Snjallsíminn í útlöndum: ferðasaga

Ég fór til útlanda nýlega og ákvað að nota símann til hins ítrasta á meðan ég var úti. Ég komst að því að það eru nokkur ótrúlega þægileg apps sem ég notaði mikið úti, mér og mínum til mikillar ánægju og þæginda. Mig langar að segja ykkur aðeins frá þeim apps sem ég notaði og hvernig þau nýttust mér.

Eitt af því fyrsta sem ég gerði þegar ég kom út var að sjálfsögðu að passa að það væri slökkt á roaming data og rölta svo til næsta fjarskiptafyrirtækis og fá mér sim kort. Ég var í Bretlandi og dílarnir þar voru nokkuð góðir, ég skellti mér á o2 því ég hafði verið hjá þeim áður og var nokkuð ánægður þá. Ég geri það reyndar ekki aftur því ég var stöðugt að missa samband þegar ég var úti og gat ekki farið inn í byggingar án þess að missa samband. Ég borgaði 10 pund (1.874 krónur) fyrir símanúmer og með því fylgdi 500mb gagnamagn, 300 sms og 10 punda inneign á númerið. Ég mæli hiklaust með því að fólk fái sér erlent sim kort ef það þarf ekki nauðsynlega að vera í símasambandi við fólk í gegnum íslenska númerið. Ég fékk allan tölvupóstinn minn og var alltaf á Google Talk í símanum, mér fannst lítið mál að fólk gæti ekki hringt í mig.

Google Maps er án efa þægilegasta app allra tíma til þess að hafa þegar maður er erlendis. Hvort sem það þurfti að finna veitingastað, búð, leiðbeiningar eða bara sjá hvar í fjandanum maður væri þá kom þetta app sér frábærlega. GPS staðsetning hjálpar frábærlega við þetta og ég verð að segja að Directions beta kom sér alveg ofboðslega vel þegar maður var á röltinu. Ég sló einfaldlega inn heimilisfangið sem ég var að fara á og síminn gaf mér svo leiðbeiningar um hvaða leið ég ætti að fara og sýndi leiðina í rauntíma á kortinu. Algjör snilld!

Tengdaforeldrunum fannst sérstaklega magnað að ég gæti slegið inn nánast hvaða stað sem er. Það þurfti ekki að setja inn fullt heimilisfang, oftar en ekki var nóg að skrifa ‘Waterstones Edinburgh’ og þá komu upp allar Waterstones verslanirnar í nágrenninu á kortið.

Ég notaði líka Foursquare mikið þegar ég var úti. Ekki nóg með að raða inn stigum í útlöndum (+3 First of your friends to check in here!) heldur gagnast forritið manni virkilega vel. Á flestum stöðum sem ég checkaði mig inn á voru 10-30 comment sem oft nýttust vel. Veitingastaðir, barir og kaffihús eru líka mjög virk í Foursquare tilboðum og fékk ég m.a. 10% afslátt á einum veitingastaðnum sem ég fór á bara vegna þess að ég hafði tékkað mig inn og séð tilboðið. Explore fídusinn er líka mjög skemmtilegur þegar maður er erlendis og fann ég tonn af skemmtilegum veitingastöðum og börum í gegnum það. Fólk var að skilja eftir tips eins og „Farðu í básana sem eru á bakvið barinn, þar er takki sem stendur á ‘More beer’ og ef þú ýtir á hann þá opnast lúga á veggnum og inn kemur bjór!“

Eins og lesendur hafa vafalaust séð þá var ég í Edinborg. Ég fór þangað á Edingborgar hátíðina og þá sérstaklega á Fringe hátíðina. Áður en ég fór þá hafði ég tekið eftir því að þeir hefðu gefið út Fringe app á Android og iPhone. Ég var ekki lengi að ná mér í það og guð minn góður, þetta app var algjör snilld á meðan ég var úti. Í því var hægt að fletta upp öllum 2,453 dagskráliðunum, öllum 40,254 sýningunum og öllum 259 stöðunum sem dagskrárliðirnir fóru fram á!  Hægt var að bóka miða í gegnum appið, sjá staðina á korti og sjá hvað var í gangi á næstu klukkutímum nálægt manni (út frá GPS eða WiFi staðsetningu). Þetta app var notað grimmt á meðan ég var úti og það var ofboðslega þægilegt að geta nálgast mest allt í appinu án þess að þurfa að vera í netsambandi (þar sem sambandið hjá o2 datt oft út).

Ég mæli hiklaust með því að fá sér erlent sim kort ef fólk vill nota símann sinn almennilega í útlöndum. Að notast við frí þráðlaus net verður mjög fljótlega þreytt og það er ömurlegt að geta ekki notað símann sinn eins og maður vill þó það sé kannski óþarfi í styttri ferðum. Mér fannst þetta vel þess virði að eyða tæpum tvö þúsund kalli í og geta þá notað símann eins mikið og ég vildi. Svo eru vissulega til fleiri apps sem er hægt að nota, ég mæli t.d. með TripAdvisor og Íslandsbanka (myntbreytan er snilld!).

2 replies

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] valmöguleikinn er mjög svipaður og mátti sjá í Ediburgh Fringe appinu sem ég fjallaði um fyrir nokkru. Þar getur maður séð staðsetningu sína á korti og einnig […]

  2. […] by Andri Valur Að vera með snjallsíma á ferðalagi erlendis er algjör snilld eins og Axel skrifaði fyrir skömmu á Símon.is. Síðastliðið vor var ég við þriðja mann í mánuð á ferðalagi um Perú í […]

Comments are closed.