TanZen æfir hugann [Gagnrýni]

Það er mér algjör ráðgáta hvernig ég gat beðið þolinmóður í biðröðum, á biðstofum eða setið rólegur á klóinu áður en snjallsímar komu til sögunnar. Því í dag eruð þessar og svipaðar aðstæður hið minnsta mál þar sem hægt er að grípa símann og vafra um netið, lesa póst, kíkja á skáldsögu og jafnvel spila leiki. Skemmtilegast er að komast í góða ráðgátu- eða púslleiki, sérstaklega þar sem maður getur platað sjálfan sig í að þykjast vera æfa hugann með þeim og um leið gáfnafarið.

Einn slíkur leikur sem ég komst í nýlega er TanZen frá Little White Bear Studios. TanZen er í raun hið fræga Tangram púsl í tölvuformi sem byggist á því að raða 7 kubbum inn í skuggamynd og þarf að nota alla kubbana. TanZen er mjög góð útfærsla af Tangram og það eru nú þegar yfir 500 mögulegar skuggamyndir í leiknum. Vitað er um 6500 Tangram mynstur, svo það er af nógu að taka.

Það er hægt að spila TanZen á tvo vegu. Hægt er að velja um að hafa skuggamyndina fyrir miðju, sem maður dregur svo kubbana inní og reynir að láta þá passa. Hin leiðin er að hafa skuggamyndina bara til hliðsjónar sem litla mynd og raða svo kubbunum saman á autt svæði og líkja eftir skuggamyndinni. Eins einfalt og þetta virðist þá er þrælmikil skemmtun í því að klára hvert púslið á fætur öðru, ásamt því að stundum eru þær ansi erfiðar og geta tekið smá tíma að finna rétta samsetningu.

Einn smágalla hef ég rekist á ef maður hefur uppfært stýrikerfið í iOS 5. Þar sem kubbarnir eru staðsettir ofarlega á skjánum, og maður dregur þá niður í átt að skuggamyndinni, á iPhone það til að halda að maður sé að draga niður nýja upplýsingaskjáinn sem kom með uppfærslu 5. Fyrir utan það er TanZen upplögð afþreying og auðvelt að grípa inn í hann hvenær sem stund gefst.

  • Stýrikerfi: iOS
  • Verð: 0.99 USD
  • Einkunn: 8 af 10

 

TanZen á App Store fyrir iOS