Strætó appið – loksins!

Undanfarna mánuði og ár hefur maður stundum heyrt út undan sér: „Hvenær kemur Strætó app?“

Biðin er á enda því Alda Software hannaði Android app sem ber einfaldlega nafnið Strætó og birtir upplýsingar um staðsetningu strætisvagna í rauntíma. Appið er ekki á vegum Strætó BS og er enn í beta útgáfu en virðist þó virka nokkuð vel. Það sækir rauntímaupplýsingar um staðsetningu strætisvagna frá vefþjónustu Strætó sem birt er á strætó.is. Hugmyndin er ekki ný því nemendur við Háskóla Íslands gerðu svipað app fyrir þó nokkru síðan en það var aldrei sett inn á Android market.

 

Þegar kveikt er á appinu birtist Google kort sem sýnir þína staðsetningu og leiðina sem þú velur. Þegar greinin er skrifuð vantar enn nokkrar leiðir í appið, en samkvæmt framleiðendum appsins eru þær væntanlegar. Hægt er að fá upplýsingar um stoppistöðvar á kortinu með því að ýta á þær. Efst á skjánum er stika með fellivalmynd (drop down menu) þar sem hægt er að velja leið og hvort önnur eða báðar áttir séu sýndar.

Í stillingum eru eftirfarandi valmöguleikar:

    • Fela hvar ég er
    • Fela leið
    • Fela stöðvar
    • Loftmynd / kort (satellite / map)
    • Mín staðsetning
    • Um appið

Appið er mjög einfalt og gerir nákvæmlega það sem ætlast er til af því en það er svigrúm fyrir bætingar. Það væri gagnlegt að geta keypt strætókort í gegnum appið eða að minnsta kosti séð verðskrá.

Það er nokkuð ljóst að það er kominn tími á að Strætó BS gefi út sitt eigið app því margir eru greinilega farnir að hugsa um að appvæða almenningssamgöngur.
Strætó (beta) á Android Market

 

Simon.is á netinu

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] byrjun vikunnar fjölluðum við um strætó app fyrir Android. Þá var svoleiðis ekki í boði fyrir iOS tæki. Nú hefur það breyst því seinni partinn í […]

Comments are closed.