Gamli góði Snake í nýja símanum

Árið er 1997 og lítt þekktur finnskur forritari að nafni Taneli Armanto leggur lokahönd á leik fyrir óútkominn farsíma sem stígvélaframleiðandinn Nokia hyggst setja á markað. Eldingu slær niður er hann skrifar síðasta punktinn í kóðann og hann hlær villimannslegum hlátri er hann prufukeyrir fyrstu keyrsluna. „Hann lifir! HANN LIFIR!“ æpir Taneli og hoppar um af gleði. Fyrsta skrefinu í átt til heimsyfirráða var nú lokið. Leikurinn átti eftir að ná gríðarlegum vinsældum  og grípa hug og hjörtu manna um ókomna tíð (ath. að heimildir skortir um nákvæmt hönnunarferli Snake og hefur greinarhöfundur fyllt lauslega inn í eyðurnar).

Já lesendur góðir, ég er að sjálfsögðu að tala um Snake! Leikinn sem allir ættu að kannast við. Fyrir þá sem a) ekki voru fæddir á þeim tíma eða b) hafa búið neðansjávar síðan 1997 þá kom leikurinn Snake út á hinum gríðar vinsælu Nokia 5110, 3210, 6110 og 8810. Leikurinn hélt svo áfram í þróun og varð að Snake II, Snake Xenzia, Snake EX, Snake EX2, Snakes, Snake 3D og Snake Subsonic. Þrátt fyrir allar þessar útgáfur hefur engin útgáfa komist með tærnar þar sem að hinn upprunalegi Snake hefur hælana (hausinn þar sem upprunalegi hefur halann).

Nú árið 2012 getum við loks farið aftur til grasrótarinnar og spilað þetta meistaraverk á Android snjallsímunum. Hver þarf að sprengja svikul svín í Angry Birds, gefa grænu skrímsli nammi að borða í Cut the Rope eða verjast linnulausum árásum uppvakninga í Plants vs Zombies þegar að maður getur étið svarta punkta og stækkað?

Leikurinn er án alls gríns virkilega vel hannaður. Hann hefur allt sem upprunalegi Snake hafði: 2 liti (grænn og svartur), 3 hljóð (píp, duddururu og ENH), 9 erfiðleikastillingar (+ 2 auka sem hönnuður appsins bætti við) og stigamet sem er ekki hægt að núllstilla!
Leikurinn spilast virkilega vel. Nokia 5110 ramminn gefur manni góða nostalgíu tilfinningu og hann er í alla staði virkilega skemmtilegur. Ég mæli hiklaust með þessum leik sem er fullkomnasta Snake endurgerð sem völ er á.

Snake 97 er frír og má nálgast hann á Android Market og á App Store

Snake 97 á Android Market

Snake 97 á App Store