Helstu fréttir af MWC ráðstefnunni
Mobile World Congress hátíðin er nýafstaðin og voru margir nýir símar kynntir á ráðstefnunni. Fyrir þá sem ekki þekkja til MWCþá er það árleg ráðstefna þar sem farsímaframleiðendur, fjarskiptafyrirtæki, þjónustuveitur og hugbúnaðarframleiðendur hittast saman á einum stað: Barcelona á Spáni. Farsímaframleiðendur nýta sér atburðinn til að kynna ný tæki til leiks. Simon.is mun fjalla ítarlega um nýjungar frá hverjum framleiðanda fyrir sig, en hér er stutt yfirlit yfir það helsta.
HTC One X valinn sími MWC 2012!
HTC fékk mesta athygli með nýju línuna sína HTC One. Þrír símar munu koma út í þeirri línu og sá stærsti var kosinn sími ráðstefnunnar: HTC One X. Sá sími verður með 4,8″ Super IPS LCD2 háskerpuskjá, fjórkjarna 1,5 GHz örgjörva, 1GB vinnsluminni, 32GB pláss, 8MP “double shutter” myndavél og Android 4.0. Einnig verður ytra byrðið bakað eins og keramik sem gerir það extra sterkt og þunnt. Double shutter eiginleiki myndvélarinnar gerir þér kleyft að taka myndir á meðan tekið er upp myndband. Síminn er einnig með 1800 mAh rafhlöðu, sem ætti að endast lengi. Hinir símarnir heita HTC One S og One V og verður fjallað um nánar síðar. Línan kemur út á öðrum ársfjórðungi 2012.
Nokia 808 PureView
Arftaki Nokia N8 er mættur og er nú með 41MP myndavél! Nokia 808 PureView er snjallsími sem keyrir á Symbian Belle og á að verða fullkomnasti myndavélasíminn á markaðnum. Síminn er með 4″ AMOLED skjá með 360×640 upplausn, 1,3 GHz örgjörva, 512MB vinnsluminni, 16GB geymsluplássi, 41MP myndavél með Carl Zeiss linsu og Xenon flassi. Myndavélin veitir ótrúlega skýrt digital zoom, bæði fyrir myndir og myndbönd. Það verður gaman að sjá myndir af þessu síma. Ég býst þó ekki við miklu af honum þar sem hann keyrir á Symbian, og mun hann seljast takmarkað þegar hann er borinn saman við aðra snjallsíma. Síminn kemur út í maí 2012 og ég geri ráð fyrir því að hann kosti í kringum 120 þúsund krónur.
Samsung Galaxy Beam
Samsung kom með áhugaverða pælingu: snjallsíma með innbyggðum skjávarpa. Galaxy Beam er fullbúinn snjallsími, rétt eins og aðrir símar úr Galaxy línunni: 4″ AMOLED skjár með 480×800 upplausn, tvíkjarna 1 GHz örgjörvi, 786MB vinnsluminni, 8GB geymslupláss, 5MP myndavél, 1,3MP myndavél að framan og keyrir á Android 2.3. Síminn er með 2000 mAh rafhlöðu, sem er mjög stór og líklega ætluð til að vega á móti orkuþörf skjávarpans. Þrátt fyrir skjávarpann þá er síminn einungis 12,5mm á þykkt, sem er nokkuð gott og rúmast fyrir í gallabuxnavasa. Ég veit samt ekki hverjir þurfa á skjávarpa með símanum sínum, hvað finnst ykkur?
Samsung Galaxy S2 valinn sími ársins 2011
MWC fylgdi í fótspor Simon.is og valdi Samsung Galaxy S2 síma ársins 2011. Síminn kom út fyrri part ársins 2011 og hefur selst alveg hreint ótrúlega vel. Þetta er fyrsti síminn sem hefur loksins fengið marga aðdáendur Apple að skipta yfir frá iPhone. Að mati okkar er þetta enn besti síminn til að kaupa miðað við verð. Hann kostar í kringum 100 þúsund krónur hjá flestum söluaðilum og er með tvíkjarna 1,2 GHz örgjörva, 1GB vinnsluminni, 16GB geymslupláss og 4,3″ Super AMOLED+ skjá sem er enn þá daginn í dag talinn vera besti skjárinn á markaðinum. Aðrir símar á þessu verðbili sem eru nýútkomnir, eins og Motorola Razr, Nokia Lumia 800 og Nokia N9, ná ekki að slá út þessa eiginleika. Nokia símarnir eru þó 10 þúsund krónum ódýrari. Margir voru að vonast eftir því að Samsung Galaxy S3 yrði kynntur á MWC, en Samsung var búið að gefa það út að þeir myndu halda sérstakan atburð þegar það kæmi að því. Ætli það verði ekki í apríl?
Margt annað áhugavert var kynnt á MWC eins og Nokia Lumia 610, nýjar Galaxy Tab2 spjaldtölvur, snjallsími með Intel örgjörva, LG Optimus 4X og sterk innkoma Huawei. Við ætlum að fjalla nánar um það í vikunni. Fylgist með!
Trackbacks & Pingbacks
[…] átti Mobile World Congress 2012 með HTC One […]
Comments are closed.