Stjórnaðu símanum í tölvunni með AirDroid
Með AirDroid er hægt að stjórna Android símanum í gegnum vafra yfir þráðlaust net. Forritið er mjög auðvelt í notkun. Það finnur sjálfkrafa IP töluna á símunum og býr til slóð og lykilorð sem nota skal í vafra í tölvunni. Það má segja að það búi til lítinn Android vefþjón, þegar það er tengt þráðlausu neti, sem gefur kost á að tengjast sýndarskjáborði fyrir símann.
Með forritinu er hægt að skoða og setja inn á símann allskonar efni, svo sem tónlist, hringitóna, myndir, forrit og leiki. Einnig er hægt að skoða símtalaskrá, skoða tengiliði og skoða og senda SMS.
Hönnunin á sýndarskjáborðinu er nokkuð góð og einföld og hafa vandamál með að tengjast símanum yfir þráðlaust net verið í lágmarki. Skemmtilegt er að segja frá því að það virkaði hjá mér yfir HotSpot. Síðan ég prófaði það þá hef ég ekki tengt símann minn við tölvu með USB snúru. Eina vandamálið sem ég lenti í var að senda SMS í númer sem byrja á + (t.d. +354…). Það er eins og forritið breyti „+“ í HTML kóða eða „%2B“ og kemst því skeytið aldrei til skila. Að öðru leiti er þetta topp forrit sem er mjög svo gagnlegt og mæli ég með því að prófa það. Athugið samt að það er í beta eins og er.