Passaðu gagnamagnið í snjallsímanum – verðhækkanir framundan
Með fjölgun snjallsíma eykst óhjákvæmilega netnotkun í farsímakerfinu. Nokkuð stór hópur fólks á ágætis snjallsíma (jafnvel góða) en notar þá lítið sem slíka. Í því felst til dæmis að fólk fer ekki á netið í símanum. Þetta fólk veit ekki að oft á tíðum tengist síminn sjálfur netinu (ekkert draugalegt við það samt) og nær í upplýsingar. Eins langt og það nær er þetta í góðu lagi.
Hingað til hafa símafélögin verið með áþekk verð á gagnamagni fyrir þá sem gera engar ráðstafanir (kaupa gagnamagn í áskrift eða frelsi). Hjá Símanum, Tal og Vodafone borgar fólk 25 krónur fyrir hvern dag sem síminn tengist netinu (25×30 = 750 kr. á mánuði). Hjá Nova er að mér skilst alltaf innifalið gagnamagn ef maður er með númer í áskrift. Í frelsi er sama fyrirkomulag og hjá hinum, dagurinn kostar 25 krónur.
Þá kemur mergur málsins. Þann 1.febrúar tekur gildi ný verðskrá Vodafone. Mér sýnist allar hækkanir vera upp á hálfa eða eina krónu nema hækkun á dagpakkanum sem hækkar um 65 krónur. Dagpakkinn fer úr 25 krónum í 90, sem jafngildir 260% hækkun takk fyrir túkall!
Í krónum er þetta nokkur hækkun og töluverð í prósentum en verð á gagnamagnspökkum helst óbreytt. Það þýðir að fyrir farsímanotanda eins og mig sem fer reglulega á netið í símanum og kaupir gagnapakka, verður engin breyting. Bara sama verð.
Fyrir þennan hóp sem ég nefndi að ofan, sem kaupir ekki gagnapakka og fer ekki á netið í símnum en síminn tengist þó netinu daglega, heldur dagpakkinn áfram að virkjast en verðið fer úr 750 krónum á mánuði í 2.700 krónur. Ekki veit ég hver er hugsun Vodafone á bakvið hækkunina. Líklegast þykir mér að fyrirtækið sé að reyna að fá fólk til að kaupa frekar gagnamagnspakka (sá ódýrasti kostar 490 krónur).
Sé kenning mín rétt að til sé hópur fólks (hjá öllum fyrirtækjunum) sem á snjallsíma, fer ekki á netið en borgar daglega 25 krónur fyrir netnotkun án þess að vita af því, skoðar ekki símareikninginn og borgar án mótmæla – mun sami hópur fá tvö þúsund krónum hærri reikning með nýrri verðskrá.
Ég vona að þeir sem lesa þessa grein og ná að staðsetja sig í þessum hópi – að borga fyrir netnotkun án þess að fara á netið í símanum – muni hringja í Vodafone, eða sitt símafyrirtæki, og fá upplýsingar um þetta. Þjónustufulltrúinn getur sagt ykkur allt um málið, hvort síminn noti reglulega gagnamagn, hversu mikið, hversu oft, hvað það kostar þig og svo framvegis. Um að gera að fá þetta á hreint sem fyrst. Ég mæli með því að kaupa minnsta gagnamagnspakkann og leyfi sér þann muna að kíkja á internetið í símanum. Það er lúxus.