Af hverju slokknaði á Wikipedia? SOPA og PIPA á mannamáli
Nokkrar af stærstu vefsíðum heims lokuðu 18. janúar í mótmælum við tvö umdeild frumvörp sem liggja fyrir Bandaríkjaþingi. Frumvörpin ganga undir heitunum PIPA og SOPA. Frumvörpin fela í sér að Bandaríkjastjórn verði heimilt að slökkva á vefsíðum sem grunur leikur á að geti verið notaðar í þeim tilgangi að koma höfundarréttarvörðu efni í ólöglega drefingu. Einnig er lagt til í frumvörpunum að vefsíður sem gera notendum kleift að deila slíku efni séu ábyrgar fyrir því sem notendur þeirra gera. Þannig vilja stuðningsmenn frumvarpanna að hægt verði að draga YouTube, Wikipedia og fleiri til ábyrgðar brjóti einhver af notendum vefsíðnanna gegn höfundarétti.
Hugmyndirnar ganga svo langt að hafa áhrif á vefsíður sem eru vistaðar fyrir utan Bandaríkin. Í raun snúast þessi tvö frumvörp að miklu leiti að erlendum vefsíðum. Bandaríkjastjórn hefur þegar heimild til að loka á og taka yfir bandarískar vefsíður sem stjórnin telur að brjóti í bága við höfundaréttarlög. Vefsíður sem hafa deilt sjónvarpsefni og torrent-síður hafa verið meðal vefsíðna sem stjórnin hefur þegar lokað með þeim heimildum sem eru til staðar í bandarískum lögum í dag.
Óttast misnotkun
Andstæðingar frumvarpanna óttast helst að lögin verði misnotuð af hagsmunaaðilum eða notuð til þöggunnar. Samkvæmt lagafrumvörpunum nægir eiganda höfundarréttarvarins efnis að óska eftir því við vefþjónustuaðila að DNS-upplýsingum einstaka vefsíðna verði eytt og lokað sé á greiðsluþjónustur sem aðilar tengdir vefsíðunum kunni að nýta sér til að halda rekstri þeirra gangnadi.
Gert er ráð fyrir því að forsvarsmenn vefsíðna sem á að loka á fái nokkra daga til að verja sig fyrir bandarískum dómstólum áður en lokað er á þá.
Kostnaðarsamt að verjast
Það gefur auga leið að það er gífurlega kostnaðarsamt að verjast fyrir bandarískum dómstólum. Til að átta sig aðeins á tölunum sem um ræðir má nefna mál slitastjórnar Glitnis sem höfðað var í New York gegn sex einstaklingum, en kostnaðurinn við málaferlin hleypur á milljörðum króna. Það er því deginum ljósara að lítil eða meðalstór fyrirtæki (nú eða einstaklingar) hafa hreinlega ekki bolmagn til að verjast lokunum.
Andstæðingar frumvarpsins hafa einnig bent á að í Bandaríkjunum eru vefþjónustuaðilar oftar en ekki tengdir þeim sem eiga höfundarrétt á stafrænu efni. Sem dæmi má nefna Comcast sem á og rekur sjónvarpsstöðina NBC. Fyrirtækið getur sjálft lokað á erlendar síður telji það sig hafa rökstuddan grun að síðuna sé hægt að nota til að brjóta á höfundarrétti. Comcast er einmitt eitt þeirra fyrirtækja sem styðja frumvarpið.
Í þessari umfjöllun er aðeins snert á nokkrum meginþáttum SOPA og PIPA. Til frekari glöggvunnar um hvaða áhrif frumvörpin gætu haft er hægt að horfa á myndbandið hér fyrir neðan:
Heimildir: The Verge, Wikipedia, drög að SOPA og PIPA