Ætlar þú að fá þér sömu tegund af síma?

Sumir neytendur eru mjög tryggir ákveðnum merkjavörum og er það eins með síma eins og margt annað. Algengast er að baunað sé á iPhone notendur og þeir sakaðir um að kaupa iPhone vegna þess að hann glansar, eða á mömmu gömlu því einhverra hluta vegna vill hún ekkert nema Nokia.  Simon.is fór á stúfana, skoðaði hvort þetta trygglyndi hefði verið rannsakað í kringum snjallsíma og hversu mikið þetta ráði för þegar hugað er að nýju símtæki.

Við fundum fljótt tvær rannsóknir frá GfK sem er risastórt alþjóðlegt markaðsrannsóknarfyrirtæki. Önnur rannsóknin fjallar sérstaklega um hversu tryggir neytendur eru snjallsímaframleiðendunum. Hún er framkvæmd 2010 og tóku 2.653 manns þátt í sex löndum. Seinni rannsóknin var gerð núna í haust og tekur fyrir hvað það er sem býr til snjallsímaeigendur sem eru tryggir sínum framleiðanda. 4.257 snjallsímaeigendur frá níu löndum tóku þátt í henni.

Í ljós kom að 56% þátttakenda höfðu ekki myndað sér neina skoðun um hvaða tegund snjallsíma þeir myndu fjárfesta í næst sem sýnir að markaðurinn er mjög opinn . Þetta horfði þó aðeins öðruvísi við hjá eigendum Apple símtækja því þeir virðast ákveðnari í að halda sig við sinn framleiðanda en meðal-Jóninn.

Að bera saman framleiðendur símanna er eitt, en það segir ekki allt sem er að gerast á markaðnum því mikil barátta er um hylli neytendanna á stýrikerfunum.Margir framleiðendur eru að framleiða síma og setja á þá Android og Windows Phone 7 stýrikerfið ólíkt iOS (iPhone símar), Symbian (Nokia símar) og Blackberry þar sem einungis einn framleiðandi er fyrir hvert stýrikerfi.

Þegar tryggð við stýrikerfi er skoðað kemur í ljós að aðeins 25% snjallsímaeigenda eru ákveðnir að halda sig við sama stýrikerfið þegar keyptur verður nýr snjallsími. Þessu er þó mjög misskipt eftir því hvaða stýrikerfi er á núverandi síma og aftur eru iPhone (Apple) eigendur aftur tryggastir. Eftirfarandi listi sýnir hversu há prósenta ætlar aftur að kaupa síma með sama stýrikerfi:

– 59% hjá iPhone eigendum.

– 35% hjá Blackberry eigendum.

– 28% hjá Android eigendum.

– 24% hjá Symbian (Nokia) eigendum.

– 21% hjá Windows Phone 7 eigendum.

 

Hvaða ástæða liggur á baki þess að neytendur vilja sama stýrikerfið á nýjum síma?  72% Þátttakenda sögðu auðvelt að komast í bæði forrit og stillingar í sínum símum og að fara frá því sem maður kann vex einfaldlega í augum margra.  Þegar skoðuð eru algengustu svörin fyrir því afhverju þátttakendur vildu ekki skipta um síma eru þau öll tengt almennri notkun á tækjunum:

– 33% Svöruðu að það væri vandamálið við koma upp svipaðri uppsetningu á öðrum síma (finna svipuð forrit og stilla símann).

– 29% Svöruðu að þurfa að læra á nýjan síma.

– 28% Svöruðu að þurfa að færa allt efni (tónlist, myndbönd, bækur, forrit) á milli símanna.

 

Einnig kom fram fylgni milli þess hversu mörg forrit neytandinn notar og hversu tryggur hann er símaframleiðandanum (sjá mynd).

Fylgni á milli fjolda appa og tryggdar

Sjö virðist vera töfratalan því um leið og neytendur eru farnir að nota sjö forrit að staðaldri á snjallsímanum þá hefur myndast tryggð við framleiðandann.

 

Á þetta við þig? Notar þú sjö eða fleiri forrit að staðaldri? Ert þú tryggur þínum símaframleiðanda?

 

Heimildir:
http://www.gfk.com/group/press_information/press_releases/009051/index.en.html
http://www.reuters.com/article/2010/11/29/us-smartphones-survey-idUSTRE6AS0XB20101129
 

Fylgstu með Simon.is á Facebook