Nokia Lumia 800 fær verðlaun í Bretlandi

Nokia Lumia 800

Samstarf Nokia og Windows hefur vakið mikla athygli og fyrsta afurð þess hefur nú litið dagsins ljós með útgáfu Lumia 800. Síminn, sem keyrir á Windows Mobile 7.5 (Mango), er klárlega mjög glæsilegt tæki og hefur fengið fína dóma undanfarið. Ég hef enn ekki komið höndum mínum yfir gripinn til að kynna mér hann sjálfur, en miðað við það sem maður hefur séð og lesið þá virðist þetta vera hörku græja.

Lumia 800 er ekki búinn að vera fáanlegur lengi í Bretlandi, en ritstjórn What Mobile tímaritsins hafa nú þegar valið Lumia 800 sem síma ársins (e. Editor’s Choice Awards). Þetta er sannarlega mikill sigur fyrir Nokia sem hafa ekki verið að gera neitt sérstaklega merkilega hluti í smartsímaheiminum upp á síðkastið. Sími ársins, valinn af lesendum tímaritsins, var Samsug Galaxy SII.

Þó ég geti persónulega hvorki staðfest né neitað því að þetta sé frábær sími, kemur þetta val mér dálítið spánskt fyrir sjónir. Í fyrsta lagi hafa komið út símar á þessu ári sem eru með betri skjá og betri vélbúnað (e. hardware) og þar fyrir utan er svo stutt síðan að Lumia 800 kom út að ég efast um að allir þeir (greinilega) fjölmörgu sem telja þennan síma þann besta á árinu hafi haft tíma til að skoða hann rækilega.

Þrátt fyrir þessar efasemdir verður það samt að segjast að ef samstarf Nokia og Windows heldur áfram á þessum nótunum getur vel verið að fyrirtækin eigi ennþá erindi inn á þennan markað.

[Heimild]

 Fylgstu með Simon.is á Facebook