Íssamlokan komin á Samsung Galaxy S2

Við getum andað léttar því einn vinsælasti sími landsins,  Samsung Galaxy S2, hefur fengið uppfærslu í nýjustu útgáfu af Android. Sú útgáfa er Android 4.0.3 og gengur undir nafninu Ice Cream Sandwich.  Mikið hefur verið spekúlerað að undanförnu hvenær von væri á uppfærslunni og höfðu Samsung og einhver símafyrirtæki gefið út ýmsar dagsetningar.  Ég held að enginn hafði spáð því að uppfærslan kæmi í dag fyrir Ísland. Það er gleðiefni að Íslendingar séu í hópi þeirra fyrstu í heiminum sem fá þessa uppfærslu (skv. TheVerge voru það bara Kórea, Pólland, Svíþjóð og Ungverjaland sem áttu von á uppfærslunni í dag).

Til að uppfæra símann er einfaldlega farið í Settings -> About Phone -> Check for Updates. Ef þið eruð ekki búin að stofna Samsung reikning þá biður síminn ykkur um að gera það (gerið það á símanum og það tekur 20 sek). Næst hleður síminn niður uppfærslunni sem er um 200mb og því mæli ég með því að þið séuð tengd einhverju staðarneti (tengd þráðlausum router, ekki vera á 3G sambandi nema þið hafið þeim mun stærri gagnamagnspakka). Uppfærslan sjálf tekur svo innan við 5 mínútur og eiga engin gögn að tapast í ferlinu. Ef þið hafið ekki verið með næst-nýjustu útgáfuna fyrir þessa uppfærslu gætuð þið þurft að endurtaka þetta skref. Undir Settings -> About Phone stendur hvaða útgáfu þið eruð með undir liðnum Android version og hún á að fara upp í 4.0.3.

Ekki hefur gefist mikill tími til að fara yfir þær breytingar sem hafa átt sér stað á þessu símtæki en hægt er að skoða umfjöllun okkar um Íssamlokuna (ICS) hér.

Simon.is á fleiri miðlum