Dýrustu öppin 5. hluti – Eitt sniðugt fyrir ljósmyndara

Ein fegurðin við öpp í snjallsíma er að oftast eru þau ódýr eða ókeypis. Á þessu eru þó undantekningar. Við hjá Simon.is tókum saman dýrustu iOS öppin í Appstore (bandarísku) í hverjum flokki fyrir sig. Þetta var ekki mjög vísindaleg rannsókn enda bara til gamans gert. Sum öpp eru þannig að þau eru frí eða ódýr en svo þarf að borga aukalega til að virkja allskonar möguleika í appinu. Í þessari viku munum við daglega birta eina grein sem tekur fyrir nokkra af dýrustu flokkunum. Samtals eru flokkarnir um 20. 

 

Fréttir (e. news) – Dýrast er appið Really Simple Syndication sem hefur skammstöfun sem margir kannast frekar við, RSS. Appið kostar $10 og er að mér sýnist eitt af milljón RSS öppum sem eru í boði. Appið hefur ekki fengið nógu margar einkunnir til að þær séu birtar né hefur það fengið umsagnir. Því er erfitt að segja eitthvað um það. Nema að fyrir $10 þarf appið vera býsna gott, því það er fullt af fríum RSS öppum sem eru fín. Reyndar sýnist mér þetta vera eitthvað svindl. Sami framleiðandi hefur búið til nokkur öpp sem eru öll með sömu skjámyndum og virðast öll byggð upp alveg eins. Ég mæli því ekki með því að þið kaupið þetta.

 

 

Ljós- og kvikmyndun (e. photo and video) – Í þessum flokki kostar DSLR Camera Remote HD $50 um 6 þúsund krónur og er þess heiðurs aðnjótandi að vera dýrast. Appið virkar bara í iPad og tengist yfir þráðlaust net í SLR myndavél, sem þarf að vera tengd við nettengda tölvu. Með appinu er hægt að smella af, skoða myndir jafn óðum og þær eru teknar og margt fleira. Þetta app virkar mjög sniðug fyrir þá sem eru með ljósmyndadellu eða vinna við ljósmyndun. Appið fær 3,5 stjörnur af 5 mögulegum frá tæplega 40 viðskiptavinum.

 

 

Framleiðni (e. productivity) – Hér er langdýrasta appið Ignition og kostar $100. Þetta er app til að tengjast tölvum og stjórna þeim yfir internetið. Til að þetta virki þarf að setja upp smá forrit í tölvuna eða tölvurnar. Hægt er að tengjast ótakmörkuðum fjölda tölva, hafi þær þetta forrit uppsett. Ég veit ekki hvað appið hefur fram yfir önnur „remote“ öpp sem eru c.a. 90% ódýrari. Appið fær þó 4,5 stjörnur í einkunn frá yfir 12 þúsund manns. Eftir smá heimildarvinnu komst ég að því að appið er nýlega búið að hækka í verði. Frá upphafi hefur það kostað 20-30 dollara og verið á tilboði á um $15. Hvað veldur þessari verðlagningu er mér ekki kunnugt um.

 

 

Samfélagsmiðlun (e. social networking) – Á toppnum er appið MultiBangLt sem kostar $18 eða ríflega 2.000 krónur. Appið er notað til að streyma ljósmyndum og tónlist með AirPlay. Þá er einnig mögulegt að borga aukalega og geta streymt kvikmyndum úr síma yfir í sjónvarp eða öfugt. Appið hefur ekki fengið nógu margar einkunnir til að hægt sé að birta meðaltal og umsagnir.

 

 

Fylgstu með Simon.is á Facebook