Snjallsíminn gerður að nútíma talstöð – Skemmtilegt app.

Fyrir skömmu komst ég í kynni við appið Voxer Walkie-Talkie sem sem býður upp á að senda hljóðskilaboð sín á milli.

Appið virkar þannig að eftir að hafa sett það í símann skráir maður sig inn. Auðveldast er að nota Facebook aðganginn til þess, sérstaklega þar sem appið finnur þá alla vini manns á Facebook sem eru að nota appið. Að þessu loknu ætti maður að vera kominn með nokkra vini í vinalistann.

Því næst velur maður einhvern vin sem maður vill senda skilaboð og heldur niðri þar til gerðum takka og talar. Um leið og maður sleppir takkanum sendast hljóðskilaboðin til vinarins. Einnig er hægt að senda ljósmyndir og smáskilaboð í gegnum forritið.

Fyrir mitt leyti verð ég að viðurkenna að ég er nokkuð hrifinn af þessu appi. Þetta er einhver millivegur á milli þess að að hringja og senda sms. Vissulega geta neikvæðir haldið því fram að þetta sé óþarft app og tilgangslaust, en það er sama fólk og segir um sms „af hverju ekki bara að hringja?“. Við hin vitum að stundum hentar betur að senda sms. Það sama gildir með þetta app, stundum er betra að spyrja einfaldrar spurningar gegnum appið en að skrifa sms, ég tala nú ekki um ef maður vill spyrja nokkra í einu. Appið býður upp á að senda hljóðskilaboð á nokkra vini í einu, sem er til dæmis þægilegt ef maður er að reyna að hóa saman fólki í hádegismat eða eitthvað álíka. Það hef ég reynt og virkað vel.

Appið býður upp á allskonar stillingar. Maður getur t.d. valið hvort maður vilji að skilaboð spilist í gegnum hátalara eða beint í eyrað (e. speakers eða handset). Hægt er að hlusta á skilaboðin „í beinni“ ef maður vill, því maður sér þegar hinn er að tala inn á appið.

Niðurstaðan er sú að þetta er fínasta app, nokkuð skemmtilegt og frítt. Ég hef nú þegar notað það nokkuð og á örugglega eftir að halda því áfram. Hvort þetta sé nútímatalstöð, eins og segir í fyrirsögninni, læt ég ykkur að dæma um. Þetta á það allavega sameiginlegt með talstöðvum að maður þarf að halda niðri takka til að tala!

Appið er til bæði fyrir iOS og Android og mæli ég með því að fólk skelli sér á þetta og prufi.

Heimasíða Voxer

Appið í Appstore

Appið í Android Market

 

Fylgist með Simon.is á Facebook