"Hvernig snjallsíma á ég að fá mér?" – nokkur góð ráð

Við hjá Símon fáum oft spurningar frá lesendum, vinum og vinnufélögum um hvaða snjallsími sé bestur og hvað séu bestu kaupin í dag. Kollegar okkar hjá The Verge fá þessa spurningu greinilega oft og skrifuðu um þessa erfiðu spurningu. Þeir, eins og við hjá Símon.is, hafa oftar en ekki lent í því að svara bara: “æi fáðu þér bara iPhone”.

Við ákváðum því að taka saman nokkrar leiðsagnarreglur og ráð sem tækla þessa spurningu að einhverju leyti.

Stýrikerfi
Eitt af því fyrsta sem fólk ætti að ákveða er hvaða stýrikerfi það vill nota. Margir hafa skoðun á því hvort að Windows eða Mac OS X sé betra og svipað er að gerast með snjallsíma í dag. Helstu stýrikerfin sem hafa náð vinsældum á Íslandi eru Android, iOS og Symbian en Windows Phone 7 (WP7) mun líklega verða vinsælla þegar fleiri öpp verða í boði síðar á þessu ári.

 

Android hefur náð miklum vinsældum á Íslandi og er það stýrikerfi sem flestir meðlimir Símon.is eru að nota. Það er mjög opið og tengist auðveldlega Google reikning notenda. Það er auðvelt að breyta flestu eins og uppröðun flýtileiða á skjáborðinu (home screen), uppsetningu skjátóla (widgets) og útliti stýrikerfisins (launcher) svo eitthvað sé nefnt. Hægt er að fá snjallsíma sem keyra á Android á verðbilinu 30.000 kr. og alveg upp í 130.000 kr. Þessi mikli sveigjanleiki gerir það að verkum að stundum höktir stýrikerfið vegna þess að margir vélbúnaðar- eða símaframleiðendur búa til símtæki eða spjaldtölvur fyrir þetta eina og sama stýrikerfi. Það má því búast við að Android símar í lægsta verðflokknum séu ekki með þennan “vá faktor” sem margir af dýrari símunum hafa.

 

 

iOS er stýrikerfið sem iPhone iPod og iPad keyra á. Margir hafa gagnrýnt það fyrir að vera lokað og leyfa ekki notandanum að stjórna símtækinu jafn auðveldlega og hægt er að gera á Android símum. En þetta lokaða hugbúnaðarumhverfi verður til þess að samspil hugbúnaðar og vélbúnaðar er með því betra sem hægt er að fá á snjallsíma í dag. Allar grunnaðgerðir eru mjög smooth og fyrir nýgræðinga er mjög auðvelt að komast inn í stýrikerfið og læra fljótt á það. Sumir pirra sig á því að iOS býður ekki upp á skjától eða Adobe Flash stuðning en þrátt fyrir það hafa iPhone símar náð gríðarlegum vinsældum út um allan heim eins og þekkt er.

 

 

Symbian stýrikerfið frá Nokia er það stýrikerfi sem margir á Íslandi halda að sé dautt. Það er ekki alveg rétt því ný uppfærsla, Symbian Belle, er væntanleg sem nokkrir af okkur hjá Simon.is höfum prófað. Oft er vitnað í Stephen Elop, forstjóra Nokia, sem sagði víst að þróun á Nokia væri hætt en það er víst ekki alveg rétt. Nokia (Belle) fær stuðning til allavega 2015 og jafnvel lengur. Symbian og Nokia notendur þurfa því ekki að svekkja sig á því að síminn þeirra verði úreltur eftir nokkra mánuði en við myndum frekar ráðleggja Nokia notendum að skoða Windows Phone stýrikerfið.

 

 

Windows Phone 7 (WP7) hefur enn ekki náð miklum vinsældum á Íslandi en það mun kannski breytast þegar fleiri símtæki á þessu stýrikerfi koma í sölu. Við sögðum frá því fyrr á þessu ári að Nokia Lumia væru væntanlegir til Íslands. Það eru fyrstu símarnir frá Nokia sem keyra á WP7 og lofa þeir góðu – allavega eru margir meðlimir Simon.is spenntir fyrir þeim. Öpp á WP7 eru fáanleg í gegnum Windows Marketplace en þar eru um 60 þúsund öpp fáanleg þegar þessi grein er skrifuð.

