Örstutt saga snjallsímans

Fyrsti snjallsíminn, IBM Simon

Hér verður farið aðeins yfir sögu snjallsímans, allt frá IBM Simon til iPhone og Android.

Snjallsíminn er fyrirbæri sem á stóran hluta af allri tækniumræðu þessa dagana og undanfarin ár að sjálfsögðu. Eftir nokkur ár verður væntanlega ekki lengur talað um snjallsíma, heldur bara síma. Aðrir símar verða væntanlega kallaðir „æi svona gamlir símar“. Börn framtíðarinnar eiga bara eftir að sjá “venjulega” síma á söfnum, við hliðina á túbusjónvörpum.

Undanfarin ár hefur tækninni fleytt fram á undraverðum hraða og algjör bylting átt sér stað. Fólk eyðir gríðarlegum tíma í þessa nýju glæsilegu síma sem eru með stórum snertiskjám og veita tengingu við umheiminn hvar sem þú ert. En snjallsíminn var ekki fundinn upp á þessu árþúsundi.

Síminn sem gat faxað

IBM Simon er líklega fyrsti snjallsíminn og leit dagsins ljós árið 1992, sama ár og Sir Mix-a-Lot gaf út tímalausu snilldina Baby Got Back, Bill Clinton var kjörinn forseti Bandaríkjanna og teiknimyndin Alladín kom út. Þessi sími var eiginlega frekar flottur, hann væri það kannski ekki í dag. Hann var með snertiskjá, þú gast tekið á móti tölvupósti í honum, skoðað dagatalið og sent fax, takk fyrir! Og þetta eru ekki einu sinni allir eiginleikar hans.

Ericsson R380

En snjallsíminn átti langt í land með að verða notaður af jafn mörgum og raunin er í dag. Nokia gaf út fyrsta Nokia Communicator símann árið 1996 en það var ekki fyrr en Ericson R380 kom út að sími sem nálgaðist stærð venjulegra síma var kynntur neytendum, þetta var árið 2000. Sama ár kom fyrsti Nokia snjallsíminn með lita snertiskjá.

Það voru ennþá sjö ár í fyrsta iPhone símann.

Symbian, Windows, RIM, Palm og aðrir

Upp úr byrjun þessa árþúsunds voru hlutirnir byrjaðir að malla hægt og rólega. Symbian stýrikerfið kom t.d. á fleiri síma. Symbian var sameignarfyrirtæki helstu fyrirtækjanna í farsímabransanum. Stýrikerfið var hinsvegar ekki nýtt heldur byggði á Epoc stýrikerfinu frá Psion sem kom út 1988. Nokia drap Symbian verkefnið með því að kaupa hina út. Þegar Nokia var orðinn ráðandi í Symbian foundation hættu Sony Ericsson og Samsung að nota það og seldu Nokia sinn hlut.

Kanadíska fyrirtækið Research in Motion (RIM) gáfu út fyrsta Blackberry símann árið 2002 og var fókusinn að veita bestu tölvupóstsþjónustuna sem í boði var í snjallsímum á þessum tíma. RIM höfðu þar áður aðallega verið í friðþjófs (e. pager) tækninni. Windows voru með sína farsímalausn með Windows Phone stýrikerfinu og þá var Palm OS stýrikerfið notað á þó nokkrum símtækjum upp úr 2001. Palm OS og Windows Phone stýrikerfin þróuðust upp úr lófatölvustýrikerfum.

En þótt mikil þróun hafi klárlega átt sér stað á þessum tíma varð engin alvöru breyting. Jújú, flottari og stærri skjáir, þú gast gert meira með símanum, mp3 kom inn í myndina o.s.frv. Snjallsími var samt ennþá bara eitthvað sem viðskiptafólk nýtti sér að einhverju viti. Blackberry símarnir voru gríðarlega vinsælir sökum þess að þeir höfðuðu svo vel til einmitt þessara neytenda. Snjallsíminn var ennþá bara fyrir þá sem þurftu að hafa skrifstofuna með sér hvert sem þeir fóru. Meðaljóninn hafði enga þörf og engin not fyrir svona síma.

Gaur í rúllukragapeysu og framtíðin

Árið 2007 breyttist allt. Steve nokkur Jobs kynnti fyrsta iPhone símann þetta ár í sinni klassísku svörtu rúllukragapeysu. Með þessum síma var snjallsíminn eitthvað sem allir gátu notað, og eitthvað sem alla langaði í.

Steve Jobs að kynna fyrsta iPhone símann

“I have been looking forward to this for two and a half years […] today, Apple is going to reinvent the phone.” – Steve Jobs, 9. janúar 2007.

