Pósturinn – Flott en tilgangslítið app
Pósturinn gaf nýlega út app fyrir Android og iOs sem er hannað, eins og flest flott íslensk öpp, af Stokkur Software. Það fyrsta sem ég hugsaði var „Enn eitt íslenska appið, á einhver eftir að nota þetta?“ og var mér hugsað til Smáralindar og N1 appanna. Svarið við þeirri spurningu er einfalt: nei, það eiga ekki margir eftir að nota þetta app.
Appið sjálft lítur vel út, það er svolítill jólabragur yfir því og notendaviðmótið er frekar einfalt. Á grunnsíðunni eru 3 möguleikar sem blasa við manni, það er hægt að finna sendingu sem maður á von á með því að stimpla inn viðtökunúmerið, kaupa sms frímerki og hafa samband við þjónustuver. Fyrir neðan eru svo þrír valmöguleikar: heim, kort og verðskrá. Einnig er hægt að smella efst til hægri á „Jól 2011“ til þess að fá upp lista yfir skiladaga á pökkum og bréfum ásamt því að sýna afgreiðslutíma pósthúsa um jólin og í desember.
Mér finnst persónulega þetta app vera algjörlega óþarft, það hefði verið mikið sniðugara að setja þetta upp sem m.postur.is og bjóða þannig fólki upp á þægilega mobile síðu frekar en app sem að verður einungis notað af örfáum. Eina sem ég gæti hugsað mér að nota er ‘Finna sendingu’ möguleikinn, en þar sem ég fæ ekki það mikið af pökkum þá get ég alveg eins farið inn á www.postur.is -> Finna sendingu (Eða á m.postur.is, væri sá vefur til). Sms frímerking finnst mér vera ágætis hugmynd, en ég sé ekki fram á að ég muni nokkurntíman nýta mér þá þjónustu, ég skrifa hrikalega illa og þessi leið býður upp á klúður að mínu mati. Það sem ‘Kaupa SMS frímerki’ takkinn í appinu gerir er að vísa manni yfir í það SMS forrit sem maður notar og skrifar textann og númerið fyrir mann. Eitthvað sem maður getur í raun gert alveg sjálfur án þess að hafa appið. ‘Hafðu samband við þjónustuver’ er eitthvað sem ég myndi aldrei fara í app til þess að gera, ef ég vissi ekki númerið myndi ég fara á mja.is og fletta því upp þar. Ef ég þyrfti nauðsynlega að vita hvað 300 g bréf kostaði með bréfpósti gæti ég alveg eins flett því upp á postur.is (enn og aftur, m.postur.is gæti sinnt þessu).
Appið er þó ekki alslæmt, kortið sem er hægt að fá í því er nokkuð sniðugt. Það sýnir staðsetningu manns og hvar hægt er að finna pósthús eða póstkassa í nágrenninu. Póstkassa valmyndin er þó eins og frumskógur, þar sem yfir 250 póstkassa er að finna á landinu. Maður þarf því að zooma ansi mikið inn á kortið til þess að finna næsta póstkassa.
Þetta app er ekki slæmt, það er bara óþarfi að mínu mati. Hugmyndin er fín, framkvæmdin er góð og tek ég að ofan fyrir Stokki fyrir að sýna enn og aftur að þeir kunna að gera flott öpp. Appið gerir það sem það segist ætla að gera, en ég held að mjög fáir eigi eftir að koma til með að nota það. Ég er líka frekar hræddur um að það muni vera í jólabúningnum að eilífu, þar sem að ég efast stórlega um að notkun á appinu verði það mikil að það borgi sig að uppfæra það reglulega. Appið er í raun aðeins nothæft fyrir þá sem fá reglulega senda pakka og þurfa nauðsynlega að vita hvar þeir eru staddir á meðan þeir eru ekki við tölvu, fólk sem notar sms frímerki mikið en getur engan veginn munað númerið sem á að senda smsið á, án hjálpar frá appi og fyrir fólk sem veit ekki hvar póstkassar eða pósthús eru.
Flott app, en afhverju ekki bara að gera m.postur.is? Þá gæti fólk með WP7 og Symbian fengið að njóta þess líka..
Trackbacks & Pingbacks
[…] er mjög ánægður með nýjustu greinina inná simon.is, þar sem Axel Paul gagnrýnir mobile appið sem Íslandspóstur var nýlega að gefa […]
Comments are closed.