1414 appið frá Vodafone – iPhone og Android

1414 appið skoðað

Síðustu vikur hef ég haft 1414 app Vodafone í símanum mínum. Hér kemur samantekt á upplifun minni af appinu. Appið var prufað og skoðað bæði í iOS og Android. Skjáskotin eru úr iOS útgáfunni.

Til að byrja að nota appið þarf maður að skrá sig inn. Ég er með aðgang að mínum síðum á heimasíðu Vodafone og gat því skráð mig beint inn. Þeir sem hafa ekki skráð sig inn áður þurfa að fara í gegnum nokkur skref í appinu og búa til aðgang. Eftir að hafa skráð sig inn einu sinni þarf maður ekki að skrá sig sérstaklega inn í hvert skipti sem appið er notað.

Upphafsvalmynd 1414 appsins

Í appinu eru níu valmöguleikar:

  • Mín notkun
  • Gagnamagn
  • Færsluyfirlit
  • Vinanúmer
  • Fylla á frelsi
  • Hafðu samband
  • Panta símtal
  • Dagskráin
  • Útskráning

Mín notkun
Þessi möguleiki sýnir helstu upplýsingar eins og áskriftarleið, inneignina, hversu margar vinamínútur eru eftir, gagnamagnsnotkun og fleira. Þetta er fínt yfirlit sem er gott að hafa. Í minni áskriftarleið fyrnist inneignin á 30 dögum. Því er til dæmis gott að geta með auðveldum hætti séð ef ég á einhverja inneign sem fer að fyrnast.
Til að byrja með virkaði þessi valmöguleiki ekki. Eftir einhverja daga eða vikur þá gat ég allt í einu skoðað þetta allt saman.

Færsluyfirlit - Error

Gagnamagn yfirlit

Gagnamagn
Valmöguleikinn er mjög einfaldur, súla sem sýnir hvað ég á mikið eftir af þessu 1GB sem ég er með í áskrift. Þetta sýnir allt sem ég vil vita um gagnamagnið. Þetta sýnir samt nákvæmlega sömu upplýsingar um gagnamagnið og í mín notkun og því engin sérstök þörf á þessum valmöguleika að óbreyttu. Kannski hugsunin sé sú að síðar verði t.d. hægt að sjá sundurliðaða notkun á gagnamagni.

Færsluyfirlit
Þessi valmöguleiki virkar stundum og stundum ekki hjá mér! Þegar hann virkar sýnir hann, eins og nafnið gefur til kynna, yfirlit yfir allar færslur, símtöl og gagnanotkun. Að mínu mati er þetta ekki nógu vel útfært. Þegar þetta virkar tekur mjög langan tíma að fá upp upplýsingarnar. Þá fær maður yfirlit yfir hverja einustu færslu og þegar maður er með snjallsíma sem er reglulega að tengjast netinu þá verða færslurnar óendanlega margar og maður missir alla yfirsýn. Það eru kannski 50-100 gagnafærslur svo kemur eitt símtal og aftur 50 gagnafærslur. Með þessari uppsetningu getur því verið mjög erfitt að lesa eitthvað út úr þessu yfirliti.

 

Vinanúmer
Ég er með frelsisnúmer. Hluti af því er að velja sér fimm vini til að hringja í án þess að greiða aukalega fyrir. Í appinu get ég breytt hvaða vinanúmer eru í gildi á hverju tímabili. Hafi ég þurft að breyta þessu hef ég gert það á mínum síðum á heimasíðu Vodafone. Óneitanlega er þægilegt að geta breytt þessu í appinu.

Fylla á frelsið
Persónulega mun ég líklega aldrei nota þennan möguleika, einfaldlega af því ég er með frelsið mitt í áskrift og inneignin endurnýjast því sjálfkrafa. Ég man þó vel eftir því þegar ég var að brasa við þetta sjálfur. Varð kannski innistæðulaus á leiðindatíma og þurfti að standa í því að kaupa inneign. Þá hefði ég viljað hafa þetta app.

