Angry birds hvað?! Techno Kitten Adventure – Myndband

Rovio Mobile, stigið til hliðar! Angry birds er vafalaust einn vinsælasti leikur heims á snjallsímum, en lesendur góðir, dagar Angry Birds á toppnum eru taldir. Ég kynni til sögunnar Techno Kitten Adventure!

Það eru til ansi margir góðir leikir á markaðnum í dag, en þá skortir alla eitthvað. Þangað til í dag var ég ekki alveg viss hvað þetta eitthvað var, en eftir að hafa rambað á TKA þá var ég ekki lengi að átta mig á því hvað það var. Regnbogar, techno, kisur og brjálað ljósashow er nákvæmlega það sem hefur vantað í ALLA leiki!

Leikurinn er afar margslunginn og eru markmið leiksins ýmis. Meðal annars má nefna: ekki drepa kettlinginn, njóttu afbragðs tónlistar, ekki fá flogakast og síðast en ekki síst að njóta lífsins til hins ítrasta. Aðal söguhetja leiksins er kettlingur sem reynir að fljúga um himingeimana eins lengi og hann getur áður en hann klessir á og verður að byrja upp á nýtt. Hægt er að velja á milli þriggja mismunandi kettlinga: Jetpack kitteh, Butterfly Kitteh og Dream Kitteh (Nöfnin þýðast lauslega yfir í Þotubakpoka kisi, Smjörflugu kisi og Drauma kisi). Leikurinn skartar magnaðri grafík og má með sannindum segja að höfundum leiksins hefur tekist að framkalla hinn fullkomna leik.

Leikurinn skartar einungis einu borði að svo stöddu, en framleiðendur leiksins hafa háleit plön og eru þónokkrar viðbætur í bígerð fyrir leikinn. Það varpar þó engum skugga á óendanlega gleði sem leikurinn veitir manni nú þegar, hvað þarf maður meira en einhyrninga, fljúgandi diskóljós og stjörnur?

Ótrúlega vel hannað samspil regnboga, diskóljósa og teknó tónlistar gerir leikinn að hinu undursamlega listaverki sem hann í raun er og kæmi það greinahöfundi ekki á óvart þó að Monu Lisu yrði brátt skipt út fyrir spjaldtölvu með þessu meistaraverki. Greinahöfundur verður að láta af skrifum að svo stöddu, þar sem of mikil fjarvera frá leiknum getur framkallað óbærilega hausverki, ógleði, mikla vanlíðan, þunglyndi og óstjórnlega löngun til þess að setja techno tónlist á fullt blast og hoppa út um gluggann.

Tehno Kitten Adventure  er fáanlegur á , App Store, Windows Phone, Xbox Live og Facebook.
Hægt er að ná í fría útgáfu af leiknum eða borga $0.99 fyrir fulla útgáfu.

ATH. greinar merktar sem “Föstudagsflipp” ber ekki að taka alvarlega og eru einungis að gamni gerðar.

Fylgstu með Simon.is á Facebook