa uppáhalds vefföng, lykilorð og annað milli tölvu og símans (eins og í Chrome á Android ICS), sem kemur á óvart þar sem Microsoft býður einmitt upp á 25GB vefpláss í gegnum Skydrive þar sem auðvelt væri að hýsa gögnin. Ef smellt er á hlekk út frá People appinu, sem er Windows Phone gáttin að samfélagsmiðlum (Twitter, Facebook, Windows Live), þarf að ýta tvisvar á Back takkann til að komast aftur í People frá vafranum, sem er mjög óþægilegt.
Það er ekki sami fjöldi af öppum og leikjum í boði fyrir Windows síma eins og fyrir Android og iPhone, en þeir eru hægt og rólega að nálgast keppinauta sína í því framboði. Ég fann slatta af því sem ég þurfti, en úrval leikja er mjög takmarkað. Hægt er að prófa efni sem er á Marketplace áður en það er keypt, sem er mikill kostur. Það er þó ekki búið að opna Marketplace fyrir íslenska markaðinn og þarf maður að stilla LiveID aðgang sinn þannig að maður þykist búa í öðrum löndum en Íslandi til að fá almennilegt vöruframboð. Mér var sagt að íslenski markaðurinn bætist við núna í mars, sem er mjög gott.
Niðurstaða
Lumia 800 er besti Nokia síminn sem hef ég séð lengi vel. Windows Phone þarf þó uppfærslu á að halda og er von á henni núna í vor. Einnig finnst mér innvolsið ekki vera nógu gott, en það hafði reyndar ekki áhrif á upplifun. Þetta er flottur, nothæfur snjallsími sem er þess virði að skoða. Verðið er einnig mjög gott og fæst Lumia 800 hjá öllum helstu söluaðilum á 80-90 þúsund. Mér sýnist 90 þúsund vera algengasta verðið hjá helstu söluaðilum og flestir bjóða upp á að dreifa greiðslum.
Kostir
- Fallegur og stíllhreinn
- Þægilegur í hendi
- Eitt af þremur bestu stýrikerfunum
- Góð myndavél (eftir uppfærslu)
- Gott verð miðað við getu
Gallar
- Rafhlaðan dugar ekki nógu lengi
- Skjárinn mætti vera stærri
- Óþægilegt að komast að hleðslurauf
Ég gef Nokia Lumia 800 einkunnina 7,5 af 10 mögulegum. Ef næsta uppfærsla eykur endingu rafhlöðu og bætir við nýjum eiginleikum þá mun hann hækka í einkunn.
Trackbacks & Pingbacks
[…] veðja fyrirtækin á að Windows Phone 7 (og svo 8) geti endurlífgað snjallsímahluta þeirra. Lumia 800 var fyrsti síminn í þessari endurlífgun og síðan þá hafa nokkrir Lumia símar litið […]
[…] að ná að standa í lappirnar gagnvart Google (Android) og Apple (iOS). Kynnt var til sögunnar Lumia línan til höfuðs þeim og við skoðuðum ódýrustu útgáfuna, Nokia Lumia 610, sem keyrir […]
[…] http://simon.is/2012/nokia-lumia-800-i-ollu-sinu-veldi/ Share this:TwitterFacebookLike this:LikeBe the first to like this post. Filed under Uncategorized | Skrá ummæli […]
Comments are closed.