Tasker leiðbeiningar

Ég skrifaði um daginn aðeins um Android appið Tasker sem ég vil meina að geti breytt símanum þínum í alvöru snjallsíma með því að framkvæma ýmsar aðgerðir við fyrirfram ákveðnar aðstæður.

Hér er tengill inn á appið í Android Market.

Núna langar mig að sýna hvernig maður setur upp mjög einfalda stillingu í Tasker. Þetta er ágætis æfing fyrir Takser byrjendur, en er aðeins ætlað til þess að sýna fram á einföldustu skipanir í forritinu. Til þess að fá síðan sem allra mest úr Android símanum þínum mæli ég með því að kafa enn dýpra ofan í þetta frábæra forrit og fikta eins og enginn sé morgundagurinn. Einnig eru neðst nokkrir góðir tenglar sem gætu nýst þeim sem vilja prófa Tasker.

Leiðbeiningar – Valmynd kemur upp þegar heyrnartól eru sett í samband

Það sem mig langar að síminn minn geri er að koma með nokkra valmöguleika um leið og ég sting heyrnartólum í samband við hann. Ég vil þetta svo að ég geti á sem fljótlegastan hátt byrjað að hlusta á tónlist þar sem það er jú eiginlega það fyrsta sem ég ætla mér að gera ef ég sting heyrnartólum í samband.

Við byrjum augljóslega á því að opna Tasker í símanum.

Mynd 1: Aðalvalmynd

Mynd 2: Stillingu gefið nafn


Á Mynd 1 má sjá aðalvalmyndina í Tasker. Eins og sjá má er ég með nokkrar stillingar uppsettar nú þegar.

Til þess að byrja veljum við plús takkann gefum stillingunni nafn eins og sést á Mynd 2. Því næst kemur valmynd eins og sú sem er á Mynd 3.

Mynd 3: “Context” valið

Mynd 4: Hér förum við í Hardware


Í þeirri valmynd eru nokkrir valmöguleikar og strax hér er hægt að sjá að þetta forrit getur búið til stillingar út frá hinum ýmsu aðstæðum. Hér viljum við velja state.

Næst er farið í Hardware (sem sjá má á Mynd 4) og veljum síðan Headset Plugged (Mynd 5). Í valmyndinni sem kemur næst (Mynd 6) er okkur gefinn kostur á að velja hvers kyns heyrnartól eru sett í samband (t.d. með eða án hljóðnema). Ég kýs að hafa bara Any og ýta síðan á hakmerkið (e. checkmark).

Mynd 5: Við viljum fá ákveðna aðgerð þegar heyrnartóli er stungið í samband

Mynd 6: Hér væri hægt að vera nákvæmari og láta t.d. ákveðna aðgerð aðeins gerast þegar heyrnartóli með hljóðnema er stungið í samband


Á næstu valmynd veljum við New Task þar sem við ætlum ekki að láta símann tilkynna okkur að við höfum sett heyrnartól í samband – við vitum það nú þegar.

Við erum beðin um nafn aftur en það svosem þarf ekkert endilega.

Þegar við fáum valmyndina sem sjá má á Mynd 7 ýtum við á plús takkann til að fá næstu valmynd (Mynd 8).

Mynd 7: Ekkert verk valið ennþá

Mynd 8: Gott dæmi um möguleika Tasker


Í þessari valmynd getum við bætt því við hvað síminn okkar á að gera þegar hann er kominn í þær aðstæður sem við höfum nú þegar stillt, að heyrnartólum sé stungið í samband.

Hér kennir ýmissa grasa og möguleikarnir eru það margir að ég á örugglega aldrei eftir að vita almennilega hvað helmingurinn af þeim gerir.

Í þessari valmynd veljum við App og síðan Load App. Þegar við erum búin að því fáum við valmynd yfir öll forritin sem eru í símanum okkar. Við veljum einfaldlega hvaða forrit á að fara í gang og síðan græna hakmerkið.