Hönnunin var flott, stýrikerfið var ótrúlega vel slípað, einfalt og aðgengilegt og verðið var viðráðanlegt. Hundruðir biðu í röð eftir símanum þegar hann kom út og varð hann uppseldur í mörgum verslunum á nokkrum klukkustundum. Time kallaði gripinn uppfinningu ársins 2007. Steve Jobs hafði staðið við stóru orðin og endur-uppgötvað símann. Í kjölfar útgáfu fyrsta iPhone símans var smáforritaverslunin, App Store, opnuð  og í dag er ekkert stýrikerfi með jafn mörg forrit í boði og iOS stýrikerfið. 11. júlí árið 2008 voru 500 forrit í boði. Í október á þessu ári fór þessi tala yfir 500.000.

Þó að snjallsíminn sé klárlega eldri en fyrsti iPhone síminn var hann klárlega fyrsti sinnar tegundar. Snjallsími fyrir hinn almenna neytanda.

Snjalli róbótinn

Fyrsti Android síminn kom árið 2008

Það var engin samkeppni við iPhone til að byrja með. Google hafði keypt Android stýrikerfið árið 2005 og árið 2008 kom fyrsti Android síminn út, HTC Dream. Ólíkt iOS stýrikerfinu frá Apple var Android opið og fengu símaframleiðendur að nota það sér að kostnaðarlausu. Nú fyrst byrjuðu aðrir símaframleiðendur að bjóða upp á raunhæfan valkost í staðinn fyrir iPhone.

Blackberry hélt sínu striki og seldu mikið af símum með sínu eigin stýrikerfi en markaðshlutdeildin fór minnkandi. Nokia, sem eitt sinn voru í algjörum sérflokki, hafa ekki verið að gera gott mót á snjallsímamarkaðnum undanfarið. Á þessu ári tilkynntu þeir að Symbian kerfinu yrði að flestu eða öllu leyti skipt út fyrir annað. Þeir hófu samstarf með Windows. Í dag er Windows Phone 7.5, eða Mango, nýjasta uppfærsla þessa stýrikerfis frá Windows. Ætlunin er að Windows Phone 7 eigi að keppa við Android og iOS stýrikerfin

Lögfræðingar maka krókinn

Undanfarið hefur mikil harka hlaupið í samkeppnina á þessum markaði. Mörghundruð lögsóknir á milli flestra ef ekki allra fyrirtækjanna á sviði farsíma hafa litið dagsins ljós á undanförnum mánuðum. Allir vilja meina að þeir hafi fundið eitthvað upp og/eða eiga einkaleyfi á tækni sem samkeppnisaðilinn er að nota. Ein mest umtalaða deilan í dag er á milli Apple og Samsung og eru lögfræðingareikningarnir ábyggilega í hærra lagi hjá þessum fyrirtækjum.

Það er skoðun mín að þessi barátta komi sér illa fyrir neytendur og sé til þess fallin að hamla þróun símtækja og forrita. En þetta eru jú fyrirtæki sem eru ekki að reka góðgerðarstarfsemi og kannski er þessi harka einfaldlega nauðsynleg. Ég vona engu að síður innilega að þessu fari að linna og framleiðendur komist kannski að þegjandi samkomulagi um að hætta þessu væli og halda áfram að búa til geggjuð tæki!

Og hvað svo?

Skjáskot úr Angry Birds leiknum geysivinsæla

Við vitum öll hvað snjallsíminn getur í dag. Við fylgjumst með því hvar vinir okkar eru og hvað þeir eru að gera. Við tökum flottar myndir og hágæða myndbönd og deilum með öðrum. Við skrifum tölvupósta, hlustum á tónlist, horfum á myndbönd, hendum fuglum í svín og fiktum og fiktum. Möguleikarnir virðast endalausir og fjöldi forrita sem í boði eru á hinum ýmsu stýrikerfum er ótrúlegur og fer hækkandi með hverjum einasta degi.

Það er ómögulegt að segja hver næsta stóra bylting á farsímasviðinu verður, en eitt er víst að snjallsími nútímans er flott og skemmtileg græja og framleiðendum snjallsíma hefur tekist að gera þessi tækni að ómissandi hluta í líf ansi margra í dag.

Heimildir:
Technocrati: A Brief History of Smartphone [infographic]

Dell Android Smartphones: Smartphones – When did we get so spoiled? (History of smartphones)
Networkworld.com: A brief history of smartphones
Wikipedia: Smartphone

Smartphone Guide.com: A Short History of the Smartphone
TheNextWeb.com: The History of the smartphone
Sooperarticles: The History of The Smartphone

Fylgstu með Simon.is á Facebook