 

 

Apps
Er uppáhalds appið þitt til á öll farsímastýrikerfi? Hefurðu kannski aldrei notað snjallsíma en hefur einhverja hugmynd um hvaða öpp þig langar að nota? Athugaðu hvort þú getir fengið þessi öpp á símann sem þig langar í. Flest vinsælustu öpp heimsins eru fáanleg á öll stýrikerfi en það kemur fyrir á ákveðin öpp séu bara fáanleg á eitt ákveðið stýrikerfi. Hérna á Íslandi virðast flestir app framleiðendur einblína á iOS (iPhone) og Android. Líklega munu þrjú stýrikerfi bjóða upp á besta úrvalið á öppum á næstu árum: iOS, Android og Windows Phone 7.

 

Skjástærð
Hversu stóran síma nennirðu að ganga með á þér? Ertu með símann í buxnavasanum, inni á jakkavasa eða töskunni þinni? Siturðu oft langar ferðir í strætisvögnum og langar að horfa á video á símanum eða ertu bara að nota hann til að kíkja á Facebook og tölvupóst við og við? Þetta eru nokkrar spurningar sem þú ættir að íhuga við val á skjástærð. Ef þig langar í iPhone þá er þetta ekkert flókið – þú færð síma með 3,5″ skjá. Steve Jobs lét hafa eftir sér að skjárinn ætti ekki að vera stærri en 3,5″ því þá væri erfiðara fyrir flesta að stjórna símanum með einni hendi. Vinsælir Android símar síðustu ára eins og til dæmis HTC Desire voru margir með 3,7″ skjá en símarnir voru samt svipaðir að stærð og iPhone þó að sjálfur skjárinn var stærri á Android símunum. Í dag er algengt að dýrir Android símar séu með 4,3″ skjá. HTC Sensation og Samsung Galaxy S2 skarta báðir 4,3″ skjá sem og Motorola Droid Razr sem er væntanlegur í sölu innan skamms. Þessir símar eru yfirleitt mjög þunnir sem mörgum þykir vega á móti þessari gríðarlegu skjástærð. En sem betur fer eru símar eins og Nokia N9 (3,9″) og Nokia Lumia 800 (3,7″) að koma aftur með þessar “minni” skjástærðir.

 

Framleiðandi
Þó að stýrikerfi snjallsíma séu ekki mörg þá eru samt til mjög margir framleiðendur. HTC, Nokia, Samsung, Apple, LG, Huawei og Blackberry eru nokkrir af þeim vinsælustu hér á landi. Í Bandaríkjunum hafa Motorola símar notið mikilla vinsælda og eru núna væntanlegir til Íslands. Ef þú heldur ekki hollustu við ákveðið vörumerki þá er best að athuga fyrst hvað stýrikerfi þú vilt nota og ákveða svo framleiðanda. Við mælum með að fara í verslanir og prófa að halda á símunum og sjá hvernig þeir höndla stýrikerfin.


Hvaða síma mælum við með?
Í stuttu máli getum við ekki svarað því hvaða síma þú átt að fá þér. Þróun snjallsíma er ótrúlega ör og því í raun aldrei neinn sími á markaðnum sem er framúrskarandi og “besti síminn”. Það sem er nýtt í dag er úrelt á morgun. En ef þú hefur ákveðna skoðun á því hvaða sími sé bestur þá viljum við endilega heyra frá því hér í umsagnarkerfinu eða á Facebook síðu Simon.is

Fylgstu með Simon.is á netinu

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] Kíktu á Simon.is og kynntu þér málið. Svo er náttúrulega nauðsynlegt að ‘læka’ við Facebook síðuna þeirra svo þú missir aldrei af neinu. Til að skoða efni sem er merkt með Android á síðunni geturðu smellt hér. Ég mæli síðan með að skoða umfjöllun þeirra um HTC One X, færslu um hvað er gott að byrja á að gera með nýtt Android tæki og góð ráð frá þeim þegar kemur að því að velja næsta síma. […]

Comments are closed.