Þetta skref er endurtekið nokkrum sinnum þangað til maður er kominn með lista líkum þeim sem er á Mynd 9.

Mynd 9: Búið að velja þrjú smáforrit sem ræsa á þegar heyrnartóli er stungið í samband

Mynd 10: Hér þarf að gera breytingu til að fá upp valmynd fyrir smáforritin þrjú


Eins og sjá má hef ég valið að láta Tasker setja í gang forritin gogoyoko, 8tracks og Google Music (smellið hér til að sjá umfjöllun Símon.is um Google Music).

Nú erum við komin á lokasprettinn en ef við myndum klára þetta hér myndu öll þessi forrit fara í gang hvert á eftir öðru og það viljum við ekki.

Til að valmynd komi upp þegar heyrnartóli er stungið í samband við símann þurfum við að fara inn í stillingar hér með því að ýta á takkann með skrúfjárninu og lyklinum sem er við hliðina á A takkanum.

Á Mynd 10 má sjá hvernig þetta er stillt áður en við gerum nokkrar breytingar. Í Task Type er nú þegar valið Execute en við viljum að stillt sé á Menu þannig að þetta sé eins og á Mynd 11.

Mynd 11: Nú er búið að velja Menu og þá má ýta á græna hakmerkið

Mynd 12: Loka afurðin


Nú er þessu svo að segja lokið hjá okkur og nema þið viljið gera einhverjar frekari stillingar veljum við núna græna hakmerkið þangað til við erum komin út úr Tasker forritinu.

Núna ætti eitthvað á borð við það sem sést á Mynd 12 að gerast næst þegar heyrnartólunum er stungið í samband.

Tasker veit núna að þegar ég sting heyrnartólinu mínu í samband er ég að fara að hlusta á tónlist og býður mér því upp á þessa þrjár valmöguleika.

Fleiri dæmi og frekari upplýsingar

Eins og ég sagði voru þetta bara einfaldar leiðbeiningar til sýna hvernig Tasker virkar. Möguleikarnir eru endalausir og hægt er að fara út í virkilega flóknar pælingar og gera símann að algjöru snjallsímatryllitæki.

Á sama máta og ég sýndi með þessum einföldu leiðbeiningum er hægt að búa til mjög einfaldar reglur eða stillingar í Tasker. Síminn minn slekkur t.d. sjálfkrafa á öllum hljóðum ef það er fundur á dagatalinu mínu, kveikir á GPS um leið og ég opna Google Maps eða Runkeeper. Svo kýs ég að hafa ákveðin öpp í símanum mínum, eins og Facebook, læst á meðan ég er í vinnunni (það er alltaf gaman að stríða fólki með því að rugla í Facebook hjá þeim). Síðasta dæmið stilli ég eftir staðsetningu, en athugið að best er að nota ekki GPS við að staðsetja símann vegna þess að það notar mikið batterý. Betra er að gefa sér smá radíus og láta símann sinn staðsetja sig út frá sambandi við næstu tengipunkta.

Ég mæli með því að skoða á netinu leiðbeiningar á eftirfarandi síðum til að kafa enn dýpra ofan í Tasker:
http://tasker.dinglisch.net/
http://tasker.wikidot.com/
http://tasker.dinglisch.net/userguide/en/index.html

Einnig eru Tasker umræður á mörgum spjallborðum á netinu þar sem notendur segja frá sínum stillingum og aðstoða oftar en ekki aðra við að setja upp þessar stillingar hjá sér.

Ykkur er svo að sjálfsögðu velkomið að koma með spurningar í ummælum hér fyrir neðan.

Fylgstu með Simon.is á Facebook

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] Þetta er ekkert ósvipað og Tasker sem við fjölluðum um fyrir nokkru síðan og má sjá hér. Þetta hefur ekki jafn mikla möguleika á stillingum en er einfaldara í […]

Comments are closed.