Hafðu samband
Þennan valmöguleika hafði ég möguleika á að prufa þar sem færsluyfirlit virkaði ekki hjá mér til að byrja með (og virkar ekki þegar þessi grein er skrifuð). Ég sendi skilaboð og sagði að þetta virkaði ekki. Daginn eftir fékk ég svar um að tæknimenn væru að skoða málið. Þremur dögum síðar fékk ég aftur póst um að þetta væri í vinnslu.
Ég sé ekki fyrir mér að ég muni nota þennan valmöguleika neitt að ráði. Það skemmir þó ekki að hafa þennan möguleika.

Panta símtal
Ég bað um að hringt yrði í mig milli tíu og tólf næsta dag og fékk símtal þá. Það flottasta við þennan valmöguleika er að sá tími dags sem hægt er að panta símtal uppfærist með tilliti til þess hvað klukkan er. Svo ég nefni dæmi þá getur maður t.d. fram til kl. 14 pantað símtal á milli 14-16 samdægurs. Þegar klukkan er orðin 14 þá breytist við valmöguleikann “næsta virka dag”.  Þetta er klárlega mjög góður fídus.

Dagskráin
Þetta er fínn valmöguleiki. Ég hef stundum pirrað mig á að það sé enginn auðveld leið til að fá gott yfirlit yfir sjónvarpsdagskránna í símann. Þetta er lausnin. Þarna getur maður séð sjónvarpsdagskránna fyrir allar íslensku rásirnar og allar erlendu rásirnar sem eru í fjölvarpi 365.

 

Gallarnir sem ég sé við appið eru fyrst og fremst tengdir forritun. Þá má því auðveldlega laga í næstu uppfærslu. Í fyrsta lagi þá finnst mér pirrandi þegar ég rúlla milli valmöguleika (t.d. þegar ég ætla að panta símtal og er að velja klukkan hvað), þegar ég hætti að rúlla er sjálfvalið það sem er í miðjunni á „rúllunni“. Vanalega í iOS þá rúllar maður og þrýstir svo sérstaklega á það sem maður vill velja. Ef valmöguleikarnir eru margir þarf maður að rúlla nokkrum sinnum og þá velur appið gjarnan eitthvað sem maður ætlar ekki að velja. Það er svolítið erfitt að koma orðum að þessu. En allir sem hafa iOS tæki við höndina og 1414 appið geta prufað þetta og skilja þá hvað ég á við.

Í öðru lagi þegar maður þarf að skrifa eitthvað, t.d. í “Hafðu samband” valmöguleikanum, þá kemur lyklaborðið upp yfir dálkinn sem maður skrifar í. Þá þarf maður að byrja á að draga skjáinn til svo maður sjái hvað maður er að skrifa. Þetta er vissulega smáatriði en leiðinlegt en þetta þarf að laga.

Niðurstaðan er sú að þetta er alveg ágætt app. Það virkar þó ekki að fullu því ég get bara stundum séð færsluyfirlitið. Það er mjög þægilegt að geta með tveimur smellum athugað stöðuna á gagnamagninu og inneigninni.

Heilt yfir er þetta app fín hugmynd og töluvert meiri þörf á því en mörgum öðrum öppum sem við hjá Simon.is höfum skoðað. Símafyrirtæki eru þess eðlis að þetta eru fyrirtæki sem maður er í stöðugum samskiptum við, bein og óbeint, því maður er alltaf með símann við höndina. Svona app auðveldar þau samskipti nokkuð.

Fylgstu með Simon.is á Facebook

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] Nova gáfu út app fyrir Android og iPhone í ágúst síðastliðin og eru því annað fjarskiptafyrirtækið á Íslandi sem hefur gefið út app, en Vodafone appið kom út í fyrra. […]

Comments are closed.