Geimdauði á símanum þínum – flottasti snjallsímaleikurinn

Dead Space er þriðju persónu skotleikur sem gerist í geiminum. Þú ert staddur í geimstöð þar sem uppvakningar og skrímsli gera allt í sínu valdi til að drepa þig.  Aðalsöguþráðurinn sem útskýrir afhverju þessi skrímsli eru komin til að drepa þig, birtist hægt og rólega í allri sinni mynd.[youtube id=”pKIaygeh8PY” width=”600″ height=”350″]

Leikjaspilunin er einföld og fær maður leiðbeiningar í gegnum leikinn hvernig á að drepa skrímslin. Það felst aðallega í að skera útlimi af þeim með sög eða skjóta þau með byssu. Gengið er í gegnum dimm og drungaleg göng og herbergi og nær tónlistin ásamt umhverfishljóðum að gera leikinn ógnvekjandi.

Stjórnun á leiknum er smá óþægileg til að byrja með en venst furðu hratt. Þú strýkur upp til þess láta karakterinn ganga áfram og niður til þess að hann bakki. Síðan er smellt á skjáinn til að skjóta og fylgt örvum til að skera með söginni. Hægt er að halla símanum til að breyta skottegund byssunnar, sem er virkilega pirrandi. Ég er enn að reyna að átta mig á hvernig maður  endurhleður byssuna! Það eru svona einfaldir hlutir í leiknum, sem eru gerðir óþarflega flóknir.

Söguþráðurinn er frekar einfaldur og ekki beint mikið um að flækjur. Leikurinn snýst um að berjast gegn kirkju sem stundar námugröft á ólöglegu svæði.

Leikurinn er framleiddur af Electronic Arts og er virkilega fallegur. Það er ekkert grín hversu miklu hefur verið eytt í að koma honum inn á símann og þá í sem bestri mynd. Hann er nokkuð stór, um 500mb, og því ekki mögulegur fyrir marga síma. Einnig er grafíkin í leiknum að öskra eftir því að vélbúnaður símans sé frekar góður.

Heilt yfir er þessi leikur alveg vel sá flottasti sem er hægt að finna á síma að mínu mati. Hann er fínn í spilun og söguþráðurinn er allt í lagi.

Bæði er hægt að spila leikinn í Android og iPhone. Í tilefni forsetadagsins í USA næstkomandi mánudag er leikurinn á tilboði í Appstore á $1 í stað $6. Það er því um að gera að skella sér á hann